Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er á dagskrá hefur þegar sætt meðferð í hv. Ed. Það fjallar um Háskóla Íslands og breytingar á 11. gr. laganna um Háskóla Íslands.
    Meginbreytingarnar sem frv. gerir ráð fyrir eru:
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að lektorsstöður verði framvegis lagðar að jöfnu við prófessorsembætti og dósentsstöður um alla meðferð umsókna. Um það fjallar 2. mgr. 1. gr. að 11. gr. orðist svo. Í annan stað er gert ráð fyrir því nýmæli í frv. að auk dómnefnda skipi háskólaráð ritara sem verði dómnefnd til halds og trausts í störfum hennar. Það er ætlað að þetta geti orðið til flýtisauka og til öryggis fyrir dómnefnd að geta fengið allar upplýsingar innan nefndar um lagareglur, reglugerðarákvæði, starfsreglur, framkvæmdavenjur, fyrirmyndir og annað er snertir meðferð þessara mála. Er þessi tilhögun að mati háskólaráðs og ráðuneytisins til þess fallin að stuðla að samkvæmni og vandaðri meðferð við meðferð umsókna.
    Þriðji breytingaþátturinn kemur fram í 4. mgr. 1. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir nokkrum meginbreytingum, fyrst þeirri að álit hlutaðeigandi skorar verði kynnt á deildarfundi áður en viðkomandi háskóladeild fjallar um hæfa umsækjendur. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að háskóladeild verði falið að velja nýjan háskólakennara úr hópi hæfra umsækjenda. Við flesta háskóla eru nýir kennarar valdir af háskólunum sjálfum, t.d. af deildum, ráðninga- og valnefndum eða með öðrum hætti. Er talið tímabært af háskólaráði og ráðuneytinu að færa þessa ákvörðun til þeirrar háskóladeildar þar sem væntanlegur kennari mun starfa.
    Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að takmarka mjög verulega veitingavald ráðherra frá því sem er í gildandi lögum. Er gert ráð fyrir því að ekki megi veita manni stöðu nema hann hafi hlotið meðmæli dómnefndar og háskóladeildar. Takmarkanir á stöðuvaldi ráðherra af þessu tagi tíðkast við fjölmarga háskóla erlendis og það þykir eðlileg afleiðing af kröfunni um sjálfstæði slíkra stofnana.
    Við meðferð málsins í hv. efri deild var flutt brtt. við þetta ákvæði frv., þar sem segir: ,,Engum má veita prófessorsembætti, dósentsstarf eða lektorsstarf við Háskólann nema meiri hluti dómnefndar telji hann hæfan og meiri hluti viðstaddra á deildarfundi greiði honum atkvæði í embættið eða starfið. Ef fleiri umsækjendur en tveir eru í kjöri við atkvæðagreiðsluna á deildarfundi og enginn þeirra hlýtur meiri hluta við fyrstu atkvæðagreiðslu skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Nú fellst menntmrh. ekki á tillögu deildarfundar og skal þá auglýsa embættið eða starfið að nýju.``
    Þessi brtt. var samþykkt í hv. efri deild, en flm. hennar voru hv. þm. úr meiri hl. menntmn. þeirrar deildar, þau Eiður Guðnason, Jón Helgason, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Skúli Alexandersson, Valgerður Sverrisdóttir og Guðmundur Ágústsson.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að þetta mál fái

skjóta meðferð og vandaða hér í þessari virðulegu deild og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.