Lögbókandagerðir
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég vildi aðeins fá að þakka hv. allshn. fyrir góð og vönduð vinnubrögð í sambandi við meðferð þeirra mála sem hér hafa verið til umræðu. Ég get tekið undir það með hv. 8. þm. Reykv. að það vantar meiri festu í okkar þjóðfélag. Ég er þeirrar skoðunar að framganga þessara mála sé m.a. til þess fallin að skapa meiri festu á þessu sviði. Það hefur verið til umfjöllunar í mjög langan tíma að hér yrðu breytingar á og hafa ýmis frumvörp verið flutt hér á Alþingi í því skyni þannig að það hefur ávallt legið í loftinu að það yrði breyting og nánast allir um það sammála þótt mismunandi áherslur væru í þeim efnum.
    Ég tel eðlilegt og nauðsynlegt að taka lengri tíma til undirbúnings þessa máls og mætti svo hafa verið varðandi ýmis önnur stórmál sem héðan hafa verið afgreidd af þinginu, t.d. á sviði skattamála. En með því að skapa þetta svigrúm gefst betri tími til undirbúnings og ef eitthvað það kemur upp á sem þykir nauðsynlegt að breyta er skapað svigrúm til þess því að með því að marka stefnuna með þessum hætti er sköpuð nauðsynleg festa og nauðsynlegt svigrúm til undirbúnings málsins. Ég held að það verði ekki eins kostnaðarsamt og margur hyggur því að það er mjög vaxandi álag á dómstóla landsins. Þar þarf að vinna mikla yfirvinnu svo að eitthvað sé nefnt og er vaxandi kostnaður. Með þessari nýju skipan mála mun dreifing verkanna verða meiri og þar af leiðandi mun sá kostnaður sem þar fellur til væntanlega sparast að verulegu leyti annars staðar þótt ekki skuli dregið í efa að nokkur kostnaðarauki verði af þessari skipan, en ég hygg þó að sá kostnaðarauki hefði orðið hvort eð er með vaxandi umsvifum í okkar þjóðfélagi.
    En ég vildi aðeins endurtaka þakkir mínar til hv. allshn. fyrir góða vinnu í sambandi við þessi mál.