Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um vöruhappdrætti fyrir Samband ísl. berklasjúklinga, nr. 18 22. apríl 1959. Með lögum nr. 13 16. mars 1949 var Sambandi ísl. berklasjúklinga heimilað að stofnsetja og reka vöruhappdrætti og gilti heimildin í 10 ár. Síðan hefur þessi heimild verið framlengd í 10 ár í senn, síðast með lögum 10. maí 1978 til ársloka 1989. Með frv. er einfaldlega lagt til að þessi heimild verði framlengd um 10 ár, þ.e. til ársloka 1999.
    Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þá starfsemi sem byggir á happdrætti þessu. Það er öllum deildarmönnum svo vel kunnugt að óþarfi er að rekja, en samkvæmt lögunum er tekjunum varið til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir vinnuheimilisins að Reykjalundi, til byggingar og rekstrar vinnustofu fyrir öryrkja og annarrar félagsmálastarfsemi Sambands ísl. berklasjúklinga sem viðurkennd er af ríkisstjórninni. Þetta starf hefur fyrir löngu sannað gildi sitt fyrir þjóðfélagið og um það hefur ávallt ríkt full samstaða hér á Alþingi og ég vænti þess og veit að svo er enn. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til hv. allshn. og 2. umr.