Efling fiskeldis
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins hvetja hæstv. landbrh. til að vinna skipulega að því verkefni sem hér er kallað efling fiskeldis sem búgreinar á bújörðum. Ég held að þarna sé afar mikilvægt atriði á ferðinni. Menn hafa mest talað hér um silung. Ég minni á að markaðsmálin eru í þessu sambandi afar mikilvæg líka. Það er útilokað að einstakir bændur geti markaðssett slíkar afurðir. Sölusamtök verða að mínu mati að koma til ef þarna ætti að geta verið um örugga búgrein að ræða.
    Aðeins örstutt. Landbrh. minntist á heitt og kalt vatn sem auðlindir. Orkustofnun hefur nokkuð gert af því að kortleggja möguleika til nýtingar slíkra auðlinda víða um landið. En ég minni á að þær jarðir sem við ströndina eru og aðgang eiga að sjó búa yfir nokkuð öðrum möguleikum sem menn mega ekki gleyma í þessu sambandi og fleiri tegundir koma auðvitað til. Þarna gildir að fast og örugglega sé haldið á.
    Varðandi kennslu í matfiskeldi hygg ég að sú stefna sé rétt, sem þegar hefur komið upp, að skólarnir sendi nemendur sína sem mest út til stöðvanna til að fá starfsþjálfun þar í stað þess að byggja dýrar stöðvar í skólunum.
    Ég minni síðan á að rannsóknir á kynbótum eldisfiskanna eru afar mikilvægar og ítreka að ég tel mikilvægt að landbrh. haldi fast og örugglega og skipulega á þessu máli.