Bann við kjarnavopnum
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég leit ekki svo á að þessi fsp. mín væri eitthvert moldviðri um hvort hér yrðu staðsett kjarnavopn eða ekki. Ég spurði þessarar spurningar að gefnu tilefni og tel henni ekki hafa verið svarað, alls ekki, vegna þess að þegar ég spyr: ,,Hvernig hefur af Íslands hálfu verið komið á framfæri``, þá lít ég á það formlega en ekki hvort það hafi verið sagt í samtölum. Að vísu kom fram að það hafi verið sagt á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ekki skal ég lasta það, en ég tel þar ekki nægilega formlega gerða grein fyrir stefnu Íslendinga með þeim hætti.
    Þegar ég var að ræða hérna áðan um að ekki væri tekið mark á íslenskum ráðherrum eða ályktun Alþingis hjá NATO finnst mér slæmt ef það er ekki svara vert. Ég heyrði þetta á fundi sem mér var boðið að taka þátt í sem fulltrúa í utanrmn. Þar var útlendingur í heimsókn og bar þessi mál á góma þar. Þegar sá sem orðið hafði lýsti því að hjá NATO væri þeim ekki ljós sú stefna Íslendinga að hér væru ekki kjarnorkuvopn, þá greip ég fram í og sagði að það væri ekki rétt vegna þess að því hefði verið marglýst yfir af fjölmörgum utanríkisráðherrum og forsrh. núna fyrir skömmu að hér væru ekki kjarnavopn. En þá sagði hann að þó að einhverjir ráðherrar segi svona, ,,some ministers``, eins og hann komst sjálfur að orði, væri það ekki nein yfirlýsing af Íslands hálfu. Ég tók þetta mjög óstinnt upp fyrir hönd íslenskra utanrrh., Alþingis og íslenskra stjórnvalda og ég er alveg hissa á þessu. Ef þetta hefði ekki verið sagt á þessum fundi við erlenda gesti sem eru að koma hingað hefði ég ekki tekið þetta eins illa upp og ég gerði og ekki endilega bara fyrir mína hönd heldur ekki síður fyrir hönd ríkisstjórna Íslands og utanrrh. Ég tel að það væri rétt fyrir utanrrh. að upplýsa bæði sína embættismenn og þá sem tala fyrir Íslands hönd við erlenda aðila um hver stefnan sé og þeir séu ekki að lýsa því yfir að það sé ekkert mark tekið á því sem íslensk stjórnvöld segja hér á landi. ( Utanrrh.: Má ég spyrja? Var það íslenskur embættismaður sem komst svona að orði?) Ég veit ekki hvort ég á að orða það svo að það hafi verið embættismaður. Já, ég held að það flokkist undir embættismenn. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig flokkunin er, en þetta var íslenskur aðili sem starfar að þessum málum hér á landi.