Bann við kjarnavopnum
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég undrast nokkuð að hæstv. utanrrh. skuli taka svo til orða eins og hér gerðist út af hógværri fsp. um afar þýðingarmikið mál fyrir íslenska hagsmuni, að hún sé ekki svara verð. ( Utanrrh.: Fyrirspurnin var það vissulega, enda var henni svarað. Þetta var um athugasemd.) Ég vil jafnframt að fram komi af minni hálfu að ég tel að hæstv. utanrrh. ætti að gera Alþingi grein fyrir því í tilefni þessarar fsp. hvort og þá með hvaða hætti yfirherstjórn Atlantshafsbandalagsins og yfirstjórn þess herliðs sem dvelur á Íslandi hefur verið gerð grein fyrir samþykktum Alþingis og yfirlýsingum íslenskra ráðherra.
    Ég nefni þetta hér, virðulegur forseti, m.a. vegna þess að þótt við viljum trúa því að á Íslandi séu ekki staðsett kjarnavopn tekur herlið frá Íslandi þátt í æfingum Atlantshafsbandalagsins á norðurslóðum. Hingað koma án heimildar íslenskra stjórnvalda flugsveitir og herflugvélar til þátttöku í slíkum æfingum, síðast í septembermánuði 1988, varðandi æfinguna Teamwork, um tólf Phantom-þotur og tíu Orion-þotur að því er upplýst hefur verið í bandarísku tímariti, Aviation Week, 14. nóvember 1988, og voru gerðar hér út frá landinu. Þessi búnaður, þessar þotur geta borið kjarnavopn, þar á meðal kjarnorkudjúpsprengjur sem voru tilefni umræðna um þessi mál hér á Alþingi í desember 1984.
    Ég tel að hafi stefnu Íslands og yfirlýsingum íslenskra ráðherra um þessi efni ekki verið komið skilmerkilega á framfæri við nefnda aðila skuldi framkvæmdarvaldið Alþingi og Íslendingum að það verði gert með formlegum hætti og skora á hæstv. utanrrh. að bæta þar úr hafi þetta ekki verið gert þannig.