Ábyrgð vegna galla í húsbyggingum
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Þessari fsp. er beint til mín sem iðnrh. en ég vil taka það fram að iðnrn. hefur ekki borist þál. sem um er spurt til meðferðar. Ég hef látið kanna það hjá forsrn. en eins og kunnugt er eru samþykktar þingsályktunartillögur sendar forsrn. til fyrirgreiðslu og til þess að koma þeim á framfæri við hlutaðeigandi ráðuneyti. Ég hef gengið úr skugga um það að þessi þál. hefur hvorki verið send iðnrn. né viðskrn. en hugsanlegt er að málið gæti talist snerta viðskrn. vegna þess að það varðar öðrum þræði lausafjárkaupalögin vegna sölu á byggingarefnum. Ég vil benda á að það að þessi mál hafa ekki verið send þessum tveimur ráðuneytum kunni hugsanlega að stafa af því að mönnum hafi ekki verið ljóst undir hvaða ráðuneyti málið heyrði. Ég bendi á það að ábyrgð hönnuða á húsbyggingum hlýtur að teljast falla undir byggingarlögin sem eru málefni félmrn. Félmrn. hefur heldur ekki fengið þessa þál. til meðferðar.
    Loks er þess að geta að þetta kynni að varða málefni á sviði dómsmála, þ.e. um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Mér virðist nú fljótt á litið að eðlilegast mundi að heildarábyrgð á málinu væri í höndum dómsmrn. um ábyrgð vegna galla á húsbyggingum og öðrum mannvirkjum, þegar það er skoðað í heild.
    Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að hér er hreyft mjög mikilvægu máli sem þörf er að tekið verði á með samræmdum hætti. Mér virðist eins og málið er vaxið að kannski sé nauðsynlegt að forsrn. taki það upp að nýju og láti skipa þessa nefnd. Ég tek það fram að mér var ekki kunnugt um þetta mál fyrr en fsp. barst og get því miður ekki svarað fsp. öðruvísi en að framkvæmd málsins virðist hafa dregist og sennilega vegna þess að það hafi lent á milli stóla í ráðuneytunum. Ég fagna því hins vegar að fsp. er fram komin og vona að það geti orðið til þess að málinu verði hraðað í stjórnkerfinu.