Ábyrgð vegna galla í húsbyggingum
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 592 flyt ég eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh. um framkvæmd þáltill. um ábyrgð vegna galla í húsbyggingum. Fsp. er einföld og hljóðar svo:
    ,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 18. mars 1987 um ábyrgð vegna galla í húsbyggingum?``
    Umrædd þáltill. var flutt á 109. löggjafarþingi árið 1987, en 1. flm. hennar var Davíð Aðalsteinsson sem átti þá sæti á Alþingi. Vegna þess að hann á ekki sæti á þingi lengur en þetta mál er gott og full ástæða til að vinna að framgangi þess hef ég flutt fsp. um afdrif þessarar þáltill. en hún hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna og gera tillögur um ábyrgð þeirra sem beint og óbeint tengjast húsbyggingum og annarri mannvirkjagerð. Skal einkum hugað að fyrningarfresti á bótakröfum vegna galla á hendur efnissölum, byggingaraðilum og hönnuðum og leitast við að samræma og einfalda reglur í þessum efnum til hagsbóta neytendum og þeim sem eiga hlut að byggingarstarfsemi.``
    Tillagan sem samþykkt var hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að endurskoða gildandi lög sem fjalla um ábyrgð þeirra sem tengjast húsbyggingum og annarri mannvirkjagerð.``
    Fsp. er einföld. Hún er: Með hverjum hætti hefur verið unnið að framgangi þessarar tillögu sem ég hef nú lesið?