Almannatryggingar
Miðvikudaginn 05. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Það er aðeins örstutt. Mér heyrist að við séum nokkuð sammála um verkefnið sem fyrir liggur, ég og hv. 13. þm. Reykv., og reyndar aðrir hv. þm. sem hér hafa tjáð sig um málið, þ.e. að kveða skýrar á um það hvernig menn geta leitað réttar síns ef um ágreining er að ræða. Mig langar aðeins í sambandi við það sem síðast kom fram hjá hv. 13. þm. Reykv. að árétta að það segir m.a. í greinargerð frv.:
    ,,Samkvæmt núgildandi 6. gr. almannatryggingalaga gegnir tryggingaráð nánast tvíþættu hlutverki. Annars vegar kemur það fram sem stjórn Tryggingastofnunar ríkisins, m.a. með því að það hefur eftirlit með starfsemi stofnunarinnar og veitir samþykki sitt á þeim atriðum, sem talin eru í 3. mgr. 6. gr.`` og hv. þm. reyndar las nú upp. ,,Hins vegar gegnir tryggingaráð því hlutverki að leysa úr ágreiningi, sem skotið er til þess, um rétt til bóta`` segir hérna. Síðar segir: ,,Með 2. gr. frumvarpsins er kveðið skýrt á um hið síðarnefnda hlutverk tryggingaráðs, m.a. til þess að ekki orki tvímælis að tryggingaráð hafi ekki aðeins vald til þess að leysa úr ágreiningi um það hvort reglur laganna veiti rétt til greiðslu`` eða bóta eins og hv. þm. hefur svo skýrt tekið fram --- ,,hvort reglur laganna veiti rétt til greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins heldur einnig til þess að leysa úr ágreiningi um önnur skilyrði slíks réttar.``
    Hér er þetta alveg skýrt tekið fram í greinargerðinni og ég hlýt að líta svo á þegar talað er um það í frv. sjálfu og segir að ef úrlausn úrskurðar ágreiningsins hjá tryggingaráði er að einhverju eða öllu leyti háð læknisfræðilegu mati, þá eigi tryggingaráð að kveðja sér til sérfræðinga á því sviði, þ.e. 1--3 lækna. Það hlýtur að vera að talað sé hér um að tryggingaráð eigi einnig að kanna það mat sem farið hefur fram, örorkumatið, ekki bara rétt til bóta eða einhverrar krónutölu.