Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Í tengslum við það frv. sem hér er til umræðu um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga þykir mér nauðsynlegt að vekja athygli á öðru frv. sem er um mjög svipað efni og byggir á sama grunni, en það er flutt af nokkrum þingmönnum Sjálfstfl. Það er 177. þingmál á þskj. 195, frv. til l. um framkvæmdasjóð á sviði menningarmála. Flm. auk mín að því frv. eru þeir hv. 3. þm. Reykv. Ragnhildur Helgadóttir, 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde og 2. þm. Reykn. Ólafur G. Einarsson. Það frv. er eins og ég sagði byggt á sama grunni og það frv. sem hæstv. menntmrh. flytur nú, þ.e. það er gert ráð fyrir að framlengt sé það gjald sem nú er innheimt sem sérstakur eignarskattsauki og á að ganga til byggingar Þjóðarbókhlöðu --- það gjald verði áfram innheimt og verði látið ganga í Framkvæmdasjóð menningarmála eins og þar segir, en síðar er nánar skilgreint í því frv. hvað átt er við með því og hvaða helstu verkefni þar er um að ræða. Ég er mjög ánægður yfir því að hæstv. menntmrh. skuli hafa tekið frv. okkar svo mjög til fyrirmyndar í því frv. sem hann hér flytur og finnst reyndar að hann mætti oftar taka okkur sjálfstæðismenn til fyrirmyndar þegar hann flytur mál á Alþingi.
    Það er þó svo að það er nokkur blæmunur á þessum frumvörpum sem ég tel ástæðu til að ræða nokkuð nánar um hér því að það er fyrst og fremst munur á því hver skuli vera tilgangur þessarar sjóðsstjórnar, þ.e. til hvaða verkefna það fjármagn eigi að renna sem í þennan sjóð fer. Samkvæmt því frv. sem við sjálfstæðismenn fluttum er tilgreint að framkvæmdasjóðnum skuli varið til framkvæmda við menningarstofnanir. Meðan byggingu Þjóðarbókhlöðu er ekki lokið skal sú framkvæmd hafa forgang við fjárveitingar úr sjóðnum. Af öðrum framkvæmdum sem fá skulu fjárveitingu úr sjóðnum skal nefna endurbyggingu Þjóðleikhúss, endurbyggingu Þjóðminjasafns, innréttingu Þjóðskjalasafns og byggingu tónlistarhúss. Alþingi skal við afgreiðslu fjárlaga ár hvert ráðstafa fé úr sjóðnum.
    Okkur ber saman um það, okkur sjálfstæðismönnunum og hæstv. ráðherra, að Þjóðarbókhlaða eigi að hafa forgang þegar eytt er fjármagni úr þessum sjóði, jafnframt að fjármagn skuli fara til endurbóta á menningarstofnunum sem tilgreindar eru í okkar frv. og hæstv. ráðherra hefur tekið undir í sínu máli áðan, þ.e. Þjóðleikhús, Þjóðminjasafn og Þjóðskjalasafn. Hins vegar liggur munurinn í því að við teljum að fjármagni úr þessum sjóði eigi jafnframt að verja til nýbyggingar, en innan okkar frv. mundi að sjálfsögðu einnig rúmast fjármagn til verndunar ýmissa menningarverðmæta eða bygginga sem hæstv. ráðherra hefur lagt sérstaka áherslu á í sínu máli.
    Ég tel það mjög miður að hæstv. ráðherra skuli taka þá stefnu að ekki skuli heimilt að verja fjármagni úr þessum sjóði til nýbygginga. Við stöndum frammi fyrir því að okkur vantar ákveðnar nýbyggingar. Fyrir utan þær sem taldar voru upp í okkar frv. og ég hef

getið um minnist ég þess að í umræðunum um þetta frv. var m.a. fjallað um náttúrugripasafn og um viðbyggingu við Listasafn Íslands. Ég legg sérstaka áherslu á það aftur að ég tel að bygging tónlistarhúss eigi að koma þarna inn í. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisvaldið eigi að koma þar myndarlega við sögu. Það eru starfandi við undirbúning þess verkefnis sérstök samtök áhugasamra einstaklinga sem hafa þegar lagt mjög mikið af mörkum til þess að gera þennan draum að veruleika, en tónlistin er eina listgreinin sem ekki hefur nú fengið yfir sig sérstakt hús af þessum megingreinum ef við getum orðað það svo. Þessi samtök hafa lýst sig reiðubúin við ríkisstjórn og einstaka þingflokka til þess að ábyrgjast að helmingur fjármögnunarkostnaðar verði fram lagður af þeirra hálfu ef ríkið gæfi yfirlýsingu um að koma þar á móti. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt og sakna þess að í þessu frv. skuli ekki vera fjallað um það af hálfu hæstv. ráðherra. Ég inni hæstv. ráðherra eftir því sérstaklega hver hugur hans sé til þess máls og hvaða stefnu hann hafi varðandi byggingu tónlistarhúss og hvort hann ætli að beita sér fyrir því að ríkið komi til móts við samtökin við það verkefni sem þar er á ferðinni.
    Þetta eru þau meginatriði sem ber á milli í okkar frumvörpum. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir því í sínu frv. að tekjur verði jafnóðum færðar til tekna hjá viðkomandi sjóði sem því miður er ekki í þeim lögum sem nú gilda um þetta og jafnframt hefur hann gert ráð fyrir að sjóðurinn verði í vörslu menntmrn. Nú er þjóðarbókhlöðusjóðurinn í vörslu Seðlabanka. Það er mál sem má ræða frekar. Meginatriðið er að þannig sé frá þessu gengið að þetta fjármagn renni í þennan sjóð jafnóðum og það er innheimt og að það sé ekki í vörslu fjmrn. og lúti ekki þeim skilningi sem innan þess ráðuneytis er á sjóði eins og þessum.
    Ég tel að það sé fullkominn möguleiki á því að sameinast um myndarlegt frv. í þessa veru og hægt verði að ná samstöðu á hv. Alþingi um sjóð af þessu tagi og vonast til þess að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar og hefur þegar fengið okkar frv. líti á þessi mál bæði í heild og reyni að vinna úr þeim þannig að hægt verði að ná samstöðu á Alþingi um þetta mikilvæga mál.