Geislun grænmetis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Auður Eiríksdóttir):
    Virðulegi forseti. Sú aðferð að geisla grænmeti til að auka geymsluþol þess hefur nokkuð rutt sér til rúms á síðari árum. Þó er fjarri því að þessi aðferð, að auka geymsluþol matvæla með geislun, hafi ekki lengi verið kunn því 1916 voru t.d. gerðar tilraunir um að geisla jarðarber til að lengja þann tíma sem völ var á þeim ferskum. Á fimmta áratugnum, þegar trú manna á nýtingu geislavirkra efna í þágu friðar og til góðra verka var mikil, trúðu menn því að með geislunaraðferðinni væri úr sögunni vandamálið við að geyma matvæli fersk um lengri eða skemmri tíma. Smám saman fóru menn þó að vitkast og umgangast nú geislavirk efni með nokkurri varúð og tortryggni.
    Rannsóknir um áhrif geislaðra matvæla á fólk hafa ekki farið hátt og það er lítið vitað um hvort matur sem geislaður hefur verið geti haft skaðleg áhrif, geti t.d. smám saman orðið krabbameinsvaldur eða önnur vandamál af því hlotist. Þó segir frá rannsókn á 20 indverskum börnum, að vísu vannærðum, en þar kom í ljós að nokkur þeirra höfðu of marga litninga, tvöföldun eða margföldun eðlilegrar litningatölu sem er 46 í flestum. Neyslu á geisluðu korni var þarna um kennt, en vitaskuld er þetta allt of fámennur hópur til að byggja á raunhæfa niðurstöðu.
    Aftur á móti fara nú fram rannsóknir í Kína á um 10 þúsund börnum þar sem rannsökuð eru áhrif geislaðra matvæla á heilsufar. Hafa ber í huga að við geislun missir grænmeti nokkuð af fjörefnum, svo sem A, B1, C og E líkt og við suðu. Í riti um manneldi og neyslu frá heilbr.- og trmrn. er vitnað í rannsókn, svokallaða Monica-rannsókn, en þar kom í ljós að E-vítamínskortur er meiri áhættuþáttur kransæðasjúkdóms en kólesteról.
    Ég hef lagt hér fram fsp. til hæstv. landbrh. á þskj. 558 varðandi geislun á innfluttu grænmeti svohljóðandi, með leyfi:
,,1. Er geymsluþol innflutts grænmetis aukið með geislun og sé svo, um hvers konar geisla er hér að ræða?
    2. Hefur geislað grænmeti skaðleg áhrif á heilsu manna?``