Samningsbundnir gerðardómar
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur fylgt úr hlaði frv. til laga um samningsbundna gerðardóma. Ég hygg að hér sé þarft mál á ferðinni. Við samningu frv. hefur verið haft samráð við réttarfarsnefnd sem starfar á vegum ráðuneytisins.
    Slík gerðarmeðferð sem hér um ræðir hefur tíðkast alllengi í einhverri mynd bæði hér á landi og erlendis og er talin hafa ýmsa kosti fram yfir hina lögskipuðu dómstólaleið. Það ber fyrst að nefna, svo að ég fari um það örfáum orðum, að kostirnir við að leggja sakarefni í gerð hafa m.a. verið taldir hraðari málsmeðferð. Hæfilega hröð málsmeðferð er eilífðarvandamál að ég hygg í öllum réttarríkjum og á að sjálfsögðu við um mál af öllu tagi, bæði einkamál og opinber mál, og má auðvitað nefna ýmis dæmi um langdregna málsmeðferð frá fyrri öldum. Mér kemur í hug þegar dómur Hæstaréttar Danmerkur féll í máli Jóns Hreggviðssonar á Rein. Hann var kveðinn upp miðsumars árið 1715 og Jón sýknaður 31 ári eftir að hann hafði upphaflega verið dæmdur til dauða. Sumarið 1716 kom Jón heim á Akranes sýkn saka og þá var það vinur hans, Árni Magnússon prófessor, sem kvað þessa stöku:
Líta munu upp í ár
Íslands búar kærir
er Hreggviðs niður hærugrár
höfuð til landsins færir.
En þetta er önnur saga.
    Það er þó talið að eitt og annað mæli á móti gerðarmeðferð eins og gerist og gengur, það sé um nokkra ókosti að ræða. Meðal þess ber helst að nefna að gerðarmeðferð er ekki almennt talin veita mönnum sömu réttarvernd og hin almenna dómstólaleið. En ég hygg að það sé gott að fá rammalöggjöf um þetta efni þar sem gerðar eru ákveðnar lágmarkskröfur um meðferð samningsbundinna gerðarmála og sönnun þess að aðilar hafi viljað afsala sér rétti til að bera mál sín undir dómstóla.
    Máli þessu verður væntanlega vísað til allshn. og gefst þá frekari kostur á að fjalla um efni málsins og einstakar greinar frv.