Umboðsmaður Alþingis
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Flm. (Auður Eiríksdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á l. um umboðsmann Alþingis, á þskj. 667. Með lögum um umboðsmann Alþingis, nr. 13/1987, er kveðið svo á að umboðsmaðurinn skuli hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og leitast við að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.
    Sú brtt. sem hér um ræðir gengur lengra í þá átt að títtnefndum umboðsmanni ber einnig að fylgjast með framkvæmd dómstóla á lögum og rétti í landinu, þ.e. að hann skal veita viðtöku kvörtunum um meinta galla á rekstri og framkvæmd dómsmála, afla endurrita af þegar gerðum skjölum þar um, athuga þau og semja um þau greinargerðir að því leyti sem hann telur ástæðu til.
    Þó að reynsla af störfum umboðsmanns Alþingis sé ekki löng hefur það þó sýnt sig að hér er um þarfa stofnun að ræða og er ástæða til að vænta mikils af störfum hennar á þessum vettvangi. Löggjafarstarfið sjálft, svo margþætt og umfangsmikið sem það er, er einn veigamesti þáttur í störfum Alþingis og einn af veigamestu þáttum í störfum þjóðlífsins. Því er það mjög nauðsynlegt að fylgjast vel með framkvæmd laga og réttar í landinu og tryggja Alþingi greiðan aðgang að áreiðanlegum og vel unnum gögnum þar um.
    Þótt frv. miðist við að umboðsmaður Alþingis fylgist með almennri framkvæmd laga og réttar í landinu, svo sem áður er að vikið, skal lögð áhersla á sjálfstæði dómstólanna við afgreiðslu mála og að starfsmenn þeirra sæti ekki neinum afskiptum eða athugasemdum umboðsmanns utan þess sem fylgir því að fá afhent endurrit skjala og greinargerða um mál sem beint er til Alþingis sjálfs. Ljóst er að Alþingi ber að setja lög um störf dómstóla í landinu og fylgjast með framkvæmd þeirra, hvernig til tekst og breyta þeim ef þurfa þykir. Eins og áður segir miðar frv. að því að Alþingi afli traustra og vandaðra gagna þar um með lágmarkstilkostnaði.
    Að lokum vil ég mælast til þess að frv. verði vísað til allshn. og 2. umr.