Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Yfirlýsingar hæstv. forsrh. um vitneskju sína um heræfingu Atlantshafsbandalagsins á þessum sumardögum næstu eru orðnar nokkuð fjölskrúðugar og tætingslegar. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þingmenn að orðtaka það sem hæstv. ráðherra hefur sagt á einstökum stöðum og vil biðja hæstv. forseta að sjá til þess að alþm. fái útskrift af þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsrh. hefur gefið í útvarpi og sjónvarpi í öllum þessum stöðvum því að auðvitað höfum við ekki haft neina möguleika til þess að fylgjast með öllu þessu. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir okkur þingmenn að fá að vita nákvæmlega hvað hæstv. forsrh. hefur sagt um þessi mál. Við hljótum að eiga kröfu til þess eins og hann talaði áðan og eins og hann hefur talað. Ég veit það af fyrri beiðnum mínum um þvílíkt og ég bið um núna að fordæmi er fyrir því að Alþingi hafi milligöngu um upplýsingar af því tagi sem ég er nú að biðja um. Ég tel allra hluta vegna nauðsynlegt að fá þessar yfirlýsingar, svör hans við spurningum fréttamanna, að við þingmenn fáum þetta allt saman.
    Það var öðruvísi þegar forveri hans í Framsfl., Ólafur Jóhannesson, var að tala um öryggi lands og þjóðar. Ólafur Jóhannesson talaði ekki tæpitungu og þingmenn þurftu ekki að orðtaka sérstaklega það sem hann sagði til þess að þeir skildu hvort sá formaður Framsfl. hafði þann hug til Atlantshafsbandalagsins og sameiginlegra varna hinna lýðræðislegu þjóða sem allur meiri hluti þjóðarinnar hefur og veit að því að tryggja frelsi og öryggi í þeim heimshluta sem við búum í og um leið að tryggja frelsi og öryggi í veröldinni allri. Ólafur Jóhannesson talaði ekki með tæpitungu um þau mál. Hann var ekki að reyna að fela sig á bak við embættismenn og hann var ekki gleyminn á það sem hann hafði sagt né gleyminn á það sem aðrir höfðu við hann sagt í þeim samskiptum sem hann átti við Atlantshafsbandalagsríkin eða önnur þau ríki sem við þurfum og hljótum að eiga samskipti við um öryggi okkar sjálfra.
    Það vakti athygli mína eftir að hv. 2. þm. Reykn. hafði í glöggu máli gert grein fyrir því hvað hæstv. forsrh. hefur látið eftir sér hafa eða sagt á einstökum stöðum að forsrh. byrjaði sína ræðu með því að segja að hann hefði sagt allt sem þyrfti að segja og þyrfti svo sem ekki að bæta miklu við. Síðan komst hann að þeirri niðurstöðu að ræða hv. 2. þm. Reykn. hefði verið varnarræða fyrir varnarliðið og jafnframt talaði hæstv. forsrh. um að nauðsynlegt væri að krefjast þess að varnarliðið gæfi skriflegar upplýsingar um samskiptamál Íslands og varnarliðsins og mér skildist að það ætti að krefjast þess af varnarliðinu að þessar upplýsingar gengju á milli embættismanna í utanrrn. og alla leið upp í fílabeinsturninn til utanrrh.
    Ég held að hæstv. forsrh. geti ekki sloppið svona auðveldlega að tala um það hér að við þurfum að krefjast þess að varnarliðið sýni okkur meiri tillitssemi í samskiptum og samstarfi. Hefur eitthvað vantað upp á að varnarliðið hafi sýnt hæstv. ráðherra Steingrími Hermannssyni nægilega tillitssemi, nægilega kurteisi

meðan hann var utanrrh.? Ég spyr. Hvað segir hæstv. forsrh. um það? Hefur hann yfir einhverju að kvarta út af varnarliðinu, samstarfinu við það meðan hann var utanrrh.? Það er óhætt að segja já eða nei. Hvað segir hæstv. forsrh.? Treystir hann sér til að segja já eða nei? Treystir hæstv. forsrh. sér til að segja já eða nei við þeirri spurningu hvort hann hafi sem forsrh. yfir einhverju að kvarta í sambandi við samstarf sitt við varnarliðið? Hefur varnarliðið legið á upplýsingum við hæstv. forsrh. eða við hæstv. utanrrh. meðan þessi sami maður var utanrrh.? Er ekkert svar við því? Ekki já? Ekki nei? Ekki neitt? Hvernig væri þá að hæstv. forsrh. kæmi hér upp í stólinn og reyndi að útskýra nánar hvað fyrir honum vakti áðan, hvað lá á bak við hans ummæli? Það dugir ekki alltaf að koma upp í stólinn og vera að blaðra svona dittinn og dattinn út í hött, að tala þannig í krafti þess að hann tali alltaf til einhvers minni hluta hjá þjóðinni hverju skipti sem verði uppveðraður yfir því að Steingrímur talar þó einhvern tíma til þeirra og meinar svo aldrei neitt með því sem hann segir.
    Það er enginn vandi að koma í ræðustólinn hér og tala svona og geyma það svo bara til seinni tíma að standa fyrir sínu máli annars staðar og segja svo á þeim stað: Þessi ræða kom aldrei inn á borðið til mín. Ég man ekki hvort ég hef nokkurn tíma sagt þetta. Það getur vel verið að þetta sé í þingtíðindum. En trúa menn þá upptökutækinu betur en mér þegar ég segi að ég hafi aldrei sagt þetta, ég muni ekki eftir því að ég hafi sagt það?
    Það er náttúrlega alveg makalaust að æðsti maður þjóðarinnar, maður sem var utanrrh. áður og þar áður forsrh., maður sem hefur gegnt til skiptis þessum tveim sem sumir telja virðingarmestu embættum landsins ef undan eru skilin embætti forseta eða biskups, forseta landsins á ég við að sjálfsögðu, skuli skjóta sér svona undan. Ef það var tímaskekkja, hæstv. forsrh., að þúsund manns komi hingað í sumar meðan forsrh. frétti um heræfingarnar og ef hæstv. utanrrh. á þeim tíma hafði svona miklar meiningar um að það skipti máli hvernig þessum heræfingum yrði háttað, af hverju spurði hann þá ekki um það hvernig þeim yrði háttað? Ef honum finnast þær skipta svona miklu máli, af
hverju setti hann sig þá ekki inn í það hvernig þær yrðu? Af hverju spurði hann ekki? Af hverju bað hann ekki um upplýsingar? Skýringin er sú að hæstv. utanrrh. var ekkert að hugsa um þessa hluti. Hann var að ferðast hér og þar. Hann var á skíðum á einum stað og horfði á handbolta á öðrum. Hann var ekkert að velta því fyrir sér hvernig væri háttað samskiptum Íslendinga og varnarliðsins. ( Landbrh.: Það var samgrh. sem var að horfa á handboltann.) Er það ekki sami maðurinn? ( Landbrh.: Nei.) Ég man eftir mynd af hæstv. utanrrh. sem þá var horfandi á handbolta, núv. hæstv. forsrh., nema hann hafi þá verið forsrh., ég man það ekki. En ég skal að vísu játa það, af því að hæstv. samgrh. er gamall íþróttafréttaritari, en ég er á hinn bóginn stofnandi Spornis, félags antisportista í Menntaskólanum á Akureyri, að hann er betur inni

í því en ég hverjir sækja handknattleiksleiki og skal taka allt aftur sem ég hef sagt um þá hluti, en vil um leið kannski skjóta því að hæstv. samgrh. um leið og ég skýt því að forsrh. að það væri kannski best að þeir sneru sér að íþróttunum. Þjóðin mundi a.m.k. ekki tapa á því þó þeir leikir mundu tapast þar sem þessir tveir menn yrðu fulltrúar fyrir okkur Íslendinga.
    En þetta er samt kjarninn í því sem ég er að segja. Hæstv. forsrh. talar af miklu alvöruleysi ekki aðeins um varnar- og öryggismál okkar Íslendinga, hann slettir í góm, heldur er hann líka með alls konar dylgjur í garð varnarliðsins, alls konar dylgjur sem ég hlýt að biðja þennan hæstv. ráðherra að gera betri grein fyrir.
    Ég sé svo ekki, hæstv. forseti, ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Auðvitað væri nauðsynlegt að við töluðum við hæstv. forsrh. um miklu fleira en þetta. Í gær hafði mér verið lofað því að nokkur umræða gæti orðið um kjaramál og atvinnumál þegar við vorum að ræða um frv. um söluskatt að því gefna tilefni að það er mikil krafa launþegasamtakanna nú að við fáum lækkun á helstu nauðsynjum heimilanna vegna þeirrar miklu óðaverðbólgu sem hér hefur verið í landinu og sem hæstv. forsrh., meðan hann var í fílabeinsturninum, var það ekki 30. ágúst, þegar hann var að mynda ríkisstjórnina, er höfundur að. Höfundur að þeirri verðbólgu, hæstv. forsrh. er höfundur að þeim uppgangi vísitölunnar sem við verðum nú fyrir barðinu á. Auðvitað væri ástæða til að spyrja hann núna þegar hann er að tala um verðstöðvun hjá öllum öðrum en ríkinu eftir að ríkið er búið að hækka upp úr öllu valdi: Er ríkisstjórnin tilbúin til þess að taka þessar hækkanir til baka? Það væri tilefni til þess að ræða þetta, sagði ég. En ég skal ekki gera það undir þessum dagskrárlið.
    Gagnvart hæstv. samgrh. og landbrh. væri kannski líka tilefni til þess að ræða hvernig stendur á því að landbrh. stendur ekki við þau fyrirheit sem hann hefur t.d. gefið loðdýrabændum og væri skemmtilegt ef hann gæti komið upp í stólinn og skýrt það þó það væri undir öðrum dagskrárlið.
    En ég ítreka það sem ég sagði, hæstv. forseti. Ég vildi óska eftir því að þingið sæi svo um að þingmenn gætu fengið útskrift af þeim ummælum sem hæstv. forsrh. hefur látið frá sér fara í útvarpi og sjónvarpi um varnarmálin nú þessa síðustu daga.