Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Leyfist mér að rifja upp að það var upphaf þessa máls að hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., óskaði eftir umræðu utan dagskrár um áform um æfingar á vegum varnarliðs á sumri komanda og beindi til mín ellefu spurningum. Spurningar hans snerust um það hvenær þessar óskir hefðu fyrst verið kynntar, hvenær ósk hefði verið lögð fyrir utanrrh., hvar æfingarnar skyldu fara fram, hversu margir tækju þátt í þeim samkvæmt þessum áformum, hvaða búnað væri áformað að þátttakendur í æfingunni hefðu meðferðis, hvaða dag liðið kæmi til landsins, hversu marga daga æfingarnar stæðu yfir samkvæmt áformum, hvers lags lið þetta væri eiginlega, hvaða tilgangi utanrrh. teldi að þessar æfingar þjóni, hvaða tök utanrrh. hefði á að koma í veg fyrir að æfingarnar færu fram og hvaða umfjöllun þessi ósk hefði fengið í ríkisstjórn.
    Þessum spurningum var öllum svarað. Hins vegar lýsti málshefjandi því yfir í svarræðu sinni að hann væri afar óánægður með svörin og hann sagði tvennt sem ég gat ekki látið fram hjá mér fara ómótmælt og það var þetta: Hann vændi utanrrh. um það að hafa ekki farið rétt með staðreyndir um forsögu málsins og að umræðan hefði leitt í ljós að þessar æfingar hefðu ekki farið fram að ósk íslenskra stjórnvalda og ekki með vitund eða vilja Framsfl. eða framsóknarmanna. Þessu gat ég að sjálfsögðu ekki látið ómótmælt, sérstaklega með hliðsjón af þeirri staðreynd að hv. málshefjandi hefur sjálfur verið stuðningsmaður allra þeirra ríkisstjórna sem átt hafa hlut að máli, hafa átt samskipti meiri og minni við yfirvöld varnarliðsins og samstarfsaðila í Atlantshafsbandalaginu um mótun stefnu í þessum málum á undanförnum árum og framkvæmd hennar.
    Þess vegna var það að ég svaraði þessum ásökunum með því að rekja þau samskipti sem orðið hefðu milli íslenskra stjórnvalda og yfirmanna varnarliðsins, yfirmanna varaliðssveitanna allt frá árinu 1984. Og eins og ég segi í ræðu minni, þá byggi ég þessar upplýsingar á skriflegum greinargerðum, bókunum og upplýsingum frá varnarmálaskrifstofu utanrrn., upplýsingum sem teknar hefðu verið saman og næðu til tímabils a.m.k. fjögurra utanríkisráðherra.
    Vegna umræðna sem hér hafa farið fram og snúast nú orðið aðallega um það hversu áreiðanlegar þessar upplýsingar séu, eru þær skriflegar eða í munnlegri geymd? þá vil ég taka fram eftirfarandi: Úr því að hafið var máls á þessu á Alþingi og reyndar þegar það er orðið að deiluefni í kjölfar fréttaflutnings, þá fól ég að sjálfsögðu skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu að taka saman eftir öllum tiltækum gögnum hennar heildaryfirlit yfir alla forsögu málsins. Sú yfirlitsgreinargerð sem ég flutti hér í svarræðu minni er tekin saman af skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu eftir öllum tiltækum gögnum. Spurningin um það hvort það byggi í öllum tilvikum á skriflegum greinargerðum, minnisblöðum o.s.frv., um hana er auðvitað hægt að fara orðum lið fyrir lið. Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að að

loknum þessum umræðum var haldinn fundur í utanrmn. þar sem ég gerði enn ítarlegar grein fyrir þessu og svaraði spurningum um álitamál sem höfðu vaknað eftir umræðurnar. En það er kannski rétt úr því að þetta er orðið að svona heitu deilumáli að fara aftur yfir það og taka af tvímæli um hverjar þessar heimildir eru.
    Fyrst er sagt frá því að yfirmaður landhers Bandaríkjanna kom til Íslands til viðræðna við yfirmenn varnarliðs og íslensk stjórnvöld árið 1984. Hver er heimildin fyrir því? Það er engin skrifleg greinargerð til um þá heimsókn. Heimildin fyrir því er skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, sem hins vegar fékk það frekar staðfest með því að leita til varnarliðsins sjálfs en dagsetningin er úr dagbók skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofunnar.
    Í annan stað var nefnt að í desember 1984 hefðu farið fram umræður í varnarmálanefnd um æfingar varnarliðsins sumarið 1985 og þá lýst áhuga íslenskra stjórnvalda á nánara samstarfi og atbeina íslenskra stjórnvalda við skipulag varnaráætlana varaliðsins og ósk íslenskra stjórnvalda um að fylgjast með æfingum. Heimildin er bókun í fundargerð varnarmálanefndar.
    Sumarið 1985. Fyrsta æfing varaliðsins hér á landi. Heimild: Fundargerð varnarmálanefndar.
    Sumarið 1986. Thomas Stone, yfirmaður varaliðsins, kemur hingað til lands og ræðir við varnarmálaskrifstofu utanrrn. um varnaráætlanir. Varnaráætlunin sjálf er trúnaðarmál og verður ekki lögð fram, en heimildin er upplýsingar frá fyrrv. skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu, Sverri Hauki Gunnlaugssyni. Farið var yfir skrá, yfir mikilvæga staði, mannvirki og fleira sem sérstök ástæða þykir að hafa í huga við gerð varnaráætlana. Sú skrá var undirbúin af íslenskum stjórnvöldum, afhent til þess samráðs, en varnaráætlunin í heild, eins og ég segi, er trúnaðarmál.
    Október 1986. Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu fór til fundar í Norfolk í Virginíu í Bandaríkjunum með yfirmanni Atlantshafsflota Atlantshafsbandalagsins þar sem æfingar varaliðsins 1989 og 1991 voru ræddar. Þá þegar var áætlað að um 1000 hermenn tækju þátt í æfingunum 1989. Hver er
heimildin fyrir þessu? Heimildin er frásögn Sverris Hauks Gunnlaugssonar, þáv. skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu, og staðfest nú hér í umræðunum að hann gerði þáv. hæstv. utanrrh., yfirmanni sínum, Matthíasi Á. Mathiesen grein fyrir þessu.
    Sjötta atriðið var nóvember 1986. Æfingaáætlun varnarliðsins árin 1987--1993 rædd í varnarmálanefnd. Heimildin er að sjálfsögðu fundargerð varnarmálanefndar.
    17. júní 1987. Varaliðsæfingin sjálf á Íslandi sem þá stóð yfir frá 17. júní til 25. júní. Heimildin er fundargerð varnarmálanefndar. Það er rétt að geta þess að það eru að sjálfsögðu til viðamikil gögn um framkvæmd æfinga og við höfum áheyrnarfulltrúa þar, við höfum sem sé eftirlitsaðila sem fylgjast með æfingunum, og síðan er samráð milli þessara aðila um framkvæmdina, og á einum stað kemur fram að

utanrrh. hafi verið afhentar upplýsingar um niðurstöður með ábendingum um tólf atriði sem vörðuðu sérstaklega íslensk stjórnvöld. Þetta er að sjálfsögðu allt til skriflegt, en þetta er að sjálfsögðu allt saman trúnaðarmál.
    21. ágúst 1987. Þáv. utanrrh. heimsótti varnarliðið og fékk upplýsingar um æfinguna 1987 sem fram hafði farið í tíð fyrirrennara hans. Þetta er svokölluð trúnaðarkynning sem varnarliðið heldur og er hefðbundið að nýr utanríkisráðherra taki þátt í. Af hálfu íslenskra aðila er ekki skráð fundargerð um slíka kynningu. Hins vegar er hún að sjálfsögðu skráð af hálfu þess sem kynninguna gefur og framkvæmir. Þær kynningar eru ekki í fórum utanrrn. heldur er hér stuðst við dagbók skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofunnar, en af því að þetta er orðið að deilumáli þá var náttúrlega gengið úr skugga um það hvað fram hefði komið í þessari kynningu og það er staðfest.
    Febrúar 1988. Forstöðumaður varnarmálaskrifstofu, yfirmaður varnarliðsins og Stone, yfirmaður varaliðsins, heimsóttu miðstöð Almannavarna í Reykjavík, þar sem umræðuefnið var áætlanir um samhæfingu starfa varaliðs og hlutaðeigandi íslenskra yfirvalda. Heimildin fyrir þessum fundi er dagbók skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu. Hér er auðvitað um að ræða framkvæmd á því stefnuatriði sem fram kom í skýrslu fyrrv. utanrrh. til Alþingis um það að Íslendingar ætla sér aukið frumkvæði að þessum hlutum. Til þeirrar yfirlýsingar í skýrslu utanrrh. hefur verið vitnað í þessum umræðum. Í framhaldi af því var síðan fundur með lögreglustjóra til þess að ræða nánar samskipti varaliðsins og íslenskra lögregluyfirvalda og fjarskiptayfirvalda og það byggir að sjálfsögðu á upplýsingum frá því embætti.
    Í febrúar 1988 komu hingað til lands 40 varaliðsmenn og tóku þátt í svokallaðri vetraræfingu á varnarsvæðinu. Heimildin fyrir því er að sjálfsögðu bókun í fundargerð varnarmálanefndar frá því 29. des. 1987. Það sem ég sagði um maí 1988, að þá hefðu komið hingað til lands 30 liðsforingjar að hluta til úr fastaher Bandaríkjahers og að hluta til úr varaliðinu og verið hér í heimsókn í eina viku, þá er því til að svara að það eru engar skráðar lýsingar til í fórum utanrrn. á slíkri heimsókn, enda gilda um það aðrar reglur. Liðið kemur hingað að sjálfsögðu með þeim hætti að íslenskum stjórnvöldum er kunnugt um það, en þetta er reglubundin heimsókn á vegum varnarliðsins og ekki til aðrar heimildir um það heldur en vitneskja íslenskra stjórnvalda munnleg og að sjálfsögðu gögn í fórum varnarliðsins um niðurstöðu ferðarinnar.
    Maí 1988. Viðræðufundur Stones hershöfðingja, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu, ráðuneytisstjóra dómsmrn. og yfirmanns varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Heimildin fyrir þessum fundi er að sjálfsögðu dagbækur skrifstofustjóra varnarmáladeildar og því næst staðfesting á umræðuefni fundarins frá viðkomandi embættum. En umræðuefnið var að yfirmaður varaliðsins gaf þessum íslensku

embættismönnum nákvæmar upplýsingar um áætlanir varaliðsins um varnir Íslands og lykilmannvirkja. Sú áætlun, eins og ég hef sagt reyndar áður, er trúnaðarmál þannig að um hana verða ekki gefnar skriflegar upplýsingar. En ég skal taka það fram að til þessa fundar var stofnað eftir að þáv. dómsmrh. hafði 14. mars farið sérstaka kynnisferð til varnarliðsins. Dómsmrh. fór þá för með embættismönnum sínum, en með honum í för var aðstoðarmaður þáv. utanrrh. Í framhaldi af þeirri kynningu sem þar fór fram var efnt til þessa fundar og þar eru að sjálfsögðu á dagskrá ákaflega þýðingarmikil mál eins og t.d. sú spurning, sem þáv. dómsmrh. vakti máls á, hvaða ráðstafanir yrðu gerðar á hættutímum, ég tala nú ekki um stríðstímum, til þess að tryggja siglingar Íslendinga að og frá landinu, þ.e. tryggja getu okkar á að tryggja aðföng íslenska þjóðarbúsins, íslensku þjóðarinnar á stríðstímum og að tryggja hindrunarlausan útflutning íslensku þjóðarinnar.
    Hér er enn sem fyrr um að ræða framkvæmd á þeirri stefnuyfirlýsingu sem fram kom í skýrslum tveggja fyrrv. utanrrh. og af hálfu embættismanna litið svo á að hér sé um að ræða framkvæmdaratriði á yfirlýstri stefnu en ekki stefnumarkandi nýmæli.
    Sama er að segja um þann fund sem átti sér stað í júní 1988 og varðar það að yfirmaður stuðningsdeildar varaliðsins, þ.e. svokallaðrar sjúkraliðadeildar,
það er kannski ekki rétta þýðingin, Army Combat Support Hospital, sem átti fund með forstöðumanni Almannavarna og framkvæmdastjóra ríkisspítala. Umræðuefnið var sem sé um skipulag á gagnkvæmum heimsóknum, þjálfun og þátttöku bandarískra hjúkrunarliða í neyðarástandsæfingum. Þetta er framkvæmd á sömu stefnu og heimildin er forstöðumaður Almannavarna sem og sá fulltrúi varnarmálaskrifstofu sem var milligönguaðili um fundinn.
    Þá er auðvitað loks að geta þess að 30. ágúst 1988 er í fyrsta sinn með formlegum hætti tilkynnt um áform um æfinguna 1989 á þann reglubundna hátt að það er gert með því að skrá þau áform í fundargerð varnarmálanefndar. Ég vil að gefnu tilefni taka það skýrt fram og staðfesta það sem fram kom í máli forsrh. að sú fundargerð var ekki lögð á hans borð og ekki lögð fyrir hann. Það er þess vegna þessu máli með öllu óviðkomandi hverjar annir utanrrh. hafði þá af öðrum ástæðum af þeirri einföldu ástæðu að það er staðfest af skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu að það er það löng tímatöf frá því að fundargerð er skráð eða fundur fer fram og þangað til fundargerð er lögð fram vegna þess að báðir aðilar fara yfir þær fundargerðir áður en þær eru frágengnar og hún mun ekki hafa komið á borð utanrrh. fyrr en í minni tíð, þ.e. 9. okt.
    Þá held ég að ég hafi sagt það sem ætla má að krefjast megi af mér til þess að spyrjast fyrir um það hverjar séu heimildir fyrir þeim upplýsingum sem ég hef gefið og ég gaf og ég taldi mig knúinn til að gefa vegna þess að málshefjandi, hv. þm. Páll Pétursson, hafði vefengt það að hér væri rétt farið með

staðreyndir.
    Þá er ósköp eðlilegt að spurt sé: Úr því að utanrrh. sá sem hér stendur vissi af þessum áformum, sbr. bókun varnarmálanefndar frá því í byrjun október, hvernig stendur þá á því að hann hefur ekki afgreitt málið fyrr? Það er ákaflega einfalt mál fyrir mig að svara því. Mér var kunnugt um þessi áform, þar á meðal að áformaður fjöldi væri 1200--1300 manns. Ég bæti því við að 25. okt. 1988 er ég í Bandaríkjunum fyrst og fremst þeirra erinda að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna en ég nota tækifærið að eigin ósk til þess að heimsækja aðalstöðvar Atlantshafsbandalagsins í Norfolk og á þar viðræðufund með yfirhershöfðingja og nokkrum sérfræðingum hans. Meginumræðuefnið varðaði að sjálfsögðu ekki þessar varaliðsæfingar. Meginumræðuefnin voru önnur. Og meginumræðuefni voru að mínu frumkvæði. Meginumræðuefni voru reyndar afvopnunarmál og þar á meðal spurningar mínar sem beindust að stefnu Bandaríkjastjórnar og bandarískra hernaðaryfirvalda varðandi það áhugamál okkar Íslendinga að auka kerfisbundinn undirbúning innan Atlantshafsbandalagsins að stefnumótun að því er varðaði traustvekjandi aðgerðir og afvopnun á höfunum. En að sjálfsögðu voru mér gefnar upplýsingar um þessar æfingar og þá sér í lagi um það hvenær þær hófust, hver reynslan var af þeim áður fyrr, hver tilgangurinn væri með þeim.
    Ég spurði margra spurninga en það kom skýrt fram að það var ekki fundur til undirbúnings ákvörðunum og enn taldi ég að mig vantaði margvíslegar upplýsingar og þar á meðal m.a. um tímasetningu, búnað og margt fleira. Sama er að segja um þá kynningu þegar ég fer 27. des. til Keflavíkurflugvallar, þá geri ég það sem utanrrh. og er að fara þá í fyrstu formlegu kynninguna. Sú kynning er fyrst og fremst þess eðlis að ég fer um varnarsvæðið, skoða þar byggingar og mannvirki, skoða m.a. Helguvík og átti síðan stuttan viðræðufund, spjallfund þar sem rétt aðeins var drepið á þessar fyrirhuguðu æfingar, en ýmsum spurningum mínum svarað, en ég kom jafnframt þeirri skoðun á framfæri að ég mundi ganga eftir mun ítarlegri upplýsingum áður en ég tæki mína ákvörðun. Og á þessum kynningarfundi kom það fram að þær væru ekki að öllu leyti tilbúnar.
    En ég les líka blöðin og ég vissi af þessum áformum vegna þess að þetta mál er búið að vera í fréttum frá 1987, 1988, m.a. í fréttum í Morgunblaði, fréttum í Þjóðvilja og viðtöl birt eins og áður hefur komið fram við þennan ágæta stærðfræðikennara, Stone, þannig að út af fyrir sig hafði ég þessa vitneskju jafnvel áður en þessir kynningarfundir voru haldnir.
    Þá má náttúrlega spyrja: Hvaða upplýsingar voru það sem á skorti? Svarið við því er líka ósköp einfalt: Þegar farið er að ganga eftir því við mig af hálfu minna embættismanna að nú þurfi ég að taka þessa ákvörðun, þá spyr ég fyrst: Eruð þið búnir að afla þeirra upplýsinga sem ég hef beðið um? Og í byrjun mars geri ég það munnlega í viðtölum við

skrifstofustjóra minn að ég segi: Ég vil fá allar upplýsingar um þessar heræfingar, bara allar. Ég vil fá að vita um markmiðslýsingu, ég vil fá lýsingu á aðgerðum, það sem á að gera, ég vil fá nákvæma lýsingu á öllum búnaði, ég vil fá að vita um samsetningu liðsins, fjölda og hvernig hann er deildaskiptur milli hinna ýmsu eininga, ég vil fá að vita um tímasetningu. Niðurstaðan varð sú að síðan er farið að afla þessara upplýsinga, að sjálfsögðu, og þær eru ekki komnar í heild sinni fyrr en eftir að þessi fréttaflutningur byrjar, sem ég hef nú ekki nákvæmlega dagsetningar um, jú, 23. og 27., og síðan er mér endanlega gerð grein fyrir því, það sem ég kalla fullnægjandi upplýsingagjöf, sunnudaginn 2. apríl. Ég held að ég geti
ekki betur gert en að gera þannig hreint fyrir mínum dyrum um aðdraganda málsins og upplýsingarnar þannig að ekkert fari á milli mála.
    Að lokum, virðulegi forseti, hafa ýmsir ræðumanna vakist upp til þess að segja að þessar upplýsingar sanni það að ýmsu sé mjög ábótavant í störfum varnarmálaskrifstofu og jafnvel hefur verið veist að fjarstöddum embættismanni, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu. Það var mér sérstakt tilefni til þess að bera af honum blak og staðfesta, sem ég geri enn, að hann er með einhverjum vönduðustu embættismönnum í íslenska stjórnkerfinu. Ég tel það mjög miður og þykir það miður ef þessar umræður ætla að verða mönnum tilefni til þess að veitast að þeim ágæta manni sem hér á enga sök. Ég er hins vegar að sjálfsögðu opinn fyrir öllum viðræðum um það hvort eitthvað megi betur fara í þessum samskiptum og um það ræddum við nánar í utanrmn. Þar staldra ég aðallega við einn þátt málsins og hann er sá að þar sem þessar æfingar kalla á mjög tímafrekan og nákvæman undirbúning sem tekur langan tíma, reyndar 1*y1/2*y ár, þá hef ég rætt um það við mína embættismenn og mun setja um það starfsreglur að allar upplýsingar af því tagi, sem ég hef leitað eftir og fengið helst til seint, verði lagðar fyrir utanrrn. strax við upphaf áætlunargerðar og jöfnum höndum þannig að utanrrh. hafi --- og það verði starfsregla --- allar þær upplýsingar sem honum kunna að þykja nauðsynlegar til þess að taka ákvarðanir. Til þess að taka ákvarðanir um hvað? Til þess að framfylgja yfirlýstri íslenskri stefnu um það að við ætlum að leggja mat á þetta sjálfir, sjálfstætt mat út frá öryggishagsmunum Íslendinga. Og við ætlum að samhæfa varnaráætlun Íslands, íslenskra ríkisborgara, íslenskra mannvirkja, íslenskra stofnana á hættutímum og gera um það viðlagaáætlun. Það gerum við að okkar eigin frumkvæði og það gerum við líka að sjálfsögðu í samstarfi við þá aðila sem við höfum milliríkjasamning við og felur í sér skuldbindingu um aðild að vörnum Íslands.
    Ég held að ég hafi út af fyrir sig ekki neinu sérstöku frekar við þetta að bæta. Aðalatriði þessa máls er að sjálfsögðu þetta: Er okkur eitthvað að vanbúnaði, Íslendingum, íslenskum stjórnvöldum, að leggja sjálfstætt mat á þessi áform og taka ákvörðun?

Ég held að svo sé ekki. Hafi eitthvað farið úrskeiðis að því er varðar upplýsingagjöf milli ráðherra, frá einum ráðherra til annars, eða milli embættismanna, þá má náttúrlega vekja athygli á því að það hafa orðið tíð skipti á utanríkisráðherrum og reyndar á forustumönnum í embættismannaliðinu. Af því má kannski draga þá ályktun að það sé óæskilegt að skipta um utanríkisráðherra svona oft.