Lögbókandagerðir
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Forseti (Jón Helgason):
    Ég hlýt að mótmæla því að þessi kynning á dagskrá fundar í dag og næstu fundardaga sé meiningarlaus. Það var ákveðið á fundi með formönnum þingflokka að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig dagskrá yrði á fundum komandi viku og kynna það. Þó að mál á fundi séu ekki tekin í nákvæmlega sömu röð og þau standa á dagskránni held ég að það hljóti að vera gagnlegt fyrir þingmenn að hafa einhverja hugmynd um efni dagskrár. Jafnframt er þetta þá gert sem ábending til nefnda um að þær reyni að skila málum frá sér þannig að því markmiði sem sett er fram í dagskránni sé hægt að ná. En að sjálfsögðu er dagskrá fyrir fund marga daga fram í tímann ábending en ekki endanleg niðurstaða.
    Jafnframt hlýt ég, þó ég harmi ef hv. þm. hefur ekki getað komist að með þá ræðu sem hann vildi halda um vaxtalög, að andmæla því ef það á að skilja orð hv. ræðumanns þannig að ég hafi reynt að hafa hér málfrelsi af deildarmönnum. Það tel ég ekki réttmæta ásökun.