Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 04. apríl 1989

     Flm. (Auður Eiríksdóttir):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 668 flyt ég frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
    1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,79. gr. stjórnarskrárinnar orðast þannig:
    Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskránni, má bera upp á Alþingi. Nái tillagan samþykki beggja deilda með sama hætti og almenn lög skal leggja hana undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg. Hún skal fara fram eigi síðar en samhliða næstu alþingiskosningum eftir samþykkt hennar á Alþingi. Verði tillagan samþykkt af meiri hluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni skal hún lögð fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar.``
    2. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Stjórnarskrárákvæði þetta tekur þegar gildi.``
    Allt frá stofnun lýðveldisins 1944 hefur það verið verkefni Alþingis að láta vinna að endurskoðun eða endurgerð stjórnarskrárinnar. Skoðanir manna á nauðsyn þessarar endurskoðunar hafa verið nokkuð samstiga en lítið hefur um þokast ef undanskilin eru ákvæði um kosningar til Alþingis, en þeim hefur verið breytt. Engum dylst nauðsyn breytinga á stjórnarskránni og má vísa til fyrri tillagna þar um og einnig til bréfs umboðsmanns Alþingis til forseta Alþingis frá 29. des. sl., en þar er bent á fjölmörg atriði sem nauðsynlegt er að kveða betur á um en nú er gert í stjórnarskránni.
    Það eru erfiðleikar í mörgum þáttum þjóðlífsins og því ástæða til að huga að framkvæmd laga og réttar í landinu. Löggjöf um dómstóla og aðrar þær stofnanir, sem móta framkvæmd laga og réttar og hafa síðustu orðin þar um, þarf að vera góð. Einkum á þetta við um lagaákvæði um Hæstarétt Íslands, en til hans má jafnan skjóta úrlausnum annarra dómstóla. Það er nauðsynlegt að öll ákvæði um skipan og starfshætti Hæstaréttar séu ítarleg og skýr og tryggi öllum íbúum landsins aðgang að dómstólnum, óski þeir þess, og vandaða málsmeðferð. Ákvæði um þetta þurfa að vera í stjórnarskrá því um er að ræða kjarnaatriði í löggjöf réttarríkis.
    Þessir mikilsverðu kostir fylgja því að breyta ákvæðum 79. gr. stjórnarskrárinnar eins og hér er lagt til:
    1. Samkvæmt núgildandi ákvæðum 79. gr. þarf samþykki tveggja þinga með kosningum á milli til að ná fram breytingum á stjórnarskránni. Það hefur þann kost í för með sér að þingmenn Alþingis sem leggja fram stjórnarskrárbreytingar verða að eiga það undir öðru Alþingi, e.t.v. með öðrum þingmönnum, að ljúka því verki.
    2. Það verður ekki skylt að rjúfa Alþingi strax að lokinni fyrri samþykkt þingsins á stjórnarskrárbreytingu. Þetta atriði er mjög veigamikið þegar fram undan er endurgerð flestra þátta stjórnarskrárinnar. Miklu auðveldara verður að ná fram breytingum á stjórnarskránni í áföngum samkvæmt

þessu frv. en samkvæmt gildandi stjórnarskrá.
    3. Verði frv. þetta, sem er á þskj. 668, staðfest sem stjórnskipunarlagaákvæði gerir það ráð fyrir að ný stjórnarskrárákvæði hljóti samþykki meiri hluta kosningarbærra manna í landinu með sama hætti og nú er kveðið á um breytingar á kirkjuskipaninni í landinu. Verði frv. samþykkt verða ný stjórnarskrárákvæði ,,þjóðarlög`` á þann veg að þjóðin eða meiri hluti hennar hefur staðfest þau. Það er mikilsvert til að auka gildi stjórnarskrárákvæða gagnvart öðrum reglum og tengir jafnframt þjóðina sjálfa við mikilvægustu samfélagslegu gildin og mikilvægustu lögin.
    Með þessu frv. er bréf frá Gauki Jörundssyni til forseta Alþingis birt sem fylgiskjal en ég mun ekki lesa það hér.
    Virðulegi forseti, ég óska þess svo að frv. þessu verði vísað til allshn. og 2. umr.