Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Í sjálfu sér hefði það ekki verið óeðlilegt að hv. 1. þm. Suðurl. hefði tekið til máls á eftir hv. þm. Þórhildi Þorleifsdóttur vegna þess að þótt ég hlustaði grannt á hennar ræðu heyrði ég enga einustu spurningu fram borna til mín sem fjmrh. né heldur óskað eftir almennum upplýsingum eða svörum sem mér væri ætlað að gefa hér. Mér hefur skilist að venjan væri við utandagskrárumræður þegar óskað væri eftir þeim að það væri þá annaðhvort til þess að flytja einhliða yfirlýsingu eða til þess að óska eftir sérstökum svörum eða upplýsingum frá viðkomandi ráðherrum. Slíkar óskir komu ekki fram í ræðu hv. þm. Þórhildar Þorleifsdóttur þannig að mér er nokkur vandi á höndum að taka hér til máls að ræðu hennar lokinni því að margt mætti auðvitað segja í almennum málfundastíl um þá ræðu sem hún flutti áðan, en form þessarar utandagskrárumræðu er þó með öðrum hætti.
    Það var að vísu leitt að hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir skyldi ekki gera nýgerða kjarasamninga BSRB meira að umræðuefni en hún gerði því að það hefði vissulega verið kærkomið tækifæri til þess að fjalla m.a. um þau fjölmörgu réttindamál kvenna sem ákveðin eru í þessum kjarasamningi. En kannski er nú svo komið fyrir Kvennalistanum að hann hafi meiri áhuga á gamaldags pólitísku skaki en að ræða hin sérstöku réttindamál kvenna í samfélaginu. Ég hélt þó að Kvennalistinn hefði verið stofnaður ekki síst til þess að fylgja eftir nauðsynlegri réttindabaráttu kvenna á fjölmörgum sviðum og efla hlut kvenna í ákvarðanatöku í okkar samfélagi og láta þess sjá stað að konur kynnu kannski að hafa öðruvísi viðhorf til kjarasamninga en karlar.
    Við mig sagði á laugardag forustukona í samtökum launafólks að hún hefði ekki á sínum langa ferli séð kjarasamning sem bæri eins mikil svipmót aukinna réttinda kvenna og greinilega bæri skýr merki þeirrar miklu vinnu sem konur bæði í samninganefnd ríkisins og í forustu BSRB hefðu lagt í þennan kjarasamning. Það var hins vegar athyglisvert að í 40 mínútna langri ræðu hv. þm. Þórhildar Þorleifsdóttur sá hún enga ástæðu til að víkja einu einasta orði að þeim bókunum sem fylgja þessum kjarasamningi og þeim réttindabreytingum konum í hag og í þágu kvennastarfa sem í samningnum felast. Það var satt að segja dálítið athyglisverð staðreynd fyrir okkur öll sem höfum gjarnan viljað hafa samvinnu við Kvennalistann um aukin réttindi og sterkari stöðu kvenna í okkar þjóðfélagi. Vonandi er sú ræða sem hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir flutti hér bara tímabundið frávik frá áhuga Kvennalistans á réttindum kvenna í íslensku þjóðfélagi. Ég vona að það verði ekki til frambúðar að þingmenn Kvennalistans temji sér frekar hér gamaldags málfundakarp í þeim stíl sem hér var flutt áðan og kjósi að víkja ekki einu orði að þeim efnisþáttum málsins sem hér er þó til umræðu, m.a. kjarasamninga BSRB sem snerta hag kvenna, vegna þess að hv. þm. vék ekki einu orði að þeim fjölmörgu atriðum í þessum kjarasamningi sem snerta réttindi kvenna.

    Áður en ég kem að því vil ég þó að gefnu tilefni harma þá kvenfyrirlitningu sem kom fram hjá hv. þm. í ummælum hennar um samninganefnd ríkisins. Hv. þm. kaus að segja að samninganefnd ríkisins hefði ekki verið skipuð fyrr en í febrúarmánuði og jafnskjótt hefði formaður samninganefndarinnar farið af landi brott og lá þá í orðum hennar að ekkert hefði verið gert á meðan. Það er rangt. Samninganefnd ríkisins hefur fimm manna stjórn. Í þeirri stjórn eru þrjár konur og tveir karlar og þótt annar karlanna í stjórninni færi af landi brott stýrði stjórnin störfum samninganefndarinnar þann tíma sem hann var í burtu. Ég held að það séu allir sem kynnst hafa störfum samninganefndarinnar á undanförnum vikum sammála um það að sú breyting sem gerð var á samninganefnd ríkisins þegar mikill meiri hluti kvenna skipar samninganefndina í fyrsta sinn hafi haft veruleg áhrif á samningavinnuna og samningagerðina. Þegar ég nota orðið ,,kvenfyrirlitning`` áðan er það vegna þess að hv. þm. dettur í þá gryfju að gera formann samninganefndarinnar, einn karl af þremur í 13 manna samninganefnd, að aðalverkstýranda hennar. Staðreyndin er hins vegar sú að með þessari samninganefnd voru tekin upp ný vinnubrögð. Þau fólust m.a. í því að endurnýja samninganefndina allverulega og að sækja alla endurnýjun nefndarinnar til kvenna og tryggja það þannig að yfirgnæfandi meiri hluti samninganefndar ríkisins væri skipaður konum, setja síðan á laggirnar í fyrsta sinn fimm manna stjórn innan samninganefndarinnar þar sem meiri hluti þeirrar stjórnar er skipaður konum. Og svo ég vitni aftur í viðræður sem ég hef átt við ýmsa í forustu samtaka launafólks sem unnið hafa að samningagerðinni á undanförnum vikum eru allir þeir sem ég hef talað við sammála um að sú vinna beri að ýmsu leyti mjög sterkt svipmót þess að meiri hluti samninganefndar ríkisins og meiri hluti stjórnar samninganefndar ríkisins sé skipaður konum. ( HBl: Formaður samninganefndarinnar er ekki einhamur ef honum býður svo við að horfa eins og ráðherra veit.) Svona kvenfyrirlitning eins og kemur fram í frammíkalli hv. þm. Halldórs Blöndals er kannski skiljanleg frá honum, en ég get fullvissað hv. þm. um það að samninganefndin öll, ekki síst þeir og þær sem nýjar komu í samninganefndina, hafa gegnt þar mjög góðu starfi. Þetta fannst mér nauðsynlegt að segja vegna þess að frásögn hv. þm. Þórhildar
Þorleifsdóttur af undirbúningi þessa máls og störfum samninganefndar ríkisins gaf sérstakt tilefni til að rifja upp þessar mikilvægu staðreyndir.
    Ég vil síðan einnig, fyrst hv. þm. kaus ekki að nefna það, víkja nokkrum orðum að þeim veigamiklu atriðum í þessum kjarasamningi við BSRB sem snerta sérstaklega hagsmunamál og réttindi kvenna. ( KH: Það verður spennandi.) Já, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir segir að það sé spennandi og er það satt að segja merkilegur vitnisburður um hvernig þingmenn Kvennalistans hafa kynnt sér þennan kjarasamning að þær skuli hefja utandagskrárumræðu hér á Alþingi um hann án þess að hafa rætt við konur t.d. í

samninganefnd BSRB og konur í samninganefnd ríkisins, sem þeim hefur verið fyllilega heimilt að gera, til að kynna sér betur þau ákvæði þessa kjarasamnings sem snerta sérstaklega hagsmunamál kvenna og hefði ég þó átt von á því, miðað við lýsingarnar á hinum vandlegu vinnubrögðum Kvennalistans, að slíkar viðræður við konur innan BSRB hefðu farið fram. ( KH: Á hverju byggir fjmrh.?) Fjmrh. byggir hann á því frammíkalli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur að hún bíði spennt eftir því að heyra þau réttindamál kvenna sem í þessum samningi felast og fannst mér það frammíkall gefa til kynna að hv. þm. hefði ekki kynnt sér það atriði.
    Í fyrsta lagi vil ég nefna að sú breyting sem gerð er í 3. gr. samningsins og snertir lífaldursbreytingar mun gagnast nær eingöngu þeim starfshópum innan BSRB þar sem konur eru í miklum meiri hluta eða eru algerlega skipaðir konum þannig að sú breyting er mjög í anda þess, sem oft hefur verið sagt, að það þurfi að gera kjarasamninga með þeim hætti að þær starfsgreinar þar sem konur eru fjölmennastar njóti þeirra sérstaklega.
    Í öðru lagi vil ég nefna að sú krónutöluregla sem þessi samningur tekur mið af er á markvissan hátt sniðinn að því að nýtast best þeim félögum innan BSRB þar sem konur eru fjölmennastar meðal félagsmanna. Við þekkjum það öll hér að það hefur verið mikil deila í okkar þjóðfélagi um það hvort eigi að beita prósenttölum eða krónutölureglum við kjarasamninga. Það eru allir sammála um það að krónutölureglan er yfirleitt láglaunafólki meira í hag en prósenttölureglan, en stéttir sem betur eru launaðar kjósa frekar að leggja áherslu á prósentregluna. Sú jafnlaunastefna sem þessi kjarasamningur tekur mið af birtist þess vegna í því að krónutölureglan er gerð ráðandi. Ein af meginafleiðingum hennar er þess vegna sú að þær starfsgreinar hjá opinberum starfsmönnum þar sem konur eru fjölmennastar, sem hlutfallslega eru þá því miður lægra launuðu stéttirnar, fá að nýta þennan kjarasamning mun betur í sína þágu en þeir sem hærra eru launaðir. Þess vegna felur meginstefna kjarasamningsins í sér launabreytingar sem fyrst og fremst eru í þágu þeirra starfsstétta innan BSRB þar sem konur eru fjölmennastar. Menn geta svo, eins og hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir gerði, haft ýmsar skoðanir á sjálfri upphæðinni. Það breytir því ekki að grundvallarreglan er valin á þann veg að þær starfsgreinar ríkisins þar sem konur eru fjölmennastar njóta þessara breytinga fyrst og fremst.
    Þetta er atriði númer tvö í þessum kjarasamningi sem endurspeglar það eðli hans að vera fyrst og fremst byggður upp á þeim sjónarmiðum sem vilja gæta hagsmuna kvenna númer eitt.
    Þriðja atriðið sem í þessum kjarasamningi felst og endurspeglar hagsmunagæslu kvenna og þau manneskjulegu viðhorf til kvenna og barna sem ég hélt að Kvennalistinn vildi fyrst og fremst hafa að leiðarljósi felst í bókun nr. 1 sem fylgir þessum kjarasamningi. Þar er gert samkomulag um að reglugerð um barnsburðarleyfi verði breytt með tilliti

til eftirfarandi atriða:
    1. Viðmiðunartímabil vegna barnsburðarleyfa þegar um yfirvinnu og vaktaálagsmat er að ræða verði tólf mánuðir í stað sex mánaða áður.
    2. Ákveðið er að heimilt verði að lengja barnsburðarleyfi í allt að tólf mánuði í stað níu mánaða áður.
    3. Ákveðið er að óheimilt sé að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi.
    4. Það sé skylt þar sem því verður við komið að færa barnshafandi konu til í starfi ef það er þess eðlis að heilsu hennar eða fósturs er af því hætta búin, enda verði ekki komið við breytingum á starfsháttum. Slík tilfærsla barnshafandi kvenna í störfum hafi ekki áhrif á launakjör viðkomandi kvenna til lækkunar þótt það starf sem konan er flutt í af heilsufarsástæðum eða tillitssemi við fóstrið kunni að fela í sér lægri laun.
    5. Að heimilað verði að skipta barnsburðarleyfi vegna heilsufars barns þegar sérstaklega stendur á.
    Einnig er í þeim bókunum sem fylgja þessum kjarasamningi kveðið á um að fjmrn. muni fara þess á leit við heilbrmrn. að kanna leiðir til að greiðsla fæðingarorlofs fylgi barni við andlát móður á fæðingarorlofstíma. Einnig eru í þessum bókunum ýmis önnur atriði sem snerta veikindaforföll starfsmanna ríkisins og hækkanir á örorkubótum vegna slysa í starfi.
    Það væri vissulega verðugt tilefni að fara ítarlega yfir hvernig þessar bókanir og þessi ákvæði kjarasamningsins fela í sér veigamikla viðurkenningu á réttindum sem konur í félögum opinberra starfsmanna og reyndar konur almennt í
þjóðfélaginu hafa lengi barist fyrir. Ég vona með fullri vinsemd fyrir Kvennalistann að þegar þingmenn Kvennalistans líta yfir þessi atriði, sem snerta réttindamál kvenna sérstaklega, sérstaklega barnshafandi kvenna, kveði nokkuð við annan tón á þann veg að þingmönnum Kvennalistans þyki þessi atriði a.m.k. umræðu verð en kjósi ekki að koma hér í ræðustól og flytja nærri klukkutíma ræðu um þennan kjarasamning og stöðu kjaramála án þess að víkja einu einasta orði að þessum fjölmörgu atriðum kjarasamningsins og bókunum hans sem snerta réttindabaráttu kvenna.
    Þessi kjarasamningur endurspeglar að vissu leyti nýja launastefnu, þá launastefnu að láta fyrst og fremst með krónutölureglunni þá hópa launafólks sem lægra eru launaðir njóta hlutfallslega meira af árangri kjarasamningsins en hina sem hærra eru launaðir. Það er m.a. í anda þeirrar megináherslu sem stefna Alþb. hefur falið í sér, eins og hún birtist m.a. í þeirri þáltill. Alþb. sem hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir vék að hér áðan. Það var þess vegna sérstaklega ánægjulegt að forustufólk í BSRB var sammála okkur um það að þessi áhersla á hagsmuni láglaunafólksins í gegnum kjarasamninga þar sem krónutölureglunni í stað prósentureglunnar væri beitt skyldi setja svo afgerandi svipmót á þessa kjarasamninga.
    Það er svo líka rangt hjá hv. þm. Þórhildi

Þorleifsdóttur að það hafi verið einhverjar annarlegar hvatir sem lágu að baki þeim breytingum á reglum varðandi greiðslur í veikindaorlofi og barnsburðarleyfi á verkfallstíma sem ég beitti mér fyrir. Það er alrangt. Þegar þessar reglur komu fyrst inn á mitt borð þurfti ekki mjög langan tíma af minni hálfu til þess að breyta þeim á þann veg að konur nytu að fullu launa á verkfallstímanum ef þær væru í barnsburðarleyfi og einnig að þeir sem fengju greiðslur í veikindaorlofi mundu njóta þeirra að fullu þótt stéttarfélög þeirra væru í verkfalli. Ég frábið mér þess vegna algjörlega einhverjar getgátur um það að það hafi verið einhver annarleg sjónarmið eða eftirrekstur sem hafi leitt til þess að ég breytti þessum reglum á þann veg. Það vita þeir fullvel sem að þessu máli komu, bæði af hálfu fjmrn. og af hálfu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Og hvers vegna þurfti ég ekki neinn umhugsunartíma eða umfjöllunartíma til þess að breyta reglunum á þann veg? Vegna þess að það var mjög einfalt mál út frá lífshugsjón minni og samstöðu okkar með réttindum barnshafandi kvenna, kvenna í fæðingarorlofi, eða foreldra í fæðingarorlofi, og þeirra sem eru í veikindaorlofi að hafa reglurnar á þennan veg.
    Þetta fannst mér nauðsynlegt að kæmi fram vegna þeirrar tilhneigingar hv. þm. Þórhildar Þorleifsdóttur að lesa einhverjar annarlegar hvatir eða þvinganir inn í þann verknað. Svo var alls ekki eins og ég hef hér lýst.
    Það væri líka vissulega tilefni til þess að fjalla hér ítarlega um þróun efnahagsmála á undanförnum mánuðum og árum, um þróun kjaramála og kaupmáttar, eins og ræða hv. þingmanns gaf e.t.v. tilefni til að gera. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá hv. þingmanni að talsmenn atvinnurekenda, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaga, hafa harkalega gagnrýnt þennan kjarasamning fyrir það að hann sé of hár, það felist í honum launahækkanir sem ekki séu réttlætanlegar. Og hörðustu árásirnar sem ég hef fengið fyrir þennan kjarasamning eru frá atvinnurekendasamtökunum í landinu og Morgunblaðinu. Báðir þessir aðilar, bæði fulltrúar Vinnuveitendasambandsins og Morgunblaðsins, hafa í opinberum yfirlýsingum, leiðaraskrifum og í Reykjavíkurbréfi látið stærri orð falla um þennan kjarasamning en fulltrúar launafólks. Ég ætla ekki nema tilefni gefist að fjalla um þessar yfirlýsingar atvinnurekendasamtakanna en hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir kaus að víkja ekki einu orði að þeim í sinni ræðu þó að þingmenn Sjálfstfl. kunni kannski að gera það hér á eftir. Það er hins vegar staðreynd þessa máls, sem er mikilvægt að þingmenn geri sér grein fyrir, að nú þegar og á næstu dögum mun örugglega verða gerð hörð hríð að þessum kjarasamningi frá forsvarsmönnum atvinnurekendasamtakanna í landinu.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir fjallaði síðan nokkuð um þá kjaradeilu sem nú stendur við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna eða réttara sagt þau 11 félög innan þess sambands sem gerðu verkfall. En

eins og hv. þm. er kunnugt voru það ekki öll félögin sem samþykktu verkfall. Það er einnig ljóst líka að Kennarasamband Íslands hefur ekki boðað til verkfalls.
    Ég hef nú um helgina átt viðræður við forustumenn BHMR og ég hef ástæðu til að ætla að næstu daga verði gerðar af beggja hálfu alvarlegar tilraunir til þess að finna lausn á þeirri deilu. Sú lausn, að mínum dómi, þarf í senn að taka mið af því ástandi sem er í efnahagsmálum okkar Íslendinga um þessar mundir og einnig af þeim æskilegu langtímabreytingum sem ég er sammála forustumönnum háskólamenntaðra starfsmanna um að þarf að vinna að á launakerfi opinberra starfsmanna. Ég hef hvað eftir annað lýst því yfir, og sama hefur hæstv. menntmrh. gert, að við erum reiðubúnir að vinna að gerð langtímasamnings um skólastarf, kjör og starfsaðstöðu kennara og menntastefnu í þessu landi, vinna að slíkri samningsgerð við kennarasamtökin á næstu vikum og mánuðum.
    Ég get að ýmsu leyti skilið það að kennarasamtökin velti því fyrir sér hvort okkar orð séu líklegri til þess að vera efnd en orð fyrirrennara okkar. Okkar vörn felst í því að þau hafa ekki prófað orð okkar í þessum efnum þó að þau hafi prófað orð fyrirrennara okkar og hafa ekki að mínum dómi ástæðu til að ætla að þeim sé ekki treystandi. Þar að auki er það ljóst að það tekur nokkuð langan tíma að gera slíkan langtímasamning um uppbyggingu skólastarfs og kjör kennara, þannig að því verki verður ekki lokið svo fullbúið sé á fáeinum dögum eða vikum. Það væri líka tilefni til, vegna þeirra talna sem hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir fór með, að rekja ýmsar launatölur háskólamenntaðra starfsmanna. Ég ætla ekki að gera það hér en vil þó vegna hennar talna upplýsa það að dagvinnulaun BHMR-félaga í október- og nóvembermánuði sl., þ.e. það eru ekki þeir mánuðir þar sem hin sérstaka desemberuppbót kemur inn í, voru um 82.000 kr. hjá körlum og um 71.000 kr. hjá konum. Heildarlaun voru hins vegar 114.000 kr. hjá körlum og 97.000 kr. hjá konum.
    Ýmsar starfsgreinar hjá háskólamenntuðum starfsmönnum hjá ríkinu eru með mun hærri tölur. Og vegna þess að ég lít hér upp í fréttamannastúkuna og sé fréttamennina hér í hliðarsölum þá vona ég að mér verði fyrirgefið að nefna þá tölu hér sérstaklega, en heildarlaun félaga í Félagi fréttamanna hjá hinu opinbera voru hjá körlum 150.000 kr. á mánuði og hjá konum 121.000 kr. á mánuði í október- og nóvembermánuði sl. Ýmsir aðrir hópar voru einnig með í heildarlaun töluvert yfir 100.000 kr. M.a. var Félag tækniskólakennara með um 160.000 kr. mánaðarlaun hjá körlum í því félagi. Það er hins vegar rétt að þessar tölulegu upplýsingar sýna það að konur eru því miður nokkuð lægra launaðar hjá háskólamenntuðum starfsmönnum en annars staðar á vinnumarkaðnum en þó held ég að bilið á milli kvenna hjá ríkinu innan BHMR sé hlutfallslega minna en annars staðar á vinnumarkaðnum.
    Ég vona hins vegar að þær viðræður sem við höfum átt yfir helgina við forustumenn BHMR og sá

viðræðufundur sem hefst eða er nú þegar hafinn muni leiða til þess að á næstu sólarhringum verði gerð alvarleg tilraun til þess að ná samkomulagi í þeirri deilu.
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að þetta hafi að nokkru leyti varpað öðru ljósi á ýmis af þeim atriðum sem hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir vakti hér máls á. Eins og ég sagði í upphafi minnar ræðu beindi hún ekki neinum sérstökum spurningum til mín en fór hér með ýmsar almennar hugleiðingar um stöðuna. Ég er hins vegar reiðubúinn til þess að svara spurningum annarra þingmanna um önnur þau atriði sem snerta kjaramálin og fram kunna að koma í umræðum hér á eftir.