Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að þessari umræðu skyldi vera frestað í fyrradag því að nauðsynlegt var eftir það sem fram kom þá seint í umræðunni að hæstv. forsrh. fengi að gera grein fyrir stöðu mála. En með því að yfirlýsingar hæstv. forsrh. það kvöld voru svör við spurningum í ræðu minni þá þykir mér ástæða til að fara um svörin nokkrum orðum.
    Reyndar er það svo að í því sambandi er nauðsynlegt að rifja upp að ástæðan til þessara spurninga minna voru hugleiðingar um hvers vegna þessi umræða fór yfirleitt af stað þennan dag, hvað hv. fyrirspyrjanda Páli Péturssyni gekk til. Það eru ýmsar hugsanlegar skýringar á því og mér þótti líklegust sú sem fram kom í umfjöllun um utanríkismál og sérstaklega umræðu hv. þm. Páls Péturssonar nokkrum árum áður, en þá gaf hæstv. núverandi menntmrh. Svavar Gestsson sínar skýringar. Þær fólust í raun og veru í hinu einkennilega eðli Framsfl., sérstaklega að því er utanríkismál varðaði. Ég mun ekki endurtaka það hér, en vísa til þess í þingtíðindum, bæði til þess sem ég tilfærði í fyrradag og þeirrar umræðu sem vitnað var til.
    En það má segja um seinustu ræðu hæstv. forsrh. að þetta mál gerist æ dularfyllra. Það gerist æ dularfyllra með hverri yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gefur. Ég hlustaði á skýringar hæstv. forsrh. í Ríkisútvarpinu, Stöð 2 og ríkissjónvarpinu þegar hann ræddi um þessi mál eftir umræðuna hér á Alþingi. Í engum tveimur tilvikum voru skýringar hæstv. forsrh. alveg eins. Í Ríkisútvarpinu sagði hæstv. ráðherra eftir að hann hafði skýrt að ekki hefði hann fengið málið inn á sitt borð, sem út af fyrir sig er nokkuð merkileg yfirlýsing af hálfu þess ráðherra sem fór með öryggismál landsins þá, að ekki skuli tekin afstaða til neins nema þess sem liggur á borðinu, á pappír. Ég kem að því síðar. ( Forsrh.: Hvorki munnlega né skriflega.) Það getur ekkert munnlegt legið á borðinu hjá manni. Og samt hefur hæstv. ráðherra, nú seinast rétt áðan, lýst því að honum hafi verið greint frá því að heræfingar færu fram og fyrir tveim dögum sagði hæstv. ráðherra að auðvitað vissi hann að þær færu fram 1989. Þær fara alltaf fram á tveggja ára fresti, sagði hæstv. ráðherra. Þetta var munnlegt. Ég skildi það svo.
    En ég mun halda áfram að skýra hvers vegna ég segi að engar tvær yfirlýsingar þetta umrædda kvöld hafi verið alveg samhljóða. Í Ríkisútvarpinu sagði hæstv. forsrh., eftir að hann hafði skýrt út að honum hefði verið ókunnugt um umfang heræfinganna eins og hann kallar það, aðspurður sagði hann að þetta gæti auðvitað gengið ef þetta væri eins og var hér um árið svona 150--400 manns. Í Stöð 2 sagði hæstv. forsrh.: Þetta gat gengið ef þetta hefðu verið 150--300 manns. Þá voru það ekki 400 heldur 300. Og í ríkissjónvarpinu sagði hæstv. ráðherra: Ja, ég er kannski ekki dómbær um nauðsyn svona æfinga, en mér finnst samt að það eigi að draga úr þeim. Ráðherra lýsir því fyrst yfir að hann sé ekki dómbær,

sem ég efast um að sé rétt. Ég held að auðvitað sé hæstv. ráðherra fyllilega dómbær um slíkt með sína þekkingu og reynslu, en þetta var samt í ummælum hans í ríkissjónvarpinu. En ályktunin sem hann dró svo af því að hann sjálfur taldi sig e.t.v. ekki dómbæran um nauðsynina var sú að hann teldi samt að æfingin ætti ekki að fara fram með þeim hætti sem til stóð. Það er von að landsmenn setji hljóða öðru hvoru undir svona yfirlýsingum og dáist að svona snilld eins og fram kemur í vinsældakönnunum. Það er eðlilegt því að það þarf mikla snilli til svona sviðssetningar.
    Það má segja að allt í einu sé þetta mál farið að snúast um það, sérstaklega í tilfelli hæstv. forsrh., að muna eða muna ekki eða að því er varðar það sem liggur á borðinu að skrifa eða skrifa ekki. Mér finnst eftir seinustu ræðu hæstv. ráðherra að það fari að snúast um það að tala eða tala ekki.
    Það er margbúið að samþykkja svona æfingar einungis með því að láta þær fara fram yfir höfuð. Í því felst sú yfirlýsing af Íslands hálfu að íslensk stjórnvöld telji þær nauðsynlegar. Ég skil ekki að þeir sem hafa jafnmikla verkfræðiþekkingu láti sér detta í hug ef prófa á hvort einhver búnaður virki rétt að það eigi alltaf að prófa einungis sama þáttinn og með sama hætti hverju sinni. Ég hefði haldið að það væri miklu eðlilegra um varnaræfingu að þar kynni að vera mismunandi fjöldi manna á mismunandi tímum, það kynnu einnig að vera mismunandi tæki. Það er nefnilega fleira sem skiptir máli í þessu sambandi en fjöldi þeirra manna sem koma frá útlöndum og heimsækja þetta land í þessum erindagerðum. Eins og raunar kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. þegar hann svaraði hv. fyrirspyrjanda Páli Péturssyni nefndi hæstv. utanrrh. ekki einungis þann fjölda manna sem væntanlegur væri heldur líka með hvers konar búnað þeir væru og ég hafði haldið að það atriði skipti verulegu máli þegar menn eru að tala um umfang æfinga. Hernaðarstyrkur byggist ekki einungis á mannfjölda, á fjölda sjálfboðaliða eða annarra, heldur ekki síður því hvað þeir eru að gera og hvernig þeir eru tækjum búnir. Þess vegna finnst mér það athyglisvert sem hæstv. utanrrh. sagði m.a. að þau vélknúnu farartæki sem þeir hefðu með sér væru á hjólum en ekki beltum. Þetta þykir mér sem unnanda íslenskrar náttúru skipta verulegu máli því að beltisfarartæki skemma miklu meira að því er ég hef fyrir satt.
    En þetta var ekkert aðalatriði í þessu máli. Ég nefni þetta einungis til að draga fram að það skiptir engu höfuðmáli til eða frá hvort það koma nokkur hundruð fleiri gestir til landsins í þessu tilefni eða ekki. Ástæða þess að ég sagði að málið gerðist æ dularfyllra var að nú er hæstv. forsrh. ekki að tala um 150 manns, 300, 400 eða 1000 heldur segir hann óljóst hversu margir. Þetta gætu þess vegna verið 4000 manns af því að það eru 3000 í varnarliðinu að því er hæstv. forsrh. segir réttilega og þarna koma 1000 til viðbótar. Þá fer málið aldeilis að vandast. Ætli hæstv. forsrh. hafi ekki dottið það í hug þegar

hann var utanrrh. að það voru þá eftir allt saman miklu fleiri en 150, 300 eða 400 sem tóku þátt í æfingunum heldur voru þeir líklega mörg þúsund af því að varnarliðið tók þátt í þeim. Þetta hefur hæstv. ráðherra alveg gleymt að fjalla um í öllum viðtölunum við ríkisfjölmiðlana og Stöð 2 og að ég tali ekki um hina prentuðu fjölmiðla, allt sem liggur fyrir skriflegt, og nú eigum við sjálfsagt von á nýrri yfirlýsingakeðju um þetta mál.
    Þetta tala ég um hérna vegna þess að það skiptir máli að ríkisstjórn Íslands sé trúverðug á öllum sviðum. Hverjir sem sitja í stjórn, þá ætti það að vera lágmarkskrafa borgaranna í landinu að í öryggismálum landsins sé ríkisstjórnin trúverðug, að þar sé engu hringlað til eða frá. Það er krafa okkar allra sem viljum gæta sjálfstæðis þessa lands og lífs borgaranna sem það byggja. Ef þessari aðalástæðu væri ekki til að dreifa mætti e.t.v. segja að það væri svo sem mál hæstv. ráðherra sjálfra og innanhússvandi hjá hæstv. ríkisstjórn hvort menn eru sama sinnis, hvort ríkisstjórnin gefur samhljóða yfirlýsingar eða ekki eða hvort hæstv. forsrh. snuprar hæstv. utanrrh. sýknt og heilagt, annaðhvort beint eða þá óbeint með því að gera það í gegnum ummæli um varnarliðið eða varnarmálaskrifstofu. Það má segja að þetta sé þeirra höfuðverkur og stjórnarandstæðingar ættu ekki að vera að hafa áhyggjur af þessu. En ég óttast að þetta sé miklu alvarlegra mál vegna þess að það varðar grundvallaratriði í utanríkismálum og öryggismálum Íslands. Þetta var í raun og veru um hinar munnlegu yfirlýsingar um umfangið, hvort það væri mannfjöldi eða búnaður sem þar skipti máli og hvort það væri ástæða til þess að ætlast til þess að það væri samræmi í þeim yfirlýsingum, munnlegum.
    Þá kem ég að því hvernig fjallað var um þetta sama mál skriflega. Í dagblöðunum í gær er þessi litríka forsíða í málgagni hæstv. forsrh. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Jóni Baldvin kunnugt um heræfingarnar í sex mánuði, þagað síðan í október.`` Svo halda snuprurnar áfram eftir því og svo aftur með greinargerð á bls. 3 í þessu sama blaði.
    Í leiðara Alþýðublaðsins í gær er þessi fyrirsögn, með leyfi hæstv. forseta: ,,Steingrímur gaf leyfi til herbrölts`` o.s.frv.
    Ég ætla ekki að rekja þessar yfirlýsingar á víxl, en það sýnir að málið er e.t.v. farið að snúast um eitthvað annað en það sem er grundvallaratriði. En grundvallaratriðið er að öryggishagsmuna Íslands sé gætt.
    Nú ætla ég að víkja að spurningunni um að skrifa eða skrifa ekki. Hæstv. forsrh. --- ég er enn í þeim kafla --- sagði að hann hefði ekkert getað vitað um þetta mál vegna þess að það kom ekkert inn á hans borð. Það væri ekkert minnisblað og engin skrifleg skýrsla.
    Þá leyfi ég mér að að minna á það sem stendur í 14. gr. stjórnarskrár Íslands, að ráðherra ber ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Það gerir hann hvort sem minnisblað er á borðinu hans eða ekki. Það vinnur hópur embættismanna í þessum viðkvæmu

málum sem við erum hér að ræða um. Þeir vinna í sérstakri skrifstofu að því er ég hef alltaf haldið, til þess að í málum þessum geti verið sem best fagmennska og sem mestur trúnaður og að ráðherra sjálfur geti sem allra best fylgst með á hverjum tíma án þess að þar gangi á milli meira og minna opinberar skriflegar yfirlýsingar og skýrslur. Ég hef ævinlega haldið að þetta væri sjálfsagður hlutur vegna eðlis öryggis- og varnarmála.
    Ég hélt líka að alls staðar á byggðu bóli væri unnið að öllum slíkum málum í sem mestum trúnaði í ráðuneytum. Ef ráðherrum þykir skorta á upplýsingar að því er varðar öryggismál landsins er það brýn embættisskylda þeirra að ganga eftir þeim sjálfir en sitja ekki með hendur í skauti og undrast það ef ekki kemur minnisseðill sjálfkrafa inn á borð og þá séu þeir firrtir allri ábyrgð. Við erum hér að tala um hvorki meira né minna en grundvallaratriði í stjórnskipan Íslands, að ráðherra ber ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum og hann ber ábyrgð á gerðum embættismanna sinna sem unnar eru á vegum ráðuneytisins eða í nafni ráðherra og líka því að ekki sé tekið á einhverju máli. Allt þetta er á ábyrgð ráðherra. En það er e.t.v. einhver ný tíska sem er að ryðja sér til rúms í þessari hæstv. ríkisstjórn? Það hefur borið á því í þessum umræðum að menn séu að fría sig ábyrgð vegna þess að minnisseðill hafi ekki legið um mál á borði hæstv. ráðherra í fyrra. Maður þorir ekki að nefna ,,sjafnarmál`` í svona umræðum, en það eru svona aðferðir líka sem virðist vera beitt hjá hæstv. menntmrh., að skjóta sér á bak við embættismenn.
    En þetta er atriði sem er mjög mikilvægt og ekkert aukaatriði. Þetta sýnir að við höfum nánast vaðið í villu og svíma að halda að utanríkismálum og
öryggismálum landsins væri afar vel borgið í síðustu ríkisstjórn. Það hafði ég svo sannarlega haldið og verður mér litið til hæstv. fyrrv. forsrh. Ég geri ráð fyrir að hann hafi talið líka að svo væri. En svo kemur í ljós núna að hæstv. þáv. utanrrh. lét undir höfuð leggjast að leita upplýsinga um mál sem hann taldi svona alvarleg, um það hvort það væru 150, 300, 400 eða 1000 manns sem kæmu í heimsókn m.a. af hálfu óbreyttra borgara í Bandaríkjunum til að aðstoða við varnir þessa lands með því að taka þátt í æfingum.
    Ég held að það þurfi ekkert að ræða neitt um nauðsyn æfinganna. Ég held að við höfum verið þrjú í fyrrakvöld sem tókum sömu samlíkinguna í sambandi við brunahættu og slökkviliðsæfingar. Það væri lítið gagn í slökkviliðstækjum sem menn vissu ekkert hvernig ætti að nota, hefði aldrei farið fram nein æfing í viðbúnaði við brunahættu. Hvað með slysavarnirnar? Þarf ekki æfingar þar? Hvað með almannavarnir hér á landi? Ég endurtek að ég tel það mjög skynsamlegt --- svo eitthvað komi jákvætt í garð hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. forsrh. líka í þessari ræðu minni --- að samhæfa viðbúnað Almannavarna og varnarliðsins. Það kom fram í skýrslu hans um utanríkismál í fyrra að nauðsyn væri að aðlaga þennan

búnað og samræma og samhæfa varnarviðbúnaðinn íslenskum aðstæðum og staðháttum.
    Ég hyllist til að halda að þarna hafi orðið eins og stundum gerist það sem kalla má --- slys, að menn hafi verið of fljótir á sér að gefa yfirlýsingar sem þeir svo festast í og hrekjast æ lengra út í ógöngurnar. Hæstv. forsrh. hefði þurft að hugsa sig betur um og jafnvel að hafa samráð við formann þingflokks síns og sýna fram á að það verður ekki bæði sleppt og haldið. Það er ekki bæði hægt að segja að við teljum nauðsynlegt að taka þátt í störfum Atlantshafsbandalagsins og vera þar aðilar, en vilja samt ekki gera jafnsjálfsagða og nauðsynlega hluti og veita aðstöðu til æfinga. Þetta er þvílíkur tvískinnungur að það er engu líkt. En e.t.v. ættum við löngu að vera hætt að undrast að Framsfl. sé sögulegu hlutverki sínu trúr, sem sé að leika tveim skjöldum í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Það er algerlega ljóst.
    Ég byrjaði á því, frú forseti, að rifja upp að spurningar mínar í fyrrakvöld og reyndar ræður margra annarra hv. þm. voru til komnar af því að við skiljum ekki hvað formanni stærsta stjórnarflokksins gekk til að gagnrýna þessa væntanlegu aðgerð með þeim hætti sem hann gerði og á þeim tíma sem hann gerði. Var það kannski tímaskekkja? Eða var það e.t.v. nákvæm tímasetning til að halda upp á 40 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins sem er einmitt um þessar mundir? Eða var þetta e.t.v. einfaldlega einhvers konar heræfing Framsfl.? Ég held að þetta hafi verið þeirra sérkennilega aðferð við þetta hvort tveggja. Ég vonast til þess að friðelskandi lýðræðissinnar í þessu landi gleymi því ekki á þessu kjörtímabili með hvaða hætti forusta Framsfl. kaus að halda upp á 40 ára afmæli annars af tveimur merkustu friðarbandalögum þessarar álfu, en hitt bandalagið er Evrópuráðið. Þessi tvö bandalög voru stofnuð fyrir 40 árum, Evrópuráðið var pólitísk samvinna til að vernda lýðræði og frið. Þar er ekki fjallað um varnar- og öryggismál, enda áttum við þar sameiginlega hagsmuni með löndum utan Evrópu. Þess vegna störfum við í Atlantshafsbandalaginu.
    Það verður ekki annað sagt en að misjafn sé smekkur mannanna og menn fara misjafnlega að því að halda upp á hátíðleg tímamót og afmæli. Sumir eru að heiman á stórafmælum, aðrir efna til veislu og sumir eiga erfitt með að sætta sig við aldurinn. Það er stundum sagt um kynsystur mínar að við eigum svolítið erfitt með að sætta okkur við aldurinn. Ég held e.t.v. að formanni Framsfl. sé líkt farið að því leyti til að hann eigi erfitt með að sætta sig við að Atlantshafsbandalagið og aðild Íslands að því séu orðin 40 ára gömul. En því segi ég þetta að þegar árangur Atlantshafsbandalagsins er skoðaður er afstaða fólks í þeim sértrúarhópi manna sem kalla sig herstöðvarandstæðinga alger tímaskekkja. Út af fyrir sig getur maður skilið að fólk sem tengist vissu stefnumáli af miklum tilfinningahita í æsku yfirgefur ógjarnan þá æskuhugsun. Það er afstaða sem ég get út af fyrir sig virt og skilið. En mér þykir það hins

vegar svolítið einkennilegt þegar menn bera fram enn í dag sömu röksemdirnar og þeir báru fram fyrir 40 árum þó þeir sjái það margsinnis skrifað á vegginn að þær hafa verið algerlega út í myrkrið mæltar og ekki staðist að neinu leyti til. Þá á ég við þá höfuðröksemd, sem margir höfðu í frammi um það leyti sem við gengum í Atlantshafsbandalagið, að hér væri um að ræða ófriðarbandalag, þessi starfsemi mundi stofna til ófriðar, hún kallaði á árásir og hún stofnaði til árása o.s.frv. Allt þetta hefur afsannast og er algerlega rangt. Þvert á móti hefur þessi starfsemi afstýrt ófriði og tryggt frið um lengri tíma en þessar þjóðir hafa áður búið við. Þetta er hinn mikli árangur og mér þykja það heldur nátttröllalegir tilburðir að halda öðru fram og koma enn þá í ræðustóla og tala eins og þeir væru á Framtíðarfundi í menntaskólanum árið 1949 með röksemdirnar sem þá voru í frammi hafðar gegn þessu vestræna samstarfi. Ég held fremur að við eigum að taka þann þátt í
þessu samstarfi sem okkur er unnt eftir þeirri þekkingu og mannafla sem við höfum og við eigum að taka þátt í því með fullri reisn og horfast í augu við staðreyndir til að tryggja öryggi okkar lands, stuðla að friðsamlegri sambúð ríkja í heiminum og standa að því sem fullgildir aðilar.