Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn sem nú situr við völd er hálfs árs gömul. Það er að sönnu ekki hár aldur, en hún er þó búin að ganga í gegnum ýmislegt. Hún tók nauðungarlög í arf frá fyrri ríkisstjórn, lög sem bönnuðu fólki að semja um kaup og kjör, bönnuðu umsamdar kauphækkanir og settu á verðstöðvun. Af þessum þremur atriðum gekk sýnu verst með verðstöðvunina þar sem alltaf voru einhverjar smugur sem mynduðust. Hún jók skatta og hún felldi gengið, en felldi ekki niður matarskatt, rétt að hún orðaði að nota mætti matarskattinn í skiptimynt við launþega í kjarasamningum rétt eins og þessi illræmdi skattur hefði verið samningsatriði hjá launþegum.
    Ekkert af þessu eru nein ný tíðindi, þetta eru gamalreyndar stjórnunaraðferðir, enda að mestum hluta sama ríkisstjórn og sú sem sat áður. Aðeins einn þriðji fyrrv. ríkisstjórnar hvarf af vettvangi og Alþb. kom í staðinn. Þar er auðvitað skýringarinnar að leita á því að arfurinn gekk heill og óskiptur frá fyrri ríkisstjórn til þeirrar núverandi. Skilgetnu börnin tvö áttu auðvitað fullan rétt á arfi og tökubarnið var náðarsamlegast tekið í hópinn með fullum réttindum og ábyrgð, enda gladdist það svo við tilboðið að það hefur varla heyrst æmta né skræmta síðan og gerði enga tilraun til að breyta hefðum í fjölskyldunni. Heyrist að vísu einstaka sinnum kjökra en þagnar fljótt. Helst að það heyrist frá tökubarninu eitthvað um hvað það ætlar að gera þegar það er orðið stórt, seinna.
    Þegar svona útskiptingarreglum er beitt í myndun nýrra ríkisstjórna, þ.e. þegar einhverjir þeirra gömlu hverfa á miðju kjörtímabili og nýir taka við, er auðvitað ekki að vænta mikilla stefnubreytinga. Eiginlega var eina merkjanlega breytingin sú að með tilkomu tökubarnsins var breytt um nafn og ný ríkisstjórn kennir sig við félagshyggju og jafnrétti. Þessu til áréttingar voru settar nokkrar setningar í málefnasamning ríkisstjórnarinnar svo sem eins og um að bæta lífskjör hinna tekjulægstu, að taka upp viðræður um skipulag vinnumarkaðarins og starfsmannastefnu ríkisins í því skyni að auðvelda mörkun samræmdrar launastefnu sem tryggi aukinn launajöfnuð og um átak til að tryggja betur jafnrétti kynjanna, sérstaklega í launamálum.
    Það er ástæða til þess að rifja þessi orð upp hér þar sem þessi ríkisstjórn hefur nú fengið sína fyrstu eldskírn í framkvæmd þessara yfirlýsinga í nýjum samningum við hluta opinberra starfsmanna, þ.e. þeirra sem eru innan vébanda BSRB. Laus úr fjötrum eigin nauðungarlaga gat þessi félagshyggju- og jafnréttisstjórn tekið til hendinni.
    Eftir að verðstöðvun lauk fór skriða verðhækkana af stað. Allar búvörur hækkuðu. Flestar eru stór liður í daglegri neyslu fólks. Bensín hækkaði, fargjöld, afnotagjald útvarps, bifreiðatryggingar og opinber þjónusta af ýmsu tagi. Í febrúar hækkaði framfærsla um 4200 kr. þrátt fyrir verðstöðvun og hækkanir eftir 1. mars leiddu til 2,7% hækkunar á framfærslu. Í

kjölfar þessara hækkana voru svo samningar lausir og þá reyndi á þolrifin.
    Fyrsti kapítuli sögunnar um félagshyggju og jafnrétti hefur nú verið skráður. Ekki er hann nú glæsilegur. 2000 kr. eiga opinberir starfsmenn í BSRB að fá í sinn hlut fyrst í stað til að bæta upp kaupmáttarrýrnunina frá samningunum frá 1987. 6500 kr. í orlofsuppbót og svo 1500 kr. í september og 1000 kr. í nóvember til að mæta öllum verðhækkununum sem þegar hafa orðið og þeim sem verða á næstu mánuðum. Allt þetta er þegar upp er staðið metið sem um það bil 10% hækkun frá því sem nú er. En þá verður líka komið fram í nóvember og dettur nokkrum heilvita manni í hug að hér sé verið að semja í raun um hækkun. Dettur einhverjum í hug að forsendur fjárlaga um verðbólgu standist? Ég held að allir nema e.t.v. hæstv. fjmrh. segi nei, enda er hæstv. fjmrh. glaður þessa dagana. Þeirri gleði deilir hann m.a. með Davíð Oddssyni og það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að þeir fyndu sér sameiginleg fagnaðarefni.
    Hæstv. fjmrh. dáist að tillitssemi og ábyrgð launþega. Hann ætlar að þakka þeim með því að setjast með þeim niður á tveggja mánaða fresti til að ræða og athuga leiðir til úrbóta ef einhverjar þær breytingar verða á samningstímabilinu sem breyta forsendum samninga. Ja, mikil er náð hans. En e.t.v. má túlka það sem framför. Hann fékkst ekki til að setjast niður með launþegum fyrr en allt var komið í óefni og þar fetar hann dyggilega í fótspor fyrirrennara sinna. Virða launþega að vettugi þar til á elleftu stundu. Og svikamyllunni er viðhaldið, skyndisamningar gerðir undir fallöxi tímans og loforð um að næst verði betur að staðið gefin í sárabót.
    En hvernig stendur nú á þessari tillitssemi launþegahreyfingarinnar og ábyrgðartilfinningu? Og hvernig stendur á því að tillitssemin og ábyrgðartilfinningin í forustu BSRB er svona rík gagnvart ríkisvaldinu en lítil gagnvart sínum umbjóðendum? Skýringarinnar er vafalítið að leita í vonleysi fólks og hræðslu. Launafólk hefur mátt þola endalausar árásir ríkisvaldsins, lög á lög ofan sem sviptir það umsömdum kjarabótum og réttindum, lög sem tóku af því samningsrétt, skattahækkanir, verðhækkanir og
kaupmáttarrýrnun. Þar á ofan er því svo sífellt kennt um að bera ábyrgð á verðbólgunni, bera ábyrgð á viðskiptahallanum og yfirleitt öllu því sem aflaga fer.
    Þeir nýju herrar sem nú bættust í ríkisstjórnina mótmæltu kröftuglega á sínum tíma matarskattinum sem hefur íþyngt öllu venjulegu launafólki gífurlega. Síðan hefur ekki heyrst múkk um hann nema eins og ég sagði áðan í einhverju óljósu tali um skiptimynt.
    Það er liðið um það bil eitt ár síðan hæstv. núverandi fjmrh. boðaði til blaðamannafundar í Alþingishúsinu til að kynna þáltill. Alþb. um launajöfnun, lágmarkslaun og nýja launastefnu. Sú tillaga hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að brýna nauðsyn beri til að skapa víðtæka samstöðu um nýja launastefnu er miði að því

að draga úr hinum óhóflega launamun sem ríkir í landinu og tryggja að lægstu laun dugi fyrir nauðsynlegum framfærslukostnaði.``
    Í 2. lið þessarar tillögu segir: ,,Reiknuð verði út sérstök lágmarkslaunavísitala sem miðast við nauðsynleg útgjöld venjulegs launafólks til heimilisreksturs. Þessi nýja lágmarkslaunavísitala verði reiknuð út fjórum sinnum á ári. Takist ekki með kjarasamningum að tryggja að lægstu laun séu í samræmi við þann framfærslukostnað sem hin nýja lágmarkslaunavísitala mælir verði sett lög um lágmarkslaun fyrir dagvinnu sem tryggi nauðsynlegar framfærslutekjur. Kauptaxtar samkvæmt þeim launum verði viðmiðun fyrir yfirvinnu og annað það sem áður tók mið af lægri töxtum, svo og fyrir elli- og örorkulífeyri og tekjutryggingu. Slík lög um lágmarkslaun gildi þar til niðurstöður almennra kjarasamninga gera þau óþörf.``
    Og í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta: ,,Tillaga þessi um mörkun nýrrar launastefnu er flutt í ljósi vaxandi misréttis, misskiptingar og ranglætis í launamálum í landinu.``
    Og enn fremur segir: ,,Alþýðubandalagið telur enga aðra stefnu geta komið til greina í þessum efnum en þá sem leggur til grundvallar jöfnuð í launum og lífskjörum. Eigi að takast sátt í þjóðfélaginu um nýja launastefnu til að vinna eftir hljóta réttlát jöfnunarsjónarmið að verða hornsteinar þeirrar stefnu. Stefna vinnuþrælkunar og vaxandi launamunar samfara auknu geðþóttavaldi einstakra atvinnurekenda hefur haft undirtökin í þjóðfélaginu um sinn. Hún leiðir til vaxandi stéttaskiptingar, óstöðugleika og síðan óhjákvæmilegra aðgerða þeirra sem verr eru settir til að reyna að rétta hlut sinn. Forsenda friðar á vinnumarkaði er því ekki sú að verkafólk láti af réttmætum kröfum sínum um mannsæmandi laun eins og ríkisstjórn og atvinnurekendur virðast halda, heldur þvert á móti verði tekin upp gerbreytt stefna í launamálum, ný launastefna sem allur almenningur unir við. Sú launastefna, sem gerir fáeina íhaldssama stjórnmálamenn, efnahagsráðunauta þeirra og verslunar- og stóratvinnurekendaauðvald ánægða en allan þorra vinnandi fólks óánægðan fær ekki staðist í lýðræðisþjóðfélagi nema tímabundið og þá með sífelldum ófriði.`` E.t.v. man hæstv. fjmrh. þetta utan að svo að hann þarf ekki að hlusta, en nú er hann sestur aftur.
    Því er þetta rifjað upp hér að sá hinn sami maður sem boðaði til áðurnefnds blaðamannafundar situr nú í embætti fjmrh. og hefur því umfram aðra menn aðstöðu til að fara að eigin orðum. En það er himinhrópandi munur á orðum og gjörðum. Hann notar alveg sömu aðferðir og fyrirrennarar. Það hefjast engar samningaviðræður fyrr en allt er komið í óefni og verkföll BHMR að skella á. Það var ekki einu sinni skipuð samninganefnd fyrr en 14. febr. Starfsemi hennar hófst á utanlandsferð formanns samninganefndar. Loks fara svo smánartilboð ríkisstjórnarinnar að líta dagsins ljós og árangurinn er nú kominn í ljós eins og ég lýsti hér áðan.

    En víkjum aftur að tillitssemi og ábyrgðartilfinningu forustu BSRB. Fyrir nokkru hélt Kvennalistinn fund á Hótel Borg um kjaramál undir yfirskriftinni: Þorir verkalýðshreyfingin, getur hún, vill hún? Þar var mikið um loðin svör eins og gengur þegar forustumenn hinna ýmsu launþegasamtaka sem sátu fyrir svörum lýstu aðgerðum í komandi samningum. En allir lýstu þeir því yfir að ekki yrði verið með undanslátt, stefnt skyldi að því að kaupmætti launa eins og hann var eftir samningana 1987 skyldi náð. Hvað veldur þá undanslættinum? Þorir verkalýðshreyfingin ekki? Getur hún ekki eða vill hún ekki? Ætli svarið felist ekki í tveim fyrstu orðunum að hún þori ekki og geti ekki. Ég ætla ekki að efa viljann. Hún þorir e.t.v. ekki af hræðslu við ástand sem kynni að skapast, hræðslu við verðbólgu, hræðslu við atvinnuleysi, hræðslu við hið ófyrirséða, hið ókomna. Getur ekki vegna þess að hrætt og vonsvikið fólk hefur ekki slagkraft og baráttuvilja. Fólk er hrætt og vonsvikið vegna síendurtekinna árása. Það trúir því ekki að neitt breytist. Og þrátt fyrir verkföll og sífelld átök á vinnumarkaði hefur lítið áunnist og heldur miðað aftur á bak um hríð ef eitthvað er. Fólk sem þarf að vinna myrkranna á milli til að sjá sér og sínum farborða á ekki mikið þrek eftir í sífelld átök sem skila litlum árangri og það litla sem næst er aftur tekið með valdboði.
    Stjórn félagshyggju og jafnréttis notar sömu aðferðir og sömu rök og
fyrirrennarar hennar. Þjóðfélagið hefur ekki efni á, en heimilin eiga sífellt að hafa efni á.
    Verkföll eru ekkert gamanmál fyrir fólk sem er bundið á klafa skulda og lágra launa. Ekki síst þegar það er barið niður strax eftir litla áfangasigra. Nú er því veifað að nýafstaðnir samningar séu launajöfnunarsamningar þar sem allir fengu sömu krónutölu í hækkun og eins komu til ýmsar úrbætur sem koma að sönnu verst launaða fólkinu vel. En eftir stendur það að laun þorra fólks í BSRB eru allt of lág og duga engan veginn til framfærslu. Það þarf tvær fyrirvinnur fyrir hvert heimili og ómæld og ómannúðleg yfirvinna er hlutskipti flestra.
    Um það bil 30% af tekjum fólks fást með yfirvinnu, 30%. Það þarf varla að endurtaka það hér svo oft sem það hefur verið tíundað hverjar afleiðingar þessi mikla vinna hefur á fólk, fjölskyldur og heimili. Launastefna hverrar ríkisstjórnar er að sínu leyti fjölskyldustefna í raun. Þar sýna stjórnvöld m.a. í verki hvaða hug þau bera til launafólks í þessu landi, barna þess og fjölskyldna.
    En víkjum aftur að því að vinnuþrælkað skuldugt láglaunafólk sé ekki til stórátaka. Það nýta stjórnvöld sér svo sannarlega, þessi ríkisstjórn ekki síður en fyrri þrátt fyrir stefnu nýrra valdhafa. Hæstv. núv. menntmrh. sagði á Alþingi í fyrra í umræðum um þáltill. Alþb. um nýja launastefnu eitthvað á þá leið, með leyfi forseta, að mismunun í lífskjörum öllum væri hrikalegri núna en sést hefði mjög lengi í þessu landi og jafnframt að forsenda þess að hægt væri að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi á Íslandi væri sú að

tiltölulega mikill jöfnuður ríkti. Hann hnykkti síðan út með því að segja að kjarni málsins væri sá að ekki væri hægt að lifa af þeim launum sem fólk hefði og að umræddur tillöguflutningur væri til marks um það að alþýðubandalagsmenn höfnuðu þeim málflutningi atvinnurekenda að ekki væri hægt að borga hærri laun. Þeir höfnuðu því fyrir hönd þess fólks sem verið væri að dæma til svívirðilega lágra lífskjara sem byggðust á lágum og lélegum kauptöxtum. --- Svo mörg voru þau orð.
    Vísitölufjölskyldan í dag þarf til framfærslu á mánuði um það bil 203 þús. kr. samkvæmt Hagstofunni, 203 þús. kr. fyrir 3,46 einstaklinga. Nú er sagt að þetta sé neyslumæling og segi lítið sem ekkert um þarfir. En þessar tölur eru þó ábyggilega nær sanni um kostnað hverrar fjölskyldu en þær sem laun eru nú miðuð við.
    Meðaltöl segja auðvitað ekki alla söguna um laun eða kjör eða framfærslu. Þau segja manni þó að margir verði fyrir ofan meðaltölin og margir fyrir neðan. Goðsögninni um stéttlaust þjóðfélag er viðhaldið með meðaltölum. En raunveruleiki hvers og eins er ekkert meðaltal og það fólk sem er fyrir neðan meðaltölin fær í raun að kenna á því hve stéttaskiptingin og launamunurinn er gífurlegur.
    Það batt eflaust margt vonir við leiðréttingu sinna mála með tilkomu alþýðubandalagsmanna í ríkisstjórn, en hefur nú fengið sýnishorn í framkvæmd félagshyggju og jafnréttis. Eða hvað finnst öllum konunum í BSRB um launajafnréttið? Einstæðu mæðrunum? Enn þá fylla konur alla lægstu launaflokkana og eru í stórum hópum með laun innan við 50 þús. kr. á mánuði þrátt fyrir launajöfnunarsamninga. Það er kannski þakkað fyrir það í dag að hafa ekki fengið ný lög í hausinn, hafa þó fengið 2000 kr. í launahækkun og hafa fengið loforð um að málin verði rædd á tveggja mánaða fresti. En ætli þær eigi ekki innan tíðar eftir að vakna upp við vondan draum, 2000 kr. horfnar fyrr en varir og loforðum er lítið að treysta eins og dæmin sanna. Ætli þær haldi ekki áfram að leita í stórum hópum til félagsmálastofnana með beiðni um fjárstyrk til að geta séð sér og sínum farborða? Starfsmenn félagsmálastofnana hafa lýst því hvernig þessi nýi hópur skjólstæðinga stækkar sem þarf að leita eftir fjárstuðningi til framfærslu þrátt fyrir að vinna fulla vinnu og meira en það. Ætli þau verði færri eða léttari skrefin á næstunni?
    Hvaða boðskap hefur hæstv. fjmrh. að flytja þessum konum? Hann svarar því eflaust á eftir og verður varla svara fátt fremur en fyrri daginn. Hann segir þeim kannski að fara þá bara í betur launuð störf eins og hann hefur ítrekað látið út úr sér við samningaborð eftir því sem sögur herma.
    Ég sagði áðan að fyrsta kapítula væri lokið í félags- og jafnréttisbók ríkisstjórnarinnar, en næsta kafla er ekki lokið. Félagar í BHMR eru nú í verkfalli. Fyrstu viðbrögð hæstv. fjmrh. voru að svipta BHMR-menn launum fyrir fram, þ.e. að ákveða að greiða ekki laun nema fyrir sex fyrstu daga apríl.

Þessar sömu aðferðir voru notaðar 1984 í verkfalli BSRB og þá mótmæltu tveir aðilar núv. ríkisstjórnar því hástöfum. Hæstv. fjmrh. skýtur sér bak við dóm sem féll þegar BSRB höfðaði mál gegn þáv. fjmrh. Sá dómur féll fjmrh. í vil, en síðan hefur lögum verið breytt.
    Árið 1984 voru lög í gildi um samningsrétt og þar hljóðaði 14. gr. laganna svo: ,,Nú rennur kjarasamningur út vegna uppsagnar og skal þó eftir honum farið uns nýr kjarasamningur hefur verið gerður eða vinnustöðvun hefst.``
    Þessum lögum var breytt með nýjum lögum sem tóku gildi 31. des. 1986 og í dag hljómar þetta á þessa leið: ,,Nú rennur kjarasamningur út vegna uppsagna og skal þó eftir honum farið uns nýr kjarasamningur hefur verið gerður.``
    Þrátt fyrir þetta grípur fjmrh. til þessa bragðs fyrirrennara sína. Og svona smáatriði standa ekki í honum. Meira að segja datt honum í hug að rétt væri að svipta fólk veikindaorlofi og konur í barnsburðarleyfi launum, en einhverjum tókst að koma fyrir hann vitinu í þeim efnum. En hvað eiga svona aðgerðir að þýða? Þetta heitir að kasta stríðshanska, enda einkennist allt þetta mál af stríðsástandi. Það er ekki sest niður til samninga fyrr en búið er að skipa aðilum í óvinafylkingar, haft í hótunum, fólk svipt launum, samningsvilji lítill og nú auðvitað skákað í skjóli nýgerðs kjarasamnings BSRB og sagt að um annað þýði ekki að tala. En nú er það einu sinni svo að það er frjáls samningsréttur í bili og því ekki hægt að setja neinar reglur um það fyrir fram um hvað verður samið. En látum það vera í bili og lítum aðeins á stöðu þess fólks sem er í verkfalli.
    Allt þetta fólk hefur háskólanám að baki, mismunandi langt, en háskólapróf þó. Það ræður þó ekki úrslitum hvort fólk hefur próf eða gráður eða hvaða störf það vinnur. Það deilir þeim kjörum með öðru launafólki og hefur gert undanfarið að búa við samningsbann, launafrystingu og rýrnandi kjör. Nú setur það sér það mark að rétta sinn hlut og fá sambærileg laun og fólk með sambærilega menntun úti á hinum almenna vinnumarkaði. Nær lagi mun þó vera að segja: Lágmarkslaun kollega sinna á almennum vinnumarkaði. Margt af því á þess ekki kost að vinna neins staðar annars staðar en hjá því opinbera vegna eðlis náms síns og starfa.
    Ég ætla ekki að fara að tíunda hér afleiðingar þessa verkfalls og það ástand sem nú ríkir í ýmissi opinberri þjónustu. Það er kunnara en frá þurfi að segja. En mála sannast er það að þeir sem að verkfallinu standa gera það ekki að gamni sínu t.d. að raska öllu skólahaldi í framhaldsskólum landsins, sjúkra- og heilbrigðisstofnunum og dómskerfi, svo að eitthvað sé talið. Þetta er nauðvörn fólks sem finnst svo hart að sér gengið að aðrar leiðir séu ekki færar. Ég vil líka leyfa mér að fullyrða að verkfallið sé meira að segja liður í umhyggju þeirra fyrir hinum sömu stofnunum og því starfi sem þar fer fram því að ef ekkert verður að gert til að bæta hag þessa fólks verður árangur starfa þeirra og mikilvægi lítils virt.

    Hið opinbera er engan veginn samkeppnisfært við almennan vinnumarkað hvað varðar laun fyrir fólk með álíka menntun og því er vá fyrir dyrum. Og hver eru nú kjör þessa fólks sem er í verkfallinu? Byrjunarlaun þess liggja yfirleitt á bilinu 50--55 þús. kr. á mánuði fyrir dagvinnu. Það er nú öll dorran eftir margra ára háskólanám. Þá er því til svarað að enginn hafi þau laun, fólk hafi meira í heildarlaun. Jú, það er rétt. Það býr við þann kost eins og flestir aðrir launþegar að ná í drjúgan hluta tekna sinna með yfirvinnu. Það má e.t.v. segja að því sé ekki vandara um en flestum öðrum að þurfa að sæta slíkum kjörum, en viðleitni þeirra gengur þó í þá átt að reyna einmitt að hækka venjulegan daglaunataxta og það hlýtur hjá þeim eins og öðrum að kallast sanngirniskrafa.
    En lítum aðeins betur á dagvinnulaunin eða taxtalaunin eins og það heitir víst þó dagvinnulaun séu nú miklu betra og gagnsærra orð. Meðaltaxtalaun t.d. sjúkraþjálfara voru í desember 1988 70.759 kr. Meðaltaxtalaun lögfræðinga í ríkisþjónustu 76.254, félagsráðgjafa 71.493, meðaltaxtalaun háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga voru í desember 62.393 og kennara í framhaldsskólum 69.759. Allar eiga þessar stéttir sammerkt að sækja eins og ég sagði áðan stóran hluta tekna sinna með yfirvinnu. Ég vona að aðrar stéttir sem eiga í verkfalli fyrirgefi mér þó að ég taki kennarastéttina sem dæmi. Allar hinar stéttirnar eiga það sammerkt að eiga líf sitt og viðgang undir því að kennarastéttin geti skilað starfi sínu vel og skilað hæfu fólki til lífs og starfs í þjóðfélaginu. Meðaltaxtalaun allra kennara í HÍK, þ.e. bæði þeirra sem starfa í grunnskólum og framhaldsskólum, voru 68.482 kr. í desember 1988, aðeins lægri en meðaltaxtalaun HÍK í framhaldsskólum. Heildarlaun í desember 1988 voru að meðaltali 128.610. Desember er þó ekki góður viðmiðunarmánuður því að þá fá kennarar eins og aðrir opinberir starfsmenn greidda persónuuppbót auk þess sem greiðsla fyrir heimavinnu síðustu annar kemur þá til. Nóvember er því marktækari en þá eru heildarlaun 101.020 kr. og í október 102.159. Það lætur nærri að meðaltal þessara þriggja mánaða sé um 112 þús. kr. á mánuði. En um það bil 30% þessara launa fást með yfirvinnu.
    Kennarar hafa 45,75 vinnustundir á viku með heimavinnu og undirbúningi, 5,75 stundir fram yfir venjulega lögbundna 40 stunda vinnuviku, og fyrir þessa vinnu komast þeir aldrei hærra í launum en í 70.293. Það er ekki gæfulegt að búa þannig að menntun uppvaxandi kynslóða að kennslu sé í sívaxandi mæli sinnt í eftirvinnu. Algengt er að kennarar hafi fleiri hundruð nemendur og lætur þá nærri hversu vel þeir geta sinnt hverjum einstaklingi. Undirbúningur og heimavinna eru gífurleg. Nemendahópar eru of stórir. Þjóðfélagið gerir
sívaxandi og síbreytilegar kröfur til menntunar. Fólk þarf að vera í stakk búið til að endurmenntast og símenntast í þjóðfélagi örra breytinga. Auknar faglegar kröfur, nýjar kennslugreinar og kennsluhættir hafa leitt

til þess að þörfin fyrir endurmenntun og framhaldsmenntun er vaxandi hjá kennurum. Sífellt fleiri fara í framhaldsskóla, kröfur eru um samstarf heimilis og skóla, innra skipulag skóla er flóknara með tilheyrandi skipulagningu og fundahöldum, sérfræðiaðstoð vantar, félagslegum vandamálum fjölgar o.s.frv. Því er ofur eðlilegt að kennarar krefjist endurmats á sínum störfum, ekki bara launahækkana heldur endurmats á störfunum. Þegar liggja fyrir margar slíkar skýrslur um endurmat, en lítið er með þær gert. Kennarar vilja m.a. fá ábyrgð og áreynslu endurmetna og eins er sjálfstæði og frumkvæði. Enginn dregur í efa mikilvægi þessara starfa í orði, en lítið er um efndir á borði. Fjöldamargt annað mætti tína til, svo sem vinnuaðstöðu kennara, sem er lítil sem engin í skólum, ofurlítil endurnýjun í kennslugögnum og gífurleg vinna sem þeir leggja í að undirbúa og yfirfara verkefni.
    Við tölum um hugvit og þekkingu sem undirstöðu allrar velmegunar og framfara. En hugvit og þekking er ekki eitthvað sem kemur úr lausu lofti. Grundvöllurinn er lagður í skólastarfi og kennslu að stórum hluta til. Við viljum aðeins það besta fyrir börnin okkar en hvernig getum við búist við því að við fáum það þegar kennarastarfið er orðið annars flokks starf, nýtur lítillar virðingar og er illa launað? Þessu deila kennarar að vísu með flestum þeim stéttum sem ætlað er að hugsa um velferð annarra, uppfræða fólk, annast og hjúkra. Það er tómt mál að kanna endalaust og tala um forgangsverkefni í skólastarfi fyrr en því forgangsverkefni hefur verið sinnt að bæta kjör og virðingu kennara.
    Menntamálanefndum þingsins var um daginn boðið í Háskóla Íslands til að kynnast starfsemi hans. Þar lýstu margir áhyggjum sínum af menntamálum þjóðarinnar í framtíðinni, sérstaklega í raungreinum. Það eru búnar til brautir í raunvísindagreinum, ætlaðar fólki til kennslu í þeim greinum. En ásókn í þessar brautir er engin því að kennslan gefur ekki þau laun sem annars eru í boði fyrir störf sem fólk með þessa menntun getur fengið. Þarna stenst hið opinbera ekki samanburð við hinn almenna vinnumarkað. En hvað gerist í tæknivæddu þjóðfélagi sem þarf á góðu raunvísindafólki að halda ef engir fást til að kenna þær greinar í þeim skólum sem ætlað er að veita undirstöðu fyrir háskólanám? Hringurinn lokast.
    Það sama gildir að mörgu leyti um aðrar stéttir sem nú eru í verkfalli þó ég hafi kosið að taka kennarana sem dæmi. Hætta er á því að öll þjónusta hins opinbera sem þessar stéttir halda uppi stórversni ef heldur fram sem horfir. Í þessum málum eins og mörgum öðrum gildir að sjá lengra en nef manns nær og einblína ekki á daginn í dag heldur horfa til framtíðar og reyna að sjá fyrir afleiðingar ákvarðana dagsins í dag. Það hlýtur að vera höfuðforsenda þess að vel til takist í kjarasamningum að þeir séu ekki sífellt gerðir undir pressu. En það virðist sífellt vera stefna stjórnvalda að svo sé, enda þjónar það þeim hagsmunum ríkisvaldsins að kúska fólk til hlýðni og halda launum niðri þó það séu svo sannarlega ekki

hagsmunir ríkisvaldsins þegar til lengri tíma er litið.
    BHMR hefur árangurslaust síðan í haust reynt að ná mönnum að samningaborði áður en í óefni væri komið. Það tókst ekki nú fremur en endranær. Gráir fyrir járnum skulu menn standa þegar gengið er til samninga. Þessu landi og efnahagslífi þess verður ekki stjórnað með sæmilegum hætti nema í góðri samvinnu við launþega. Sameiginlega þarf að leita leiða til frambúðarlausna, ekki sífelldra skammtímalausna. Það er óþolandi fyrir launafólk að standa sífellt í baráttu við ríkisvaldið. Óvissa skapast bæði hjá launþegum og því opinbera. Enginn treystir því í raun að neitt sé viðvarandi, allt einkennist af bráðabirgðalausnum og þessi órói og óvissa er engum til góðs. Því gengur þessi félagshyggju- og jafnréttisstjórn ekki öðruvísi að verki? Því hefur hún ekki áhuga á því að ná samvinnu við launþega sem leiðir til jafnari og réttlátari tekjuskiptingar sem hún hefur sett sér að markmiði? Það þýðir ekki að standa að stórmálum eins og launasamningum á hlaupum og í íhlaupavinnu. Það væri verðugt verkefni að setja á fót einhvers konar stofnun eða vinnuhóp sem ekkert gerði annað en annast samninga við launafólk, þiggja frá því ráð og hafa við það samráð um hvernig snúa megi þróun við, samráð ekki einungis í launamálum heldur skattamálum, vaxtamálum, tilfærslum eigna og tekna, velferðarmálum og öllum þeim málum sem lúta að stjórn þjóðfélagsins, hvernig megi snúa þróun við, færa til fjármagn og tekjur launafólki og atvinnuvegum í hag, höfða til og treysta sameiginlegri ábyrgðartilfinningu launafólks, ekki bara gagnvart ríkissjóði heldur þjóðfélaginu öllu. Ég held að þar mundi ríkisvaldið ekki fara í geitarhús að leita ullar. Það á að afleggja kerfisbundið vanmat á menntun og ábyrgð og taka upp allt önnur vinnubrögð þar sem ekki er skipað í óvinafylkingar heldur gengið hönd í hönd í átt til betra og réttlátara þjóðfélags.
    Mörgum finnst e.t.v. að ég beini spjótum um of að Alþb. í ríkisstjórn en það er ekki að ósekju. Alþýðubandalagsmenn hafa margítrekað lýst yfir vilja til nýrrar launastefnu, endurmats, jafnréttis og félagshyggju. Þeir hafa ekki sýnt það í verki í I. kafla, en þeir hafa enn tækifæri til að gera það í II. kafla og endurrita svo I. kafla í haust. Það verður væntanlega fróðlegt að heyra hvað hæstv. menntmrh. hefur til málanna að leggja um I. kafla og II. kafla og ritið allt og hvernig hann ætlar sér að rísa undir eigin orðum og fyrri yfirlýsingum í samskiptum sínum við launþega á næstunni.