Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera athugasemdir vegna ummæla hæstv. forsrh. sem óskaði beinlínis eftir því að ég gerði grein fyrir heimsókn minni til Keflavíkurflugvallar síðari hluta árs 1987, en þá fór ég sem forsrh. í heimsókn til varnarliðsins með sama hætti og hæstv. núv. forsrh. og hæstv. þáv. utanrrh. Þar gerðu yfirmenn varnarliðsins mér grein fyrir starfsemi þess, m.a. þeim heræfingum sem hér hafa verið til umfjöllunar og væntanlegum fjölda þátttakenda í heræfingu á árinu 1989. Þetta vil ég staðfesta að gefnu tilefni.
    Mér þótti ekki fremur en hæstv. utanrrh. vera tilefni til þess að gera ríkisstjórn þá grein fyrir þessari heimsókn eða þeim upplýsingum sem þá komu fram, enda voru þær allar um venjulegt og reglulegt starf varnarliðsins sem ég taldi þá vera fulla samstöðu um í hæstv. ríkisstjórn.
    Þau vandræði sem hæstv. forsrh. er í í þessari umræðu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi snýst það um hvort það er trúverðugt hjá hæstv. forsrh. að segja að væntanlegar ákvarðanir utanrrh. hans sjálfs séu tímaskekkja með hliðsjón af þeirri ábyrgð sem hann sjálfur ber sem forsrh. og utanrrh. í tveimur undangengnum ríkisstjórnum. Að hinu leytinu snúast vandræði hans um hvort ásakanir hans í garð varnarliðsins um að hafa ekki gefið íslenskum stjórnvöldum fullnægjandi upplýsingar séu réttar eða ekki. Lítum með örfáum orðum á þessi tvö atriði.
    Það hefur þegar komið fram í umræðunni að hæstv. núv. forsrh. ber ábyrgð í tveimur fyrri ríkisstjórnum sem forsrh. og utanrrh. á æfingum af þessu tagi. Í ráðherratíð hans sem utanrrh. var bókað um æfingarnar á næsta ári, jafnvel þó að hann segi nú að þá hafi hann ekki haft tíma vegna þess að hann hafi þá þegar verið kominn á kaf í myndun nýrrar ríkisstjórnar. Það er engin afsökun. M.ö.o.: ábyrgð hans í tveimur fyrri ríkisstjórnum gerir það að verkum að það er ekki trúverðugt þegar hann segir nú að það sé tímaskekkja sem hæstv. utanrrh. í hans eigin ríkisstjórn telur vera eðlilegt og hann hefur gefið í skyn að hann hyggist gefa leyfi fyrir.
    Um spurninguna um það hvort hæstv. forsrh. segir rétt til um frásagnir Bandaríkjamanna, þá hefur hann sjálfur upplýst í þessari umræðu að bandarísk stjórnvöld gáfu Íslendingum upplýsingar um þetta árið 1986. Hann hefur sjálfur upplýst að þáv. skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofunnar gaf þáv. utanrrh. munnlegar upplýsingar um þetta efni. M.ö.o.: það hefur komið skýrt fram að það er ekki við bandarísk yfirvöld að sakast í þessu efni --- og það er ekki varnarræða fyrir varnarliðið. Það er spurning um hvort íslensk stjórnvöld hafa sómatilfinningu til að greina satt og rétt frá hvernig samskipti við aðrar þjóðir hafa farið fram. Það er það sem Alþingi Íslendinga gerir kröfu til að þeir sem gegna ráðherrastörfum hafi þá sómatilfinningu að segja rétt frá í þessu efni.
    Alþingi Íslendinga gerir líka kröfu til þess að samskipti ráðherra og embættismanna þurfi ekki að

vera með þeim hætti að embættismennirnir verði að krefjast kvittunar fyrir því sem þeir segja ráðherra í hvert skipti ef þeir eiga ekki að fá ráðherrana í bakið einhvern tíma seinna.
    Niðurstaðan er sem sagt þessi og kemur minnisleysi hæstv. ráðherra ekkert við, að það liggur fyrir að hér voru gefnar eðlilegar upplýsingar af hálfu bandarískra yfirvalda. Um það var fullkomin vitneskja í varnarmálaskrifstofu og utanrrn. Allur aðdragandi málsins er því eðlilegur og ásakanir hæstv. forsrh. hafa því ekki við rök að styðjast og hann hafði í höndum upplýsingar um þetta áður en hann kom upp í þennan ræðustól og sagði annað um upplýsingar af hálfu Bandaríkjastjórnar. ( Forsrh.: Þetta er rangt.) Það er þetta sem liggur fyrir í málinu og það er þetta tvennt sem gerir það að verkum að hæstv. forsrh. er í þeim vandræðum og skapar þá vantrú á íslensk stjórnvöld og hann sem forsrh. sem hlýtur að leiða af málflutningi sem þessum. Það er þetta sem liggur fyrir. --- Hæstv. utanrrh. hefur upplýst að æfingarnar eigi að byrja 18. júní og því hafði hann líka greint hæstv. forsrh. frá áður en hann flutti mál sitt hér í þinginu. Þetta er kjarni málsins sem liggur hér fyrir og varpar ljósi á það að Framsfl. er klofinn í þessu máli. Hæstv. forsrh. er að reyna að breiða yfir þann ágreining, en með þeim afleiðingum að ríkisstjórn hans verður ótrúverðug í málflutningi um jafnmikilvæg og viðkvæm mál sem utanríkis- og varnarmál eru. Niðurstaðan er enn og aftur sú að hann fullyrðir um skort á upplýsingum þegar það liggur fyrir og hann hefur nú sjálfur viðurkennt að þær lágu allar fyrir og eru einungis spurning um áhuga þess ráðherra sjálfs að fylgjast með í sínu eigin ráðuneyti.