Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. til laga um breytingu á lögum um Háskóla Íslands þar sem einkum er fjallað um breytingar á gildandi reglum um stöðuveitingar við Háskóla Íslands.
    Ég verð að vísu að segja að mér finnst frv. dálítið fljótfærnislega undirbúið af hæstv. menntmrh. Það er aðeins ein grein, en engu að síður þurfti að flytja verulegar brtt. við það í efri deild og m.a. þurfti að taka af skarið um það, og var það gert fyrir frumkvæði hæstv. menntmrh., að taka fram með mjög skýrum hætti neitunarvald menntmrh. ef honum féllu ekki í geð þær tillögur sem Háskólinn gerði í sambandi við embættaveitingar.
    Stöðuveitingar við Háskóla Íslands eru, eins og reyndar ávallt þegar um slík mál er að ræða, vandasamar og það þarf að vanda mjög til slíkra verka. Reglur um stöðuveitingar þurfa að vera skýrar. Það þarf að tryggja faglega umfjöllun um umsækjendur og verk þeirra og umsækjendur þurfa að geta treyst því að um umsóknir þeirra sé fjallað af fyllstu óhlutdrægni. Í tímans rás og á allra síðustu árum hafa verið gerðar ýmsar breytingar á reglum um stöðuveitingar við Háskólann sem hafa átt að miða að þessu, skýrari reglur um dómnefndir, m.a. um að menntmrn. skipi mann í dómnefndir og jafnframt hafa aðrar stöður en prófessorsembætti verið látnar falla undir þá málsmeðferð sem prófessorsembætti urðu ein áður að sæta, þ.e. dósentsstöður og nú lektorsstöður. Allt hefur þetta átt að miða að því að gera stöðuveitingar eða reglur um stöðuveitingar við Háskólann skýrari og að umsækjendur eigi að geta treyst því að um umsóknir þeirra sé fjallað af fyllstu óhlutdrægni.
    Ég sit í menntmn. þessarar hv. deildar og hef því aðstöðu til að fjalla nánar um málið þar. En ég vek þegar við þessa umræðu athygli á að minni hl. menntmn. Ed. flutti brtt. á þskj. 639 sem að mínu mati munu tryggja betur en þetta frv. þann megintilgang sem á að vera með slíkum reglum og ég hef lýst hér að framan.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að settar séu ákveðnar hæfniskröfur um dómnefndarmenn, þ.e. að þeir skuli, eftir því sem við á, uppfylla hin sérstöku dómaraskilyrði sem um er fjallað í 36. gr. laga nr. 85/1936. Þar er fjallað um hvenær dómari eigi að víkja úr dómarasæti og þá m.a. fjallað um sérstök tengsl við málsaðila, fyrri afskipti af máli, óvináttu við málsaðila og sérstaka hagsmuni. Það gefur auga leið að dómnefndarmenn, sem fá raunverulega jafnmikið vald og þetta lagafrv. gerir ráð fyrir og hafa reyndar haft samkvæmt núgildandi háskólalögum að því er snertir prófessorsembætti og dósentsstöður, þeir eru í dómarasæti og eiga að dæma um hæfni umsækjanda. Því er það auðvitað grundvallaratriði að umsækjendur geti treyst á óhlutdrægni þeirra. Til að tryggja hag umsækjenda að þessu leyti var þessi brtt. borin fram í Ed.
    Síðari brtt. sem flutt var í Ed., og ég rek þessar tillögur vegna þess að ég mun óska eftir því að þær

verði sérstaklega teknar til umræðu í menntmn. Nd., felur í sér að ráðherra sé skylt að fylgja tillögu Háskóla Íslands ef *y2/3*y viðstaddra á deildarfundi mæli með ákveðnum umsækjanda, enda hafi dómnefnd dæmt hann hæfan, þ.e. gert er ráð fyrir að það þurfi aukinn meiri hluta í viðkomandi deild. Á hinn bóginn er fellt niður það neitunarvald sem er nú með skýrum orðum tekið fram í þessu lagafrv., þ.e. að ráðherra hafi það vald ef honum falla ekki í geð tillögur háskóladeildar eða Háskóla Íslands.
    Þann tíma sem ég sat t.d. í menntmrn. minnist ég tveggja tilvika þar sem aðeins eitt til tvö atkvæði skildu að umsækjendur í atkvæðagreiðslum á deildarfundum og við nánari skoðun virtist það oft vera nokkrum tilviljunum háð hvaða aðili yrði ofan á. Því finnst mér ófært að binda hendur ráðherra í slíkum tilvikum og eðlilegt að leggja matið í hans hendur þegar þannig stendur á. Þess vegna var þessi tillaga flutt í Ed. og eins og ég sagði mun ég óska eftir því að hún verði jafnframt tekin til umræðu í menntmn. Nd.
    Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um frv. á þessu stigi en áskil mér að sjálfsögðu rétt til þess við síðari umræðu í þessari hv. deild.