Heræfingar varnarliðsins
Fimmtudaginn 06. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Við erum nú búin að karpa fram og aftur um þetta mál á tveim fundum og það er spurning hvort það tekst að ljúka málinu á þessum fundi. Gæti þurft að fresta þessu enn þá einu sinni. Á meðan bíða önnur og miklu mikilvægari mál afgreiðslu og umræðu í þinginu. Það virðist enginn hafa neinar áhyggjur af því að hér hófst verkfall á miðnætti sl. Ríkisstjórnin er gjörsamlega búin að missa alla stjórn á efnahagsmálunum og hefur engu fengið áorkað í þeim málum. Það er fram undan stórfellt atvinnuleysi, fyrirtæki leggja upp laupana hvert af öðru. Það er eins og það hafi enginn áhuga á því. En við höfum áhuga á því að tala hér fram og aftur um nokkra hermenn sem ætla að koma hingað til æfinga, og hvort það muni kannski trufla kríuna á Miðnesheiði þegar þeir koma hingað.
    Það er eins og kjarni málsins hafi gleymst, en hann er sá að á örlagastundu ákváðum við Íslendingar að gerast aðilar að varnarbandalagi vestrænna þjóða, þ.e. Norður-Atlantshafsbandalaginu, með þeim skyldum og með þeirri ábyrgð sem því samstarfi fylgir. Síðan var ákveðið hér á hinu háa Alþingi að gera varnarsamning við Bandaríkin þar sem ákveðið var að hingað kæmi til fastrar dvalar herlið sem ætti að halda uppi og sjá um varnir landsins á meðan ástand í alþjóðamálum væri með þeim hætti að það yrði ekki umflúið að hafa hér einhvern viðbúnað. Síðan eru liðin tæplega 40 ár.
    Svo sannarlega mundi ég óska þess að sem allra fyrst skapaðist það ástand í alþjóðamálum að hér þurfi ekki að vera herlið. Það er satt að segja sorgleg staðreynd að brátt líður að því að enginn núlifandi Íslendingur man eða hefur upplifað landið án hersetu. Það er sorgleg staðreynd. En það er e.t.v. ekkert við því að gera eins og alþjóðamál hafa þróast á árunum og áratugunum eftir heimsstyrjöldina. Það hefur ekki verið hægt að treysta á að allt færi ekki í bál og brand nánast hvenær sem er. En þó er eins og núna síðustu missirin örli á því að það sé kannski að verða varanleg breyting á og væri vel ef svo er.
    Það er annað mál, og það hefur hæstv. utanrrh. bent á og ég er honum hjartanlega sammála, að það er löngu orðið tímabært og komið að því að Íslendingar hafi aukið frumkvæði í þeim efnum að sjá sjálfir um þessi mál, þ.e. meti sjálfir öryggi landsins og annist e.t.v. sjálfir rekstur og gæslu þeirra mannvirkja og þeirra tækja sem hér koma til með að vera á meðan við tökumst þessa ábyrgð á hendur sem því fylgir að vera aðilar að þessu varnarsamstarfi.
    Nú ætla ég ekki að fara að halda hér langa ræðu. Þó að ég sé nú kennari eins og hæstv. utanrrh. og hafi þar af leiðandi fengið byggt inn í mig svokallaða 45 mínútna ræðu, þá tekst mér stundum að tala skemur en svo. En mig langar til að drepa hér á nokkur atriði. Ég átti þess ekki kost að vera hér á kvöldfundi þegar þetta mál var á dagskrá síðast og því heyrði ég ekki umræðurnar nema hvað sagt var um þær og fjallað í fjölmiðlum. En ég verð að ítreka það aftur, eins og ég gat um hér í upphafi, að mér finnst

þessi umræða hafa farið vítt og breitt og taka tíma frá öðrum og mikilvægari málum. Ég sé ekki að það skipti öllu máli hversu oft hæstv. forsrh. hefur verið plataður eða hvort hann hafi gleymt ýmsum upplýsingum sem honum voru fengnar, hvort hann hafi gleymt að lesa skýrslur eða ekki séð þær, allt þetta finnst mér skipta litlu sem engu máli, sérstaklega á meðan við horfum upp á þá efnahagsóáran sem hér ríkir í landinu.
    Ég vil ítreka það að við tökum þátt í þessu varnarsamstarfi. Hér er mjög flókinn og mikilvægur búnaður sem fylgir þessu samstarfi. Hér dveljast 3000 hermenn frá Bandaríkjunum við störf samkvæmt sérstökum samningi við íslensk yfirvöld. Það gefur auga leið að það þarf að gæta þess að þessi búnaður virki. Það þarf að þjálfa þá aðila sem eiga að nota þennan búnað. Eða hvað finnst mönnum? Er hugmynd manna með þessu samstarfi sú að hér eigi að rykfalla einhver úrelt tæki og það eigi ekki nokkurn tíma að æfa það að nota þau? Mér finnst þetta jafnfráleitt og það að amast við því þó að hingað komi nokkur hundruð manns. Ég sé ekki að það skipti máli hvort hingað koma 300--400 manns eða hvort hingað koma 1000--1400 manns. Auðvitað er það kjánalegt og klaufalegt af hálfu samstarfsþjóðar okkar, Bandaríkjamanna, að velja einmitt þjóðhátíðardaginn til þess að safna þessu liði saman í Bandaríkjunum. En mér finnst það nú frekar léttvægt. Ég get a.m.k. ekki farið að setja það svo á oddinn að á því hangi allt málið.
    Svo er mér nú mun rórra að vita það að yfirmaður þessarar herdeildar sem hingað er væntanleg til æfinga skuli nú þar á ofan vera áhugamaður um fuglaskoðun. Það hefur reyndar komið fram þegar í þessum umræðum að honum sé treystandi til að umgangast kríuna á Miðnesheiði af nokkurri varúð.
    Ég vil hins vegar leggja áherslu á það að mér finnst að umræðan ætti frekar að snúast um það með hvaða hætti við Íslendingar getum aukið frumkvæði okkar í þessum efnum, að við getum þjálfað upp starfsmenn sem smám saman gætu tekið yfir allan þennan búnað.
    Ég er nefnilega að leyfa mér að vonast til þess að sá tími sé ekki langt fram undan á þeirri tækniöld sem við lifum þessi árin að við getum tekið í
okkar eigin hendur rekstur og eftirlit með öllum þeim búnaði sem hér þarf að vera, öllum þeim tækjum sem hér þurfa að vera til þess að fullnægja skyldum okkar í þessu varnarsamstarfi. Kannski kemur reyndar að því áður en varir að menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé óþarfi að heyja styrjöld með þessum gamaldags hefðbundna hætti sem við þekkjum úr mannkynssögunni. Það megi einfaldlega gera þetta allt í tölvum. Við eigum mjög mikið af duglegum og færum tölvumönnum og þeir geta svo sannarlega tekið að sér að sjá um þann hluta varnarsamstarfsins. Ef leika þarf einhverja stríðsleiki á tölvur þá eigum við fullt af mönnum sem geta gert það.
    Ég heyrði ræðu hæstv. utanrrh. hér í upphafi þessarar umræðu, þar sem hann benti á atriði sem ég

er honum alveg sammála um, að að sjálfsögðu ber að notfæra sér þetta tækifæri til þess að samhæfa og kanna stöðu ýmissa öryggismála hjá okkur sjálfum, m.a. að rannsaka hver séu viðbrögð og hver sé geta Almannavarna ríkisins og hverjir séu viðbragðsmöguleikar og hversu öruggt er hjúkrunar- og sjúkraliðskerfi okkar. Hvernig mundum við t.d. mæta því ef hér yrði stórfellt slys og þyrfti að sinna mjög mörgum slösuðum og sjúkum á einu bretti? Það eru slíkir hlutir sem við gætum vel kannað og er mjög hollt fyrir okkur að taka til athugunar. Kannski er þarna einmitt tækifæri til þess að gera einmitt það sem ég er að segja hér. Eins þarf að kanna fjarskiptakerfi okkar og margt annað.
    Eins og ég sagði í upphafi þarf ég ekki að hafa um þetta langt mál. Mér finnst afar einkennilegt að á hinu háa Alþingi skuli varið öllum þessum tíma til að karpa um hvort hingað skuli koma nokkur hundruð eða jafnvel rúmlega þúsund menn til þess að æfa hér og kynnast þeirri aðstöðu sem er á Keflavíkurflugvelli. Þetta er einfaldlega hluti af þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem við tókumst á hendur með varnarsamstarfinu og er alveg furðulegt að heyra menn vera að gera svona mikið mál út úr þessu. Það er út af fyrir sig ekkert annað en hollt fyrir okkur alþingismenn að taka þessi mál til umræðu, en ég held að okkur væri nær að eyða svolítið minni tíma í þetta mál og meiri tíma í hin brýnu mál sem nú blasa við, en það er með hvaða hætti við getum fengið einhvern botn í kolómögulega efnahagsstjórn þessa lands.