Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, fyrir stuðning við frv. eins og það liggur fyrir í meginatriðum. Ég veit að hér er fjallað um mál sem hefur verið ágreiningsefni á mörgum þingum að undanförnu. Það sanna þau frumvörp sem flutt hafa verið hér þing eftir þing til að breyta vissum ákvæðum almannatryggingalöggjafarinnar, sérstaklega hvað varðar tryggingabætur, örorkumat og meðferð þeirra mála.
    Eins og þetta liggur fyrir, 1. og 2. gr. frv. eins og þær eru lagðar hér fram, eru þær settar fram og kom reyndar fram í framsögu minni að ósk og í samráði við tryggingaráð. Tryggingaráð hefur fjallað um málið og þessu tryggingaráði a.m.k. hefur verið það alveg ljóst að það þyrfti að gera á starfsháttum nokkrar breytingar og hefur þess vegna lagt þessar hugmyndir fyrir ráðuneytið og ráðuneytið hefur síðan tekið þær upp og gert að sínum og eru þær hér fluttar.
    Mín skoðun er sú á þessu máli, eins og ég held reyndar að hafi komið fram í umræðum áður um málið á þingi, að það þurfi að gera á þessu breytingar, það þurfi að koma á öðru skipulagi. En ég hef hins vegar, eins og margir aðrir þingmenn, verið með efasemdir um það ákvæði 6. gr. núgildandi laga að settur yrði sérstakur tryggingadómur um málið og það væri rétt að kveða einhvern veginn öðruvísi á þar sem ekki hefur verið skýrt hvernig sá dómstóll eða dómur ætti að starfa, hvort ætlunin hafi verið að þetta yrði sérdómstóll á héraðsdómsstigi og hvað liði þá annarri málsmeðferð. Þess vegna er hér gerð alveg ákveðin tillaga um að það ákvæði sé fellt niður, en undirstrikað það úrskurðarvald tryggingaráðs sem reyndar er einnig í núgildandi lögum. Það segir í 6. gr. núgildandi laga: ,,Rísi ágreiningur um bætur leggur tryggingaráð úrskurð á málið`` sem er nákvæmlega sama eins og er í frv. eins og það liggur fyrir núna. Þessi setning er aðeins flutt til.
    Síðan er reynt að kveða nánar á um hvernig með mál skuli farið. ,,Ef ágreiningur er lagður fyrir tryggingaráð til úrskurðar``, eins og segir í 2. gr. frv., ,,og hann er að einhverju eða öllu leyti háður læknisfræðilegu mati er tryggingaráði hverju sinni heimilt að kveðja sér til ráðuneytis einn til þrjá lækna`` o.s.frv. Ég lít svo á að hér hafi verið hugmyndin og meiningin að taka á málinu öllu. Ég get út af fyrir sig fallist á það sem komið hefur fram hjá hv. 13. þm. Reykv. og 3. þm. Reykv. um að það þurfi að gera betri grein fyrir því annars vegar hvað átt er við með ,,bætur`` og hins vegar ,,örorkumat`` svo mönnum sé það alveg ljóst að þetta sé ekki alveg sambærilegt, en ég hef litið svo á að ef við ætlum tryggingaráði að skera úr um ágreining sé það allt málið, þá hljóti það líka að vera endurskoðun á örorkumatinu sem framkvæmd hefur verið af hálfu tryggingalæknanna og það sé raunverulega það sem sagt er í 2. mgr. 2. gr. frv. Ef ágreiningur er lagður fyrir tryggingaráð og er að einhverju eða öllu leyti

háður læknisfræðilegu mati hlýtur það að vera það sem hér er átt við að þetta ,,læknisfræðilega mat`` þurfi að endurskoða sem er þá í raun örorkumatið og þess vegna verði að kveða skýrar á um eða að minnsta kosti að það verði að koma skýrt fram í meðferð nefndarinnar á þessu máli og þingið verði að átta sig vel á því hvert hér er stefnt og hver á að verða niðurstaða málsins. Þetta er mín skoðun þó e.t.v. hafi það ekki verið fullhugsað eða rætt þegar frv. var samið og lagt fram. En ég lít svo á að til þess að ná algerlega því markmiði sem við höfum sett okkur með þessari grein og við leysum þá úr því sem hefur hér verið að veltast og vefjast fyrir, ekki bara þingmönnum heldur og auðvitað þeim öðrum sem hafa fjallað um þetta mál, en alla vega þingmönnum mörg undanfarin þing, þá verði að kveða alveg skýrt á um þetta atriði. Um það er ég sammála hv. 13. þm. Reykv.
    Sá ágæti hv. þm. hefur sýnt ráðherra þolinmæði, eins og þingmaður orðaði það hér áðan, og beðið eftir því að þetta frv. kæmi fram. Ég ítreka það að við höfðum hugsað okkur og ég hef svarað hv. þm. í umræðum áður svo að þetta mál yrði að takast til skoðunar með heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar. En við höfum síðan tekið þetta mál upp t.d. í stjórnarmyndunarviðræðum. Það er kveðið á um í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar að það skuli reynt að taka á þessum þætti almannatryggingalöggjafarinnar sérstaklega. Þar sem sýnt var að það næðist ekki heildarendurskoðun fram á þessu þingi, ég vona hins vegar að það standi að okkur takist að klára þá endurskoðun í sumar og hægt verði að leggja það fyrir næsta þing, var talin ástæða til að taka málið upp núna og ég hef beðið hv. 13. þm. Reykv. að bíða eftir þessu frv. og vonaðist til þess að um það gæti náðst góð samstaða þar sem það hefur verið unnið í og af tryggingaráði og í samvinnu og samráði við tryggingaráðið sjálft sem hefur fengið þessi vandamál við að glíma að undanförnu einnig.
    Það hafa komið fram hugmyndir um að það ætti að kveða á um fleira en hið læknisfræðilega mat og eins og segir reyndar í athugasemdum með frv. hefur það verið álit ráðuneytisins að ef tryggingaráð vildi nota sér þá heimild sem nú er í 6. gr. laganna og ég las áðan og er samhljóða 1. mgr. 2. gr. frv., þá hafi tryggingaráð auðvitað getað kvatt sér til aðstoðar sérfræðinga til að
fjalla um einstaka þætti. En málin hafa e.t.v. þróast á annan veg og ég hef ekki á móti því að heilbr.- og trn. taki það til sérstakrar athugunar hvort þarna eigi að kveða skýrar á um aðra þætti sem þarf að leggja mat á en bara þá læknisfræðilegu, t.d. þá sem hér hafa verið nefndir, félagslega þætti og lögfræðilega, og þá sé ekki óeðlilegt að það komi fram í frv. og verði kveðið á um það skýrt í lagatexta eins og um hinn læknisfræðilega þátt. Það finnst mér að nefndin geti tekið til athugunar.
    Ég veit ekki hvort þörf er á að orðlengja meira um þetta. Ég hef reynt að svara þeirri spurningu sem hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín um skoðun mína á því

hvað ætti að taka við ef ágreiningur yrði annars vegar milli þess örorkumats sem tryggingayfirlæknir hefur gert og hins vegar þess sem kynni að koma fram í meðhöndlun tryggingaráðs á málinu og eftir umfjöllun þeirra lækna sem sérstaklega yrðu kvaddir að máli og vísa því að öðru leyti til nefndarinnar að fjalla um málið í heild. Að sjálfsögðu er bæði heilbrmrh. og starfsmenn heilbrmrn. tilbúnir til að koma að þeirri umfjöllun og reyna að leiða málið fram í þann farveg að þingið geti verið sæmilega sátt við og sómi að afgreiðslu málsins þannig að ekki sé enn verið að búa til einhver ágreiningsefni eða að málinu sé ekki svo skýrt skilað frá Alþingi að menn geti unnið eftir þessari breytingu því þá hefði hún lítinn tilgang, að stefna málinu í áframhaldandi óvissu eins og þau hafa kannski verið í á undanförnum árum. Við erum að gera þessa breytingu til að reyna að fá fram ný vinnubrögð og þó að hv. 13. þm. Reykv. þyki e.t.v. of skammt stigið held ég nú að hér sé þó verið að kveða alveg upp úr um að tryggingaráði beri að fjalla um þessi mál og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þar koma upp með því að kveðja til utanaðkomandi sérfræðinga en ekki aðeins þá ráðgjafa eða þá starfsmenn stofnunarinnar sem hafa þá þegar fjallað um málin þegar þau koma til tryggingaráðs.