Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Sl. mánudag hófst hér í þinginu afar sérkennileg umræða um væntanlegar heræfingar í júní nk. Þessari umræðu er nú fram haldið og margt sýnist mér ósagt enn þá.
    Það hefur þegar verið dregið fram og er rétt að ítreka að það var formaður þingflokks Framsfl., forustuflokks ríkisstjórnarinnar, hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hóf þessa umræðu. Í ræðu sinni sagðist málshefjandi sammála hæstv. forsrh. að fyrirhugaðar heræfingar væru tímaskekkja og að ekki bæri að heimila þær, en þar sem hann treysti því ekki að hæstv. utanrrh. væri sammála sér og forsrh. í þessu efni vildi hann biðja utanrrh. að greina þingheimi frá aðdraganda málsins og viðhorfi sínu til þess. Síðan fylgdu ellefu spurningar, þar á eftir áminning til utanrrh. til hvers væri ætlast af honum, fullyrðingar um að varnarliðið væri ekki hér til að verja Íslendinga og svo ýmis orð sögð í hálfkæringi eins og hv. þm. er svo tamt.
    Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað hv. þm. hafi gengið til að flytja þetta mál inn í þingið með þeim hætti sem hann gerði og sjálfsagt kemur þar margt til. Mér dettur í fyrsta lagi í hug andúð hans á samstarfi okkar Íslendinga við hinar vestrænu þjóðir sem tengt hafa saman hagsmuni sína við varnir Vesturlanda í Atlantshafsbandalaginu. Þessi andúð hans hefur oft komið fram í málflutningi innan og utan þings. Af sama toga er svo auðvitað spunnin andstaða hans við veru varnarliðsins hér á landi. Og þeir sem ekki vilja varnarlið vilja auðvitað heldur engar heræfingar hjá þessu sama varnarliði eða stuðningsliði þess.
    Í öðru lagi mætti segja mér að hv. þm. hefði gjarnan viljað koma hæstv. utanrrh. og flokki hans í dálítinn vanda. Það er vitað að Alþfl. hefur yfirleitt staðið vörð um vestrænt samstarf þótt brestir hafi stundum gert vart við sig í liði ungra jafnaðarmanna. Dálitlar títuprjónsstungur gætu því kitlað hann sem slíkan og sjálfsagt nokkra fleiri. ( Utanrrh.: Það eldist nú yfirleitt af þeim.) Það eldist af þeim. Það er gott að heyra. --- Ekki hefur málshefjandi þurft að efast um velþóknun alþýðubandalagsmanna á þessum málflutningi svo að ég ekki nefni Kvennalistann eins og svo skýrt hefur komið fram í umræðunum þegar.
    Í þriðja lagi mætti svo ætla að þingflokksformaðurinn vildi koma flokksformanni sínum og hæstv. forsrh. til hjálpar. Forsrh. hafði nefnilega fyrir umræðuna tjáð sig með dálítið sérstæðum hætti um málið. Ég segi sérstæðum hætti vegna þess að hér á í hlut núv. forsrh. sem var utanrrh. frá því í júlí 1987 til september 1988 og forsrh. 1983--1987 og ráðherra ýmissa málaflokka 1978--1983, að undanteknum um það bil fjórum mánuðum. Hann hafði látið í ljós þá skoðun að fyrirhugaðar heræfingar væru tímaskekkja og svo hafði hann ekkert vitað um hvað til stóð fyrr en alveg nýlega. Það hafði verið farið á bak við hann. M.ö.o.: hann hafði rétt einu sinni verið ,,plataður``, bæði af utanrrh. sínum, af varnarliðinu og væntanlega af

starfsmönnum sínum í varnarmálaskrifstofu utanrrn. meðan hann var sjálfur utanrrh.
    Hvernig má nú svona lagað gerast? Ætlast hæstv. ráðherra til þess að við trúum þessu? Það fer ekkert á milli mála að hv. málshefjandi trúir þessu eða þannig skildi ég ræðu hans. En eigum við hinir að trúa þessu líka? Ég á afar erfitt með það nema ég fái nánari skýringar. Eða eigum við að afsaka þetta ráðleysi, liggur mér við að segja, með því að það sé svo sem mannlegt að minni manna bresti? Hæstv. forsrh. sagði oftar en einu sinni í sjónvarpsviðtali í fyrrakvöld að svo gæti verið. Ég veit ekki alveg til hvers hæstv. ráðherra ætlast af okkur. Ráðherrann hefur sagt við annað tækifæri að hann hafi verið lokaður inni í fílabeinsturni meðan hann var utanrrh. Mér sýnist hann hafa verið þar innilokaður bæði fyrir og eftir þann tíma og mér sýnist líka að hann hafi í raun verið lokaður inni í einhverju hólfi í fílabeinsturni ráðuneytisins, alveg einangraður frá starfsmönnum ráðuneytisins sem áttu að gefa honum upplýsingar um gang mála en gerðu það ekki samkvæmt því sem ráðherrann segir. Ég kem nánar að þessu atriði síðar.
    Hafi það verið ætlun hv. málshefjanda að koma formanni sínum til hjálpar í þessum raunum hans hefur það heldur betur snúist í höndum hans. En allur var þessi málatilbúnaður þó gerður með vitund og vilja formannsins. Málshefjanda er því nokkur vorkunn hafi þessi verið tilgangurinn með því að taka málið upp í utandagskrárumræðu. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur nefnilega upplýst að hann hafi ekki kynnt það í sínum þingflokki að hann ætlaði að taka til máls um þetta efni utan dagskrár. Hann sá enga ástæðu til að segja flokksbróður sínum, Jóhanni Einvarðssyni, hv. formanni utanrmn. og reyndar stjórnarmanni í þingflokksstjórninni, frá þessu og reyndar ekki einu sinni hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og má það út af fyrir sig merkilegt heita, en það kom fram í umræðunum í fyrrakvöld. Sennilega stafar það af því að málshefjandi hefur verið nokkuð öruggur með undirtektir þess hv. þm. en öllu meiri vafi hafi leikið á með flokksbróðurinn, Jóhann Einvarðsson. Því væri í lagi að hann frétti þetta í beinni útsendingu í sjónvarpi frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Mér er svo sem alveg sama hvernig háttað er sambandi þeirra
flokksbræðranna hv. þm. Jóhanns og Páls.
    En þingflokksformaðurinn hafði hins vegar samband við formann sinn, hæstv. forsrh. Í svari forsrh. við fsp. hv. þm. Eiðs Guðnasonar um það hvort þingflokksformaðurinn talaði í nafni Framsfl. kom fram að hann gerði það á eigin vegum. Hann hefði hins vegar haft samband við sig um að hann mundi spyrja þessara spurninga ,,og ég gerði ekki athugasemdir við það``, sagði hæstv. forsrh. Með því sýnist mér að formaður Framsfl. hafi raunverulega platað formann þingflokksins. Hann hefur att honum út í þessa umræðu með því að segja honum að þessar fyrirhuguðu heræfingar væru sér alveg ókunnar, hann vissi ekkert, þetta væri sjálfsagt bara brall í núv.

hæstv. utanrrh. og sjálfsagt fyrirrennurum úr Sjálfstfl.
    Lítum aðeins á málflutning hæstv. forsrh.
    Í ágúst 1987 var honum skýrt frá tilvist þessa varaliðs og gerði ekki athugasemdir. Þá var hann utanrrh. Honum var þá líka tjáð að fram hefðu farið tvær æfingar þessa varaliðs hér á landi, 1985 og 1987. Þá var hann forsrh. En honum hefur sjálfsagt ekki verið sagt þá og alls ekki áður að æfingin 1987 hófst á sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. júní eins og kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. í fyrrakvöld. En þá var hann líka bara forsrh., eins og nú, og hefur sjálfsagt ekki komið þetta við, sem er hins vegar öðruvísi en nú. Og hann, hæstv. þáv. utanrrh. og núv. hæstv. forsrh., fékk þá, í ágúst 1987, engar upplýsingar um æfingu sem nú er talað um, að öðru leyti en því að æfingin væri ráðgerð 1989. Hann segist hins vegar hafa skilið þetta svo, að hún yrði af svipaðri stærðargráðu og áður hafði verið.
    Þessi orð hæstv. forsrh. gefa mér tilefni til að spyrja hann hvort honum þyki í lagi að hafa hér í júní nk. æfingu ef aðeins kæmu 400 manns í staðinn fyrir allt að 1000 og ég tala nú ekki um 1300. Hvar á að draga mörkin milli þess sem telja má í lagi og þess sem hæstv. forsrh. kallar tímaskekkju? Hvað þarf að gerast meira á alþjóðavettvangi en Vínarfundurinn sem hæstv. forsrh. vitnaði til í umræðunni í fyrradag til þess að 400 manna æfing sé líka orðin tímaskekkja?
    Hæstv. forsrh. segist svo ekkert hafa heyrt um málið meira fyrr en í Ríkisútvarpinu núna um daginn. ,,Fundargerð varnarmálanefndar frá 30. ágúst 1988 kom aldrei á mitt borð``, segir ráðherrann, en bætir að vísu við: ,,a.m.k. ekki svo að ég vissi.`` Hvernig er þetta annars með borð hæstv. ráðherra? Er því skipt í einhverja reiti, einn fyrir mál sem hann þekkir, annar fyrir mál sem hann þekkir ekki og kannski einn fyrir mál sem hann veit ekkert um og á ekkert að vita um? Það mætti halda að svo væri ef ekki hefði komið nánari skýring frá ráðherranum, hvers vegna hann leit ekki á borðið sitt 30. ágúst og síðar í sinni utanríkisráðherratíð. Menn voru nefnilega ,,uppteknir við aðra hluti, stjórnarmyndun o.s.frv.``, eins og ráðherrann orðaði það í umræðunni um daginn. Stjórnarmyndunarviðræður voru þá þrátt fyrir allt hafnar 30. ágúst, nokkuð sem ýmsa grunaði þá en hefur ekki verið viðurkennt opinberlega fyrr en nú af formanni Framsfl. Hvað áttu menn að vera að vasast í fundargerðum varnarmálanefndar þegar önnur og merkilegri mál biðu úrlausnar?
    Að þessum játningum gefnum er óneitanlega dálítill holhljómur í gagnrýni hæstv. forsrh. á varnarliðið þegar hann segir að ,,af þess hálfu hafi verið haldið mjög undarlega á málinu og það ekki gætt þess sem skylda þess hlaut að vera``, eins og ráðherrann orðaði það. Þetta eru nokkur atriði úr málflutningi hæstv. forsrh.
    En hvað segir svo hæstv. utanrrh. um þennan málflutning forsrh. síns og þingflokksformanns framsóknar? Ég verð að segja alveg eins og er að ég minnist þess ekki að hafa áður orðið vitni að annarri eins ofanígjöf og forsrh. fékk hjá utanrrh. sínum eins

og hér átti sér stað í fyrrinótt. Hæstv. utanrrh. talaði að vísu til málshefjanda, hv. þm. Páls Péturssonar, en það er gamla Albaníuaðferðin eins og menn þekkja. Allt sem hann sagði, hæstv. utanrrh., og sagt var til að hrekja fullyrðingar málshefjanda um að ranglega hefði verið skýrt frá staðreyndum var í raun talað til forsrh. Það var ofanígjöf sem lengi verður í minnum höfð.
    Utanrrh. sá sig knúinn til að rekja allan samskiptaferil stjórnvalda í heræfingamálinu. Og hverjar eru heimildir hæstv. utanrrh.? Jú, heimildir hans eru byggðar á skriflegum greinargerðum, bókunum og upplýsingum frá varnarmálaskrifstofu utanrrn. í tíð fjögurra utanrrh. Einn þessara ráðherra virðist hins vegar ekkert vita, annaðhvort vegna þess að hann fékk aldrei neinar upplýsingar eða þá að minni hans brestur eins og hann hefur orðað það. Það hefur að vísu oft gerst áður.
    Þennan samskiptaferil rakti hæstv. utanrrh. í þrettán liðum. Ég ætla ekki hér og nú að endurtaka það sem ráðherrann þar tíundaði þótt það sé vissulega freistandi, en þessi samskipti eiga sér öll stað meðan Steingrímur Hermannsson er ýmist forsrh. eða utanrrh. Ráðherrann veit bara ekkert hvað er að gerast. Og það sem gerist er einhvern veginn allt öðruvísi en hann átti von á rétt einu sinni enn. Þetta er bara eins og með verðbólguna. Er hún ekki einhvern veginn allt öðruvísi en hann átti von á? Eða vextirnir? Ég tala nú ekki um þá.
Var ekki löngu búið að samþykkja að þeir ættu að vera miklu lægri? Og hvernig var þetta aftur með lánskjaravísitöluna? Átti ekki að afnema hana eða átti bara að breyta henni og hvað er búið að gera?
    En það er ekki von að maður muni þetta þegar maður hefur í mörgu að snúast. Eða hafa ekki verið stjórnarmyndunarviðræður í gangi alveg frá áramótum, alveg eins og var í ágúst í fyrra? Hvar var hæstv. forsrh. í október 1986 þegar æfingar varaliðsins voru ræddar fyrir árin 1989 og 1991? Þá þegar var lögð fram áætlun um að 1000 hermenn tækju þátt í æfingunum árið 1989. Þetta upplýsir hæstv. núv. utanrrh. í umræðunum hér. Og hvaðan hefur hæstv. utanrrh. þetta? Ekki var hann ráðherra þá. Jú, hann hefur þetta í skriflegum gögnum utanrrn. Þau gögn hafa legið fyrir þar frá því í október 1986. Hvernig í ósköpunum má það vera að þáv. forsrh. Steingrímur Hermannsson og síðan utanrrh. Steingrímur Hermannsson og enn síðar forsrh. Steingrímur Hermannsson veit ekkert um þetta, bara ekki neitt? Hann heldur bara allt þangað til núna um daginn að hingað komi 400 manns eins og síðast, það sé engin tímaskekkja. Og hvað með æfinguna sem hófst 17. júní 1987 sem ég gat um áðan? Af hverju var það allt í lagi þá að sýna íslensku þjóðinni þann dónaskap og ögra henni sem þá var gert með því að hefja æfinguna á þjóðarhátíðardaginn? Hver var þá forsrh. og hver er nú forsrh. sem telur það hina mestu ósvinnu 1989 að varalið skuli safnast saman vestur í Bandaríkjunum á þjóðhátíðardegi Íslendinga? Hvað hefur breyst?

    Og það er ekki aðeins í skriflegum gögnum utanrrn. frá 1986 sem upplýsingar eru um að senda eigi hingað 1000 manna varalið 1989. Nei, í ágúst 1987 er þáv. utanrrh. Steingrími Hermannssyni skýrt frá áformum um næstu æfingu varnarliðsins sumarið 1989 sem 1000 hermenn í það minnsta mundu taka þátt í samkvæmt þeim áformum.
    Ég verð að viðurkenna að ég vorkenni dálítið hæstv. forsrh. að sitja undir svona lestri, en þó er þetta bara smáræði miðað við það sem hæstv. utanrrh. las óbeint yfir honum úr þessum ræðustól í fyrrinótt.
    En hvernig brást svo hv. málshefjandi við upplýsingum utanrrh.? Jú, hann túlkaði ræðu hans svo að hún hefði verið einn samfelldur áfellisdómur um varnarmálaskrifstofuna. Sú skrifstofa lægi á upplýsingum og gæfi ekki ráðherra nógu glöggar skýrslur til þess að þeir fylgist með því sem varnarmálaskrifstofan hefur á prjónunum. Þarna viðgangist sem sagt leynipukur, sbr. orð forsrh. fyrr í umræðunum, segir hv. þm. Páll Pétursson. Þarna á held ég við talshátturinn að ,,árinni kenni illur ræðari``.
    Er það raunverulega svo að starfsmenn utanrrn. halda upplýsingum leyndum fyrir einum utanrrh. en ekki öðrum? Hvernig stendur á því að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson fær þessi gögn í hendur en ekki hæstv. utanrrh. Steingrímur Hermannsson? Ég bið um svör helst frá báðum.
    Svo lætur hv. þm. Páll Pétursson í ljós þá skoðun sína að þessir kontóristar í varnarmálaskrifstofunni, eins og hann orðar það, eigi auðvitað að gefa út fréttatilkynningar um það sem menn eru að aðhafast í sambandi við varnir landsins sem samkvæmt hans áliti eru að vísu athafnir sem varða varnir Bandaríkjanna en ekki varnir Íslands. Þetta er ein sú allra frumlegasta hugsun sem ég hef heyrt færða í búning talaðs máls og flutta úr þessum ræðustóli, að gefa út fréttatilkynningar um það sem menn eru að ræða og aðhafast í varnarmálaskrifstofu utanrrn. Með útgáfu svona fréttatilkynninga eru auðvitað miklu meiri líkur en ella til að hæstv. núv. forsrh. mundi geta fylgst með hvað varnarliðið væri að hafast að. Þetta mundi auðvitað glymja stöðugt í fréttum og mundi því síður gleymast, jafnvel ekki þótt menn væru samtímis í stjórnarmyndunarviðræðum. Það væri alltaf verið að rifja þetta upp. Auk þess mundi þessi háttur á upplýsingastreymi gera erlendum þjóðum, t.d. Sovétmönnum, miklu auðveldara að fylgjast með því sem þeir hafa mestan áhuga á hér á landi. Gefa bara út fréttatilkynningar. Þeir gætu sennilega stórfækkað í sendiráði sínu hérna með því að fá svona þjónustu í utanrrn. bara beint.
    En talandi í fullri alvöru. Svona málflutningur um viðkvæm utanríkis- og varnarmál eins og sá sem þeir hafa haft hér í frammi, formaður Framsfl. og formaður þingflokks framsóknarmanna, er þjóðhættulegur. Þessi málflutningur sýnir okkur að Framsfl. er vart treystandi í utanríkismálum, ekkert fremur en Alþb. Það er nefnilega bara stigsmunur á stefnu þeirra flokka í utanríkis- og varnarmálum.
    Hæstv. forsrh. svaraði spurningu hv. þm. Eiðs

Guðnasonar hvort Framsfl. væri að boða breytta stefnu í utanríkismálum: ,,Svo er alls ekki. Við erum hlynntir þátttöku okkar Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu, en leggjum á það mjög ríka áherslu að sú starfsemi verði bundin við eftirlitsstörf á Atlantshafinu. Umfang þessarar starfsemi eigi að vera eins lítið og unnt er til að sinna þessu hlutverki.`` Ég les út úr þessum ummælum nákvæmlega það sem orðanna hljóðan segir okkur. M.ö.o.: ekki skal reynt að verja landið þótt á það verði ráðist. Ég spyr hæstv. forsrh.: Er þetta réttur skilningur hjá mér? Sé svo skil ég vel þá skoðun hæstv. forsrh. og málshefjanda að heræfingar á varnarsvæðinu séu tímaskekkja og raunar bara hreint rugl vegna þess að þessar
heræfingar eru til þess að æfa menn í að verja landið, hafa í raun lítið að gera með þetta eftirlitshlutverk varnarliðsins á Atlantshafinu. En til þess eins ætlast Framsfl. af varnarliðinu samkvæmt upplýsingum hæstv. forsrh.
    Hvað segir formaður utanrmn., hv. þm. Jóhann Einvarðsson, um þennan skilning formanns Framsfl. á stefnu Framsfl. í varnarmálum? Mér þætti gaman að heyra það.
    Frú forseti. Í fyrrinótt komu fram óskir um að ljúka ekki þessari umræðu þá vegna þess að hæstv. forsrh. var farinn heim að sofa þegar hæstv. utanrrh. flutti ræðu sína um samskiptaferil stjórnvalda í heræfingamálinu. Okkur þótti, sumum a.m.k., rétt að fá fram frekari upplýsingar frá forsrh. um málið, t.d. hvort þessi lestur utanrrh. hefði rifjað eitthvað upp fyrir forsrh. eða hvort hann, utanrrh., færi með ósannindi að dómi forsrh. Af skiljanlegum ástæðum vildu sumir ljúka umræðunni í fyrrinótt og hæstv. utanrrh. lagði þar sitt af mörkum til þess að umræðunni mætti ljúka með því að upplýsa að allar þær upplýsingar sem hann hafði farið með hafi verið forsrh. kunnar vegna þess að þau minnisblöð sem hann las af, utanrrh., hafi hann afhent honum áður en forsrh. flutti seinni ræðu sína þannig að hann hefði lesið þetta, og ekki bara það heldur hefðu þeir félagarnir rætt það sín í millum. Þeir höfðu rætt málið sín í millum áður en hæstv. forsrh. kom upp í ræðustól og flutti seinni ræðu sína. Þess vegna væri sem sagt ekki ástæða til að fresta umræðunni og bíða þess að forsrh. gæti verið viðstaddur, sagði utanrrh., þar sem honum hafði verið þetta allt saman kunnugt. Þetta þóttu mér tíðindi vegna þess að seinni ræða forsrh. var ekki í neinu samræmi við þessar upplýsingar hæstv. utanrrh., ekki í neinu samræmi við þær. Þess vegna spyr ég nú hæstv. forsrh.: Er það virkilega satt hjá hæstv. utanrrh. að hann hafi látið forsrh. í té þessi minnisblöð og rætt málið að auki, kannski bara rétt áður en hæstv. forsrh. kom hér upp í ræðustólinn? En hann man ekkert þegar hann kemur hér í ræðustólinn! Og ef þetta er satt hjá utanrrh., var þá forsrh. virkilega búinn að gleyma þessu? Hvað leið langur tími frá því að þeir töluðu saman?
    Með þessum orðum get ég lokið máli mínu, hæstv. forseti. Umræðan hefur nú staðið að mér skilst í nálægt átta klukkutíma og ég skil vel að hv.

málshefjandi sjái dálítið eftir því að hafa hafið þennan leik með þeim hætti sem hann gerði. Það kom fram í ræðu hans í fyrrinótt að það lægi við að hann sæi eftir því að hafa byrjað. Hann hefur sjálfsagt ekki átt von á því að umræðan leiddi í ljós að annaðhvort hafi hæstv. forsrh. ekki fylgst með málum sem skyldi eða þá að hann hafi ekki munað hvað upplýst hafi verið um fyrirhugaðar heræfingar. Minnisleysi getur ekki verið afsökun fyrir hæstv. núv. forsrh. Það getur það ekki verið. Og það getur enginn sýknað hann með því að segja hann bera fyrir sig minnisleysi. Hæstv. forsrh. hafði öll gögn í höndum varðandi málið áður en hann kom hér í ræðustól í fyrradag. Og svo eitt enn. Ráðherra firrir sig ekki ábyrgð á athöfnum eða athafnaleysi með því að kenna starfsmönnum sínum í ráðuneytinu um. Það eru hins vegar vinnubrögð sem núv. ráðherrar virðast hafa tileinkað sér sumir hverjir og er alveg nýtt í sögunni og slíkt er til vansæmdar viðkomandi ráðherrum.
    Hæstv. forseti. Ég lýk máli mínu með því að láta í ljós þá skoðun að umræða þessi hafi sannað að hæstv. forsrh. hafi í raun litið þetta mál þeim augum að alls engin ástæða væri til að gera athugasemdir við fyrirhugaðar heræfingar. Hann er hins vegar nú forsrh. í ríkisstjórn sem Alþb. á aðild að og í orði verður að koma til móts við þann flokk. En eins og stundum áður eru það einhverjir aðrir sem ráða ferðinni. Hann, forsrh., hefði auðvitað viljað hafa þetta allt öðruvísi. Kannast menn ekki við það? Það hefur stundum komið fyrir áður og í þessu tilviki er það utanrrh. sem ræður, segir hæstv. forsrh. Og það er alveg rétt hjá honum.