Geislun grænmetis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Auður Eiríksdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svör hans. Við setjum íslenskum garðyrkjubændum nokkuð ströng skilyrði við ræktun grænmetis hvað eiturefnanotkun áhrærir og það er vel. Íslenskt grænmeti er sérlega bragðmikið og ljúffengt og er það að hluta til vegna okkar kalda og heilnæma loftlags, en að hluta vegna takmörkunar á tilbúnum áburði og eiturefnum við ræktunina. Það er gott að við skulum vera þetta ströng við okkar fólk, en mér finnst að sömu reglur verði þá að gilda um innflutta grænmetið. Á hinum Norðurlöndunum gilda strangar reglur um innflutt grænmeti og eiturefnainnihald þess rannsakað áður en við því er tekið, en hér er engu slíku til að dreifa. Það má því nærri geta hvort erlendir heildsalar notfæri sér ekki slíkt andvaraleysi og selji okkur það sem aðrar þjóðir hafa talið óhæft til matar og hafnað af þeim sökum.