Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 591 hef ég flutt fyrirspurnir til landbrh. um framkvæmd tveggja þáltill. Önnur þeirra er um eflingu fiskeldis en hin er um tryggingu loðdýraræktar gegn verðsveiflum. Fyrirspurnirnar eru eftirfarandi með leyfi forseta:
    ,,Á hvern hátt hefur verið unnið að framgangi eftirfarandi þingsályktunartillagna:
    1. um eflingu fiskeldis sem búgreinar á bújörðum, sem vísað var til ríkisstjórnarinnar í mars 1987;
    2. um tryggingu loðdýraræktar gegn verðsveiflum, sem samþykkt var sem ályktun Alþingis 18. mars 1987?``
    Ef ég vík fyrst að fyrri lið fsp. ber að taka fram að þáltill. var ekki samþykkt efnislega sem slík, heldur var efni hennar vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég álít að það sé vísbending Alþingis um að ríkisstjórnin eigi að vinna að málinu á einhvern hátt þó að það sé ekki nákvæmlega eins og fyrir er lagt í þáltill., en hún er í fjórum liðum. Hún er á þá leið að kannað verði með skipulegum hætti í hvaða héruðum og á hvaða jörðum finnist nægilegt og heppilegt heitt og kalt vatn. Að komið verði á kennslu í matfiskeldi við báða bændaskólana. Á Hvanneyri verði komið upp matfiskeldisstöð. Veiðimálastofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins verði gert kleift að vinna í sameiningu að rannsóknum og kynbótum í matfiskeldi, þar á meðal kynbótum á laxi til eldis í fersku vatni. Og í fjórða lagi að leiðbeiningarþjónustu verði komið á í fiskeldi, einkum matfiskeldi með því að Búnaðarfélagi Íslands verði gert kleift að ráða landsráðunaut í matfiskeldi og búnaðarsamböndunum að efla leiðbeiningarþjónustu sína þannig að þau geti einnig sinnt þessari grein meðal bænda sem hafa möguleika til fiskeldis.
    Fsp. er á þá leið hvort ríkisstjórnin hafi unnið að þessum málum á þeim tíma sem liðinn er síðan þessari tillögu var vísað til hennar og þá með hvaða hætti.
    Í seinni liðnum er spurt um framkvæmd þingsályktunar um aðgerðir til tryggingar loðdýraræktar gegn verðsveiflum sem samþykkt var á Alþingi þann 18. mars 1987, svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna og gera tillögur um með hvaða hætti megi best tryggja hag loðdýrabænda gegn verðsveiflum á loðdýramörkuðum.``
    Það þarf ekki að fjölyrða um hve þessi mál eru brýn. Þau snerta nýbúgreinar í landbúnaði og þessi mál um loðdýraræktina og reyndar fiskeldið hafa verið ofarlega á baugi síðan. Eigi að síður er spurt: Með hverjum hætti hefur verið unnið að framgangi þessara tillagna?