Bann við kjarnavopnum
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Í tilefni af athugasemd forseta vil ég taka fram eftirfarandi: Fyrirspurn hv. þm. er að sjálfsögðu fullkomlega marktæk, umræðuverð í alla staði, varðar þýðingarmikið mál, enda hef ég gert mér far um að svara henni efnislega og málefnalega.
    Athugasemd mín laut hins vegar að þeirri fullyrðingu hv. þm. sem höfð var eftir ónafngreindum manni, sem nú er upplýst að var einhver íslenskur embættismaður, sem hafði látið hafa eftir sér á einhverjum fundi einhvers staðar að í höfuðstöðvum NATO væri ekki mark tekið á orðum, yfirlýsingum íslenskra utanríkisráðherra og ályktun Alþingis Íslendinga. Þetta eru dylgjur og stundum er ekki hægt að svara dylgjum á annan veg en þann að segja: Órökstuddar dylgjur eru ekki svara verðar. Þetta eru dylgjur af því tagi sem þarf að kveða niður því að að sjálfsögðu er það svo og hafið yfir allan vafa að í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins, í Atlantshafsbandalaginu og af hálfu utanríkisráðherra bandalagsþjóða okkar er tekið hið fyllsta mark á yfirlýsingum íslenskra ríkisstjórna, utanríkisráðherra og ályktunum Íslendinga. Það er mikil nákvæmni í því máli. Það er farið nákvæmlega yfir texta ályktana Íslendinga og nákvæmlega yfir þær yfirlýsingar sem koma um svona þýðingarmikið mál frá íslenskum ráðherrum. Á því leikur ekki hinn minnsti vafi.
    Athugasemdir um að þessari spurningu hafi ekki verið svarað. Mér þykir að þær séu ekki mjög merkilegar vegna þess að ég hef svarað því til að ályktun Alþingis og þessar þýðingarmiklu yfirlýsingar hafa verið þýddar á erlendar tungur og þeim hefur verið kerfisbundið komið á framfæri við utanríkisráðuneyti og varnarmálaráðuneyti bandalagsþjóða okkar. Það er fyrst og fremst um þær sem verið er að ræða. Það er hafið yfir allan vafa, sbr. yfirlýsingu forvera míns, að þessar ályktanir hafi komist til skila og á þeim er fullkomlega tekið mark.