Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Eins og fram kemur í þeim hefur verið unnið með ýmsum hætti að þessum málum. Mér var reyndar kunnugt um það því að eins og ég tók fram í framsögu minni fyrir fyrirspurnunum hafa þessi mál verið ofarlega á baugi á þessum tíma. Eigi að síður hygg ég að brýnt og nauðsynlegt sé að herða á aðgerðum í þessum efnum þannig að fiskeldi geti orðið vænleg aukabúgrein á bújörðum og það verði kannað og unnið að því með skipulegum hætti að svo geti orðið.
    Hæstv. landbrh. fór yfir þáltill. í einstökum liðum og þar kemur fram að ekki hefur verið talið tímabært að kanna með skipulegum hætti í hvaða héruðum og á hvaða jörðum finnst nægilegt og heppilegt heitt og kalt vatn fyrr en þessi mál eru lengra komin. Ég hefði haldið að tímabært væri að hrinda af stað þessari könnun og harma að svo hefur ekki verið gert. Ég geri ekki athugasemd við það að á Hólum verði frumkvæðið í námi í fiskeldi þó að hér sé talað um Hvanneyri, að þar verði komið upp matfiskeldisstöð. Ég tel að það sé ekki aðfinnsluvert þó að Hólar hafi þarna orðið fyrir valinu.
    Að öðru leyti þakka ég fyrir það að að þessum málum hefur verið unnið og tel brýnt að svo verði áfram og að neytt verði allra ráða til að þessi búgrein geti orðið umtalsverð stoð í sveitum landsins.
    Hvað Tryggingarsjóð loðdýra snertir er það aðalatriðið að aðgerðir verði í málinu og nefndarskipan með hverjum hætti sem hún verður, hvort það er skipuð nefnd eða unnið að þessum málum af fullum krafti í landbrn. Ég get tekið undir að það sé rétt að draga það ekki og vona að þeim aðgerðum sem unnið hefur verið að verði hraðað og reynt að hrinda fram þessu brýna máli. Það hefur verið unnið að þessum málum af krafti og ég þakka fyrir það, en eigi að síður er nauðsynlegt að taka hér enn betur á.