Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1989--1992. Hér er um að ræða reglubundna endurskoðun vegáætlunar í samræmi við 10. gr. vegalaga nr. 6/1977. Hér á eftir mun ég drepa á nokkur helstu atriði þessarar vegáætlunar sem prentuð er á þskj. 735, 392. mál, og tengsl hennar við langtímaáætlun um vegagerð.
    Vorið 1981 samþykkti Alþingi till. til þál. um gerð langtímaáætlunar um vegagerð. Þar var ákveðinn fjárhagsgrundvöllur áætlunarinnar og helstu stefnumið. Langtímaáætlun var síðan lögð fyrir Alþingi veturinn 1982--1983. Var vinnu við hana að kalla lokið en þó var hún ekki afgreidd frá Alþingi. Áætlunin hefur þó nýst í verulegum mæli sem stefnumótun.
    Samkvæmt tillögunni frá 1981 skyldi tiltekið hlutfall af þjóðarframleiðslu renna til vegamála. Skemmst er frá því að segja að þetta hlutfall hefur aldrei náðst og hin síðari ár hefur vantað mjög mikið upp á að svo væri. Miðað við nýjasta grunn þjóðarframleiðslu á hlutfallið að vera 2,08% en hefur lægst orðið 1,07% á árinu 1987 eða rétt rúmur helmingur þess sem vera átti samkvæmt hinni upphaflegu langtímaáætlun. Þessi hefur niðurstaðan orðið þrátt fyrir að yfirleitt hefur vegáætlun verið sett þannig fram að tilskilið hlutfall næðist þegar á öðru ári af gildistíma áætlunarinnar. Hér er átt við fjögurra ára tillögurnar.
    Markaðir tekjustofnar hafa lengi verið meginuppistaðan í tekjum vegáætlunar. Til ársins 1986 voru þó einnig önnur framlög en frá og með því ári hafa markaðir tekjustofnar staðið undir öllum útgjöldum vegáætlunar. Þess ber að geta að markaðir tekjustofnar hafa stækkað verulega undanfarið, einkum bensíngjaldið. Bifreiðafjöldi hefur farið ört vaxandi undanfarið og þá einnig bensínsalan. Hefur hún aukist um 35% á tímabilinu 1983--1988. Þessir mörkuðu tekjustofnar hafa ekki alltaf fylgt verðlagi og hluti þeirra hefur stundum runnið í ríkissjóð.
    Í tillögu þeirri sem hér liggur fyrir er miðað við að markaðir tekjustofnar standi áfram undir öllum útgjöldum vegáætlunar. Reiknað er með hægum en jöfnum vexti bensínsölu á tímabilinu en óbreyttum stofni í þungaskatti. Með því að nýta tekjustofnana samkvæmt lögum, þ.e. láta þá fylgja verðlagi, má auka framkvæmdafé vegáætlunar umtalsvert og er við það miðað hér, þ.e. að þessir mörkuðu tekjustofnar séu nýttir að fullu og látnir fylgja verðlagshækkunum. Þannig má ná hlutfalli af þjóðarframleiðslu miðað við hinn nýja grundvöll á bilinu 1,4--1,5% á næstu árum. Er það verulegur áfangi í þá átt að ná því framkvæmdamagni sem langtímaáætlun miðast við og talsvert hærra hlutfall en runnið hefur til vegamálanna nú hin síðustu ár. Þetta hlutfall næst þó ekki á yfirstandandi ári eins og kunnugt er, en vegna ástands í efnahagsmálum þjóðarinnar varð því miður ekki hjá því komist að hluti markaðra tekna rynni í ríkissjóð á þessu ári. Hlutfall af þjóðartekjum í ár verður þó mjög svipað og það var á síðasta ári. Þetta veldur því

að ekki tekst að verðbæta gildandi vegáætlun fyrir árið 1989 til fulls. Bitnar þetta á öllum liðum áætlunarinnar en einkum þó á nýframkvæmdum.
    Vegáætlun nú nær yfir hin seinni tvö ár 2. tímabils langtímaáætlunarinnar og fyrri tvö ár 3. tímabils eins og þau voru sett fram og skilgreind í upphafi. Endurskoða átti langtímaáætlun eftir hvert fjögurra ára tímabil í fyrsta skipti á árinu 1987. Rammi að endurskoðun var þá lagður fram á Alþingi, en ekki varð af endurskoðun í það sinn. Mjög mikilvægt er að hafa á hverjum tíma stefnumótandi áætlun til lengri tíma en vegáætlun nær yfir. Er því orðið brýnt að endurskoða langtímaáætlunina og mun ég beita mér fyrir því að það verði gert á næstu 1--2 árum þannig að hún liggi fyrir ekki síðar en við næstu endurskoðun vegáætlunar.
    Eins og rakið var hér á undan vantar mikið á að fjármagn til vegamála hafi náð því marki sem sett var í langtímaáætlun. Í framkvæmd hefur þetta bitnað mest á uppbyggingu vega og dýrari verkefnum, en bundin slitlög hafa setið í fyrirrúmi. Þar við bætist að ýmis dýr verkefni sem ekki voru inni í upphaflegri langtímaáætlun hafa nú mjög minnt á sig hin síðari ár. Má þar nefna t.d. jarðgöng, framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og stærstu brýr og þveranir á fjörðum.
    Til að byrja á þessum verkefnum er nú tekin upp í þessari vegáætlun nýr verkefnaflokkur, stórverkefni, og verður nánar vikið að honum síðar. Við þá endurskoðun langtímaáætlunar sem nú er fram undan og orðið er brýnt að hefja þarf m.a. að fella þessi nýju verkefni inn í áætlunina.
    Ég mun þá víkja nánar að hverjum einstökum framkvæmdaflokki fyrir sig eins og þeim er raðað upp hér í áætluninni og sundurliðað er hvað skiptingu útgjalda snertir á bls. 2 í áætluninni á þskj. 735. Fyrst vík ég þá að viðhaldi vega.
    Fjárveitingar til viðhalds hafa lengi verið af skornum skammti og er svo enn á þessu ári en reiknað er með nokkurri hækkun á næstu árum. Innan sumarviðhalds verður áherslubreyting í þá veru að viðhald bundinna slitlaga fer vaxandi á næstu árum af eðlilegum ástæðum. Bundið slitlag er nú komið á
nærri 2000 km af þjóðvegum landsins. Að langmestu leyti er um klæðningu að ræða, en tíu ár eru nú liðin frá því hafin var lagning þessarar slitlagsgerðar. Þetta er ódýrasta gerð bundinna slitlaga, en hefur í heild reynst vel og m.a. er ending hennar fyllilega eins góð og reiknað var með í upphafi. Rækja verður viðhald bundinna slitlaga með reglubundnum hætti og verður þetta verkefni vaxandi á næstu árum. Jafnframt þessu þarf að sinna viðhaldi malarvega, heflun og rykbindingu þannig að bilið milli ástands þeirra og vega með bundnu slitlagi breikki ekki a.m.k.
    Nýr liður er nú tekinn upp í sumarviðhaldi, en það eru aðgerðir til að auka umferðaröryggi. Er það 10. liður undir lið 2.2. Viðhald þjóðvega. Þessum málum er sinnt undir ýmsum liðum vegáætlunar, bæði viðhaldi og nýjum framkvæmdum. Hér er þó um svo mikilvægan málaflokk að ræða að rétt þykir að ætla

honum sérstaka fjárveitingu. Byrjað er í smáum stíl á þessu ári en aukið þegar á næsta ári. Verður þessu fjármagni varið til að lagfæra hættulega staði og til annarra þeirra aðgerða sem stuðla að fækkun umferðarslysa.
    Þá má enn nefna að liðurinn Vegmerkingar er hækkaður töluvert frá því sem verið hefur. Er það einnig hugsað til að bæta þjónustu við vegfarendur og auka þeim þægindi og öryggi í akstri.
    Umfang vetrarþjónustu er á hverjum tíma í samræmi við svonefndar snjómokstursreglur. Reglur þessar hafa verið endurskoðaðar á nokkurra ára fresti og þjónustan aukin við hverja endurskoðun. Síðustu reglur voru frá því í desember 1985. Mjög margar óskir hafa borist undanfarið um aukna þjónustu á þessu sviði. Þessar óskir eru tengdar þeim breytingum sem eiga sér nú stað í landinu þar sem m.a. krafa um hreyfanleika í atvinnu og þjónustu er mjög vaxandi. Til að koma nokkuð til móts við þessar óskir voru snjómokstursreglur rýmkaðar nokkuð nú í vetur. Var sú ákvörðun tekin snemma í febrúar með gildistöku um miðjan mars. Þessar nýju reglur koma svo inn með fullum þunga næsta vetur og eru tillögur um fjárveitingar við það miðaðar. Jafnframt er gert ráð fyrir því í fjárveitingum áranna 1991 og 1992 að þá verði frekari áfangar teknir til aukinnar þjónustu á þessu sviði.
    Tillögur um fjárveitingar taka mið af meðalkostnaði eins og hann er metinn á hverjum tíma. Raunkostnaður er hins vegar mjög breytilegur og geta frávik frá meðaltalinu verið um og yfir 50%. Fjárveiting fyrir árið í ár var að venju miðuð við meðalkostnað. Tekið var tillit til aukins kostnaðar vegna breytinga á snjómokstursreglum svo og lítils háttar innistæðu frá sl. ári.
    Eins og öllum er kunnugt hefur veturinn reynst mjög erfiður um mestan hluta landsins. Ljóst er að kostnaður stefnir verulega fram úr áætlun. Verður fjvn. gerð grein fyrir horfum í þessum málum og kemur þá til hennar kasta að endurskoða fjárveitinguna í ljósi þess sem orðið er á yfirstandandi vetri.
    Fjárveitingar til nýrra þjóðvega skiptast á verkefnaflokka með hliðstæðum hætti og verið hefur. Sama er að segja um fjárveitingar til nýrra brúa. Í skiptingu fjár innan stofnbrauta verða þó breytingar á liðum frá og með árinu 1990. Lagt er til að liðirnir Almenn verkefni og Bundin slitlög verði þá sameinaðir undir heiti hins fyrri liðar og að liðirnir Ó-vegir og Reykjavíkursvæðið falli niður og verði felldir undir nýjan lið, Stórverkefni. Sá liður fær fjárveitingu þegar á þessu ári, en að öðru leyti er hlutfalli gildandi vegáætlunar haldið við skiptingu á liði 1989.
    Tölur á hinum almennu liðum hækka um liðlega 14% frá gildandi vegáætlun fyrir 1989.
    Stofnbrautir fá sem fyrr mest fjármagn í sinn hlut. Þar af fara um 40% til almennra verkefna á árunum 1990--1992, en um 47% árið 1989. Miðað er við að sú upphæð sem til þessa liðar renni árlega 1990--1992

verði svipuð að verðgildi og var að meðaltali á árunum 1982--1988.
    Lagt er til að á árunum 1990--1992 verði 21--23% stofnbrautarfjár varið til sérstakra verkefna. Þetta er svipað hlutfall og í ár og að verðgildi sambærilegt við það mesta sem varið hefur verið til þessa liðar á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir að fjvn. fjalli um það til hvaða verkefna þessu fjármagni verður varið svipað og verið hefur við gerð vegáætlunar á undanförnum árum.
    Á undanförnum árum hefur öllu fjármagni sem varið hefur verið til nýframkvæmda á stofnbrautum verið skipt milli kjördæma með ákveðinni reiknireglu sem tekur tillit til kostnaðar við endurbætur þeirra, ástands og arðsemi framkvæmda. Frá reiknitölu eða kvóta sem þannig er reiknuð út hafa síðan verið leyfð takmörk eða frávik, mest 2% til lækkunar hjá einstökum kjördæmum. Þótt aðferð þessi hafi að mörgu leyti reynst vel hafa skapast erfiðleikar við fjármögnun stórra verkefna og hafa þeir erfiðleikar farið vaxandi eftir því sem ráðist hefur verið í stærri verkefni. Til þess m.a. að ráða bót á þessu er lagt til að taka upp nýjan lið, Stórverkefni, sem áður var nefndur. Er þessum lið einkum ætlað að fjármagna jarðgöng, umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu, svo og stórbrýr og fjarðaþveranir.
    Á öllum þessum sviðum eru mjög brýn verkefni fram undan, verkefni sem ekki verða leyst nema með sérstakri fjármögnun á vegáætlun. Fjárveitingar til
þessara verkefna yrðu að miklu leyti utan við kvótaskiptingu kjördæma og kemur til kasta fjvn. að skipta þessu fjármagni á verkefnaflokka og einstök verkefni. Eðlilegt verður þó að telja að kjördæmin leggi einnig talsvert til þessara verkefna af kvóta sínum. Gætu það t.d. verið 20--25% í jarðgöngum og 30--35% í stórbrúm. Höfuðborgarsvæðið hefur þá sérstöðu að vera utan kvóta og yrði svo áfram. Á hinn bóginn bætast þar við fjárveitingar til þjóðvega í þéttbýli, enda er fjárveitingum til höfuðborgarsvæðisins ætlað að leysa verkefni á þjóðvegum í þéttbýli. Sú tilhögun á fjármögnun stórverkefna sem hér er lýst hlýtur að hafa áhrif á reiknireglu þá sem notuð hefur verið undanfarið. Kemur til kasta fjvn. um endurskoðun á henni.
    Á þessu ári er lagt til að fjárveiting til stórverkefna verði 200 millj. kr., en það er sú upphæð sem bættist við útgjöld til vegamála við lokaafgreiðslu fjárlaga. Þetta fé þarf að renna til framkvæmda í Ólafsfjarðarmúla, en ákveðið var við gerð síðustu vegáætlunar, þ.e. vegáætlunar með gildistíma áranna 1987--1990, að hefja framkvæmdir við það verk á árinu 1988. Fyrrv. samgrh. heimilaði útboð verksins á síðasta ári og hófust framkvæmdir síðari hluta ársins eins og kunnugt er. Ekki var hins vegar gengið endanlega frá fjármögnun þess og er þetta raunar gott dæmi um verk sem nánast er ómögulegt að fjármagna miðað við það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið um skiptingu fjár milli kjördæma.
    Til þjóðbrauta er gert ráð fyrir að verja alls 862 millj. kr. á áætlunartímabilinu. Er lagt til að

fjárveitingar til þessa verkefnis hækki talsvert á árunum 1990--1992 frá því sem verið hefur að undanförnu.
    Til girðinga og uppgræðslu er varið 81 millj. kr. á áætlunartímabilinu, en langt er enn í land með að ljúka þessu verkefni.
    Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að verja alls 495 millj. kr. til brúargerðar á tímabilinu. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að nokkurt fjármagn af liðnum Sérstök verkefni renni til brúabygginga, auk þess sem fjárveitingar af liðnum Stórverkefni renna til stórbrúa. Þetta ætti að vera nokkur aukning á fjárveitingum til brúargerðar, enda bíða mörg aðkallandi verkefni í endurbyggingu á þessu sviði.
    Til þjóðvega í þéttbýli er gert ráð fyrir að verja 79 millj. kr. af lið 2.3.3. Upphaflega var fjárveiting samkvæmt þessum lið samþykkt á vegáætlun 1983--1986. Fjárveitingar þessar voru ætlaðar til að hraða lögn bundins slitlags á þá þjóðvegi í þéttbýli sem enn höfðu þá malarslitlag. Nú hillir undir að því verkefni ljúki og er lagt til að fjárveitingar samkvæmt þessum lið falli niður frá og með árinu 1992. Fjárveitingar til vega í kaupstöðum og kauptúnum samkvæmt lið 2.7. verða með hefðbundnum hætti. Þó er gert ráð fyrir að fjárveitingar þessar hækki nokkuð á árunum 1990--1992.
    Um aðra smærri liði sem taldir eru upp undir nr. 2.5., þ.e. fjallvegir, þjóðgarðsvegir og reiðvegir, er það að segja að þessir liðir hafa yfirleitt ekki verið fyrirferðarmiklir í fjárveitingum á vegáætlun. Vegirnir gegna engu að síður mikilvægu hlutverki í tengslum við ferðalög landsmanna og ýmiss konar útiveru. Auk þess er það svo að það er orðið brýnt öryggisatriði að beina unferð hestamanna frá þjóðvegum og verður þá stundum að leggja sérstaka stíga eða vegi til þess að það sé hægt. Í tillögunni er lagt til að framlög til þessara verkefna verði nokkuð aukin. Hér er að vísu ekki um stórar tölur að ræða, en hlutfallsleg aukning er þó umtalsverð. Er vonast til að með þessu megi þoka þessum framkvæmdum nokkuð áfram og þar miði betur en gert hefur að undanförnu.
    Þá má bæta því við að nokkrar ár eru enn þá óbrúaðar uppi á fjölförnum fjallvegum og væri það mikil bót að ná því að brúa þær á tímabilinu eða sem fyrst, m.a. vegna þess að margir af þessum vegum eru komnir í það gott ástand að öðru leyti að þeir eru orðnir vel fólksbílafærir, en óbrúuð vötn hindra það að umferð smærri bíla geti gengið þar eðlilega fyrir sig. Þetta þarf að hafa í huga við skiptingu fjárveitinga til brúagerðar á næstunni.
    Um sýsluvegi vil ég fjalla nokkrum orðum. Það er svo að samkvæmt gildandi vegalögum fá sýsluvegir um *y2/3*y tekna sinna af fjárveitingum á vegáætlun, en u.þ.b. *y2/3*y hluti teknanna kemur frá viðkomandi sveitarfélagi eða samtökum þeirra og örlítið brot af tekjum sýsluvega, minna en 1%, fæst með sérstökum vegaskatti á fasteignir sem eru í eigu annarra en íbúa í viðkomandi sveitarfélögum eða hreppum.
    Tillögur um fjárveitingar til þessa liðar eru miðaðar

við óbreytta skipan þessara mála. Sú skipan er í gildi og verður það a.m.k. fyrir árið 1989, en fyrir Alþingi liggur nú tillaga um að fella öll heimaframlög niður þannig að útgjöld til sýsluvega verði alfarið greidd af fjárveitingum í vegáætlun. Verði þessi tillaga samþykkt þyrfti að endurskoða fjárveitingar síðari ára tillögunnar til að bæta upp a.m.k. að hluta til þá tekjulækkun sem brottfall heimaframlags hefur í för með sér ef til kemur. Þó er óhætt að taka fram að þær fjárhæðir sem hér um ræðir eru ekki af þeirri stærð að þær skekki magntölur áætlunarinnar svo að neinu nemi.
    Eins og kom fram í upphafi, virðulegur forseti, markast niðurstöðutala
vegáætlunar á þessu ári sem af sjálfu leiðir við tölu fjárlaga. Ekki er því að leyna að sú tala veldur ræðumanni nokkrum vonbrigðum þó hér sé að vísu um svipað hlutfall að ræða af þjóðarframleiðslu og var á sl. ári. En miðað við þau mörgu brýnu verkefni sem bíða á vegakerfi landsins er þessi tala að mínu mati allt of lág og vænti ég þess að hv. þm., hvar í flokki sem þeir standa, séu mér sammála um þetta. Ég vona því að góð samstaða geti náðst um að auka fé til vegamála eins og hér er lagt til í tillögunni á árunum 1990--1992. Raunar mætti aukningin gjarnan vera meiri en þar er lagt til, en hér er þó vissulega um verulegt skref í rétta átt að ræða.
    Ég vona enn fremur að samstaða náist um hinn nýja verkefnaflokk, Stórverkefni, sem hér er gerð tillaga um, og að verulegur hluti hins aukna fjár renni til hans. Með þessum verkefnaflokki er leitast við að sinna mjög stórum og brýnum verkefnum um allt land og verkefni þessi eru afar þýðingarmikil fyrir byggðaþróun í landinu, bæði á einstökum svæðum og í heilum landshlutum og í landinu öllu.
    Þá er einnig með þessu fyrirkomulagi ætlunin að taka á brýnustu umferðarvandamálum á höfuðborgarsvæðinu og umhverfis það, en þar eru minnkandi umferðaröryggi og skortur á flutningsgetu veganna stærstu vandamálin. Ég vonast því til að hugmyndin um þessi stóru verkefni geti fremur leitt til sátta milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar í þessum efnum en hins gagnstæða.
    Ég vil svo að lokum leggja á það sérstaka áherslu, virðulegi forseti, að í þessari áætlun er ekki valin sú leið, sem farin hefur verið við nokkur síðustu tilvik af sambærilegum toga, að sýna á pappírnum, kannski á næsta ári eða þarnæsta, mikla aukningu framkvæmdafjár til vegagerðar, en sú leið var stundum valin að þrátt fyrir niðurskorin framlög á yfirstandandi ári væru þegar á hinu næsta sýndar umtalsverðar fjárhæðir sem koma skyldu sem bein framlög úr ríkissjóði til viðbótar hinum mörkuðu tekjustofnum. Raunin hefur orðið sú að um þetta hefur ekki tekist samstaða. Það hefur einfaldlega ekki tekist að leggja það fé fram sem björtustu vonir stóðu til á sínum tíma og í upphafi. Ég hygg að sá veruleiki sé það sem við þurfum að taka mið af.
    Það er líka rétt að hafa í huga það, sem ég kom inn á í upphafi máls míns í þessu sambandi, að

gjaldstofnar hinna mörkuðu tekjustofna hafa breikkað mikið á tímabilinu og framkvæmdagildi á grundvelli hinna mörkuðu tekjustofna er því nú mun meira en reiknað var með á sínum tíma þegar langtímaáætlun var fyrst hrint úr vör, enda sáu menn þá ekki fyrir þá miklu aukningu sem síðan hefur orðið á bílaeign landsmanna og bensínnotkun. Vissulega má segja að umferðarmannvirkin þurfi líka að vaxa í samræmi við aukinn bílafjölda og taka mið af þeirri þróun, en víða háttar þó svo til, hygg ég, að afkastageta vegakerfisins getur vel mætt þeirri umferðaraukningu og þarf ekki viðbótarkostnað til, t.a.m. víða út um landið, þannig að segja má að hagkvæmni eða afrakstur fjárfestinga í vegakerfinu aukist því og hafi aukist með þessari þróun. Þess vegna nýtist það framkvæmdafé sem þannig kemur til með aukinni bílaeign og aukinni bensínnotkun til góðs í þessum efnum.
    Framkvæmdakostnaður hefur einnig, ef eitthvað er, þróast í heldur jákvæðari átt en reiknað var með og væntanlega hefur þetta tvennt samanlagt þýtt að þrátt fyrir að svo mikið hafi vantað upp á að tilskildu viðmiðunarmarki af þjóðartekjum væri náð hafa framkvæmdirnar hvergi nærri orðið jafnlangt á eftir áætlun og ætla mætti vegna þessa sem ég hef þegar komið inn á.
    Ég vil svo að lokum, herra forseti, að lokinni þessari umræðu leggja til að tillögunni verði vísað til hv. fjvn. og tek það fram að nefndarinnar bíður mikið starf sem ég vona og veit að hv. nefnd mun leysa vel af hendi. Sérstaklega verður það vandasamt og mikið verkefni að fara yfir skiptingu og áherslur gagnvart hinum nýju og stóru verkefnum sem ég hef þegar gert talsvert að umtalsefni sem og fara þá yfir reiknireglur sem viðhafðar hafa verið varðandi skiptingu fjár til hinna einstöku kjördæma. Mér er mikið í mun að þetta verkefni takist vel og farsællega og um það geti skapast samstaða. Ég er þeirrar skoðunar að það sé óumflýjanlegt og mjög brýnt að breyta áherslum hvað þetta snertir og skapa svigrúm fyrir þessi stóru átök á sviði vegamála sem þarna eru á ferðinni og fram undan bíða og mjög er horft til, ekki bara af íbúum þeirra landsvæða sem hér eiga sérstaklega hlut að máli heldur landsmönnum öllum, enda er það svo þegar til kastanna kemur að samgöngukerfi þjóðarinnar er sameign hennar allrar en ekki merkt þeim íbúum sérstaklega sem dögum oftar aka um viðkomandi vegarspotta. Sem betur fer hefur það orðið gæfa okkar Íslendinga að standa þannig að málum að mínu mati að byggja samgöngukerfið og samgöngumannvirkin upp á sameiginlegum grundvelli og skoða framfarir á því sviði sem sameiginlega eign allrar þjóðarinnar og sameiginlegt keppikefli að við komum samgöngunum í það horf sem best má verða. Samgöngurnar eru grunnforsenda allra framfara og þróunar af sambærilegum toga og þekkingin og fátt er því mikilvægara en að leggja til þeirra bæði fé, orku og vit eins og okkur er frekast kostur á að gera.
    Ég ítreka svo og endurtek að það er von mín að hv. fjvn. geti og muni farsællega leysa af höndum það mikilvæga verkefni sem hennar bíður að fara yfir

þessa áætlun og að venju munu starfsmenn Vegagerðar og ráðuneytis vera til aðstoðar eftir þörfum við það verkefni.