Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu hér í dag. Það var einkar athyglisvert að heyra nákvæma og greinargóða lýsingu hv. 18. þm. Reykv. á orðum og efndum forustumanna Alþb. í kjaramálum. Ég hygg að þó að umræðuefni þetta sé ekki nýtt af nálinni hafi sjaldan verið flutt jafnskelegg ræða sem á jafnskýran hátt afhjúpaði skrum forustumanna Alþb. í þessum efnum.
    Það má auðvitað flytja langar ræður um það efni. Það hefur ekki vakið hvað minnsta athygli upp á síðkastið að hæstv. núv. fjmrh., þvert á öll hin stærstu orð sem hann sjálfur og flokkur hans hefur haft um aðgerðir í kjaramálum af hálfu stjórnvalda, tók ákvörðun í samræmi við það sem Albert Guðmundsson gerði sem fjármálaráðherra á sinni tíð og Davíð Oddsson borgarstjóri um að greiða mönnum ekki fyrirframlaun í verkfalli. Þær ákvarðanir fjármálaráðherra og borgarstjóra á sínum tíma ollu nánast stríðsástandi á vinnumarkaðnum en nú hefur það gerst að hæstv. fjmrh., formaður Alþb., hefur beitt sér fyrir því að þessir tveir mætu stjórnmálamenn sem báru ábyrgð á gerð kjarasamninga fyrir hönd ríkisins og Reykjavíkurborgar fyrir fimm árum hafa fengið sérstaka traustsyfirlýsingu á næturfundi Alþb. Þannig snúast hlutirnir við. Og þetta, ásamt með ræðu hv. málshefjanda, sýnir á einfaldan og ljósan hátt að það er ekkert að marka það sem forustumenn Alþb. segja í kjaramálum. Og ég hygg að þó að þar styðjumst við við áratuga reynslu hafi aldrei í sögu hinnar sósíalísku hreyfingar verið jafnmikill munur á orðum og efndum og eftir að núv. formaður Ólafur Ragnar Grímsson tók við forustu fyrir þeim flokki. En kjarni launaumræðunnar og kjaramálaumræðunnar snýst þó ekki um þessa afhjúpun. Hún er í sjálfu sér bæði gömul saga og ný. Og lífskjörin í landinu verða ekki bætt með því einu að afhjúpa hana. Þar koma til allt aðrar og dýpri ástæður. Þar þarf að kalla eftir miklu alvarlegri svörum frá hæstv. ríkisstjórn en þeim einum sem lúta að því að hæstv. fjmrh. getur aldrei staðið við orð sín.
    Það eru aðstæður í efnahagsmálum og stefna ríkisstjórnar sem ráða því hvaða möguleikar eru á að bæta lífskjör fólksins í landinu. Og það er alveg sérstök ástæða nú í tengslum við kjaramálin að kalla eftir þeirri umræðu og fá skýr svör hæstv. ríkisstjórnar um þau efni því að undir afkomu atvinnuvega þjóðarinnar er lífsafkoma fólksins í landinu komin. Möguleikar okkar til þess að bæta kjörin ráðast af því hvort hér verður breytt um stjórnarstefnu og höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar tryggð eðlileg afkoma. Þegar launafólkið í landinu krefst svara um það hvers það megi vænta varðandi bætt lífskjör hljóta menn að byrja á þessari forsendu. Og í þeim efnum hefur hæstv. ríkisstjórn mörgu að svara.
    Það er stundum sagt að þegar vinstri stjórnir sitji í landinu fari forustumenn verkalýðsfélaganna fram með hógværð og jafnvel undirgefni. Ég ætla ekki að ásaka forustumenn verkalýðsfélaganna um þetta. Ég

ætla ekki að ásaka forustumenn verkalýðsfélaganna um það að taka hagsmuni vinstri stjórna fram yfir hagsmuni umbjóðenda sinna. Hitt er auðvitað staðreynd, sem enn á ný hefur verið staðfest í þeim viðræðum um endurnýjun kjarasamninga sem fram hafa farið að undanförnu, að þegar vinstri stjórnir sitja í landinu bera verkalýðsforustumennirnir ekki fram sömu kröfur og í annan tíma. En það er ekki af undirgefni við ríkisstjórnir, ekki vegna þess að þeir taki ríkisstjórnir fram yfir hagsmuni umbjóðenda sinna, það er einfaldlega vegna þess raunsæja mats að við slíkar aðstæður er ekki tilefni til að öllu jöfnu að gera raunhæfar kröfur um kjarabætur. M.ö.o. forustumenn vinstri aflanna í verkalýðshreyfingunni gera sér fulla grein fyrir því að afleiðingar vinstri stefnu eru þær að þeir geta ekki borið slíkar kröfur fram. Annað er uppi á teningnum þegar Sjálfstfl. á aðild að ríkisstjórn. Þá gera forustumenn verkalýðsfélaganna sér vonir um að hægt sé að bæta kjörin. Þá þykjast þeir vita og sjá að unnt sé að koma fram þeirri stefnu í atvinnumálum sem auðveldar atvinnufyrirtækjunum að skila hagnaði og fólkinu að sækja betri laun. Þetta eru lykilatriði. Auðvitað eiga forustumenn verkalýðshreyfingarinnar allt hrós skilið fyrir slíkt raunsæi því það er höfuðatriði að kjarasamningar á hverjum tíma taki tillit til þeirra efnahagslegu aðstæðna sem ríkjandi eru. Hitt er svo annað að þeim aðstæðum má stundum breyta. Stundum verðum við fyrir áföllum vegna þess að afli minnkar eða verð fellur á erlendum mörkuðum. Í annan tíma þurfum við að sæta því að röng stjórnarstefna lamar atvinnulífið og dregur úr möguleikum fólks til þess að bæta lífskjörin.
    Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur neitað því í allan vetur að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að treysta rekstur undirstöðuatvinnuveganna, sjávarútvegs og iðnaðar. Hún hefur komið fram hér fyrir hið háa Alþingi í tvígang með einhvers konar biðleiki, en með öllu neitað að gera ráðstafanir til þess að tryggja rekstrargrundvöll höfuðatvinnuveganna. Fyrir þeirri stefnumörkun hefur farið hæstv. fjmrh. Hann hefur margsinnis gert grein fyrir því að það sé stefna hans og hans ríkisstjórnar að atvinnuvegirnir séu reknir með tapi og það verði ekki gerðar ráðstafanir til þess að rétta stöðu þeirra. Samt sem áður ætlast hæstv. fjmrh. til þess að aðilar vinnumarkaðarins geri
kjarasamninga með hliðsjón af aðstæðum í efnahagsmálum. Samt sem áður fer það svo að hæstv. fjmrh. beitir sér fyrir því að ríkisstjórn Íslands í dymbilvikunni tekur fram fyrir hendurnar á aðilum vinnumarkaðarins, Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu, til þess að ríkisvaldið geti ráðið í sínum samningum hver verður niðurstaðan í kjarasamningum. Þetta lýsir auðvitað mætavel hvaða hugur er að baki efnahags- og kjaramálastefnu hæstv. ríkisstjórnar.
    Það þarf ekki að fara hér mörgum orðum um afkomu atvinnuveganna. Einu gildir hversu oft tölur eru lesnar um hallarekstur sjávarútvegsins. Það breytir í engu afstöðu hæstv. fjmrh. Samstarfsmenn hans í

ríkisstjórn sætta sig við að hann ráði ferðinni. Þeir sætta sig við að sjávarútvegurinn sé rekinn með tapi og eigi að vera rekinn með tapi. Hallinn á fiskvinnslunni í dag er um 8--10%. Þar af greiðir ríkissjóður um *y2/3*y en atvinnugreinin sjálf safnar skuldum að því er *y1/3*y hlutann varðar. Ríkissjóður greiðir um *y2/3*y af hallarekstrinum með sérstakri viðurkenningu Alþfl. sem barðist fyrir því að uppræta velferðarkerfi atvinnuveganna í ríkissjóði. Og Framsfl. lætur sér þetta allt gott þykja og gerir engar athugasemdir. Þetta eru þær aðstæður sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir.
    Iðnaðurinn býr við alveg sömu starfsskilyrði. Það er verulegur hallarekstur í iðnaðinum. Hæstv. forsrh. hefur margsinnis komið hér upp í þinginu í vetur og kvartað undan því að iðnaðurinn væri rekinn með halla, en hann hefur jafnharðan fengið þau svör hjá hæstv. fjmrh., sem ræður ferðinni, að við því verði ekki gert, við því megi ekki bregðast. Og hæstv. forsrh. virðist enn sem komið er enga tilburði ætla að hafa í frammi til þess að snúa þessari þróun við.
    Á síðasta ári mættu menn verulegum breytingum í ytri aðstæðum. Þá féll gengi dollarans smám saman. Það var lengi að veikja undirstöðu sjávarútvegsins. Síðan féll verð á erlendum mörkuðum. Þessi þróun átti sér stað allt fram undir sl. haust. Auðvitað höfðu þessar ytri aðstæður mjög alvarleg áhrif á afkomu sjávarútvegsins og hlutu að hafa áhrif á kjör fólksins í landinu í heild, annað gat ekki gerst.
    Það var hins vegar hryggilegt að ekki skyldi takast um það samstaða sl. haust að gera raunhæfar aðgerðir til þess að snúa hallarekstrinum við þegar þjóðin var komin niður í öldudal versnandi ytri aðstæðna. En einmitt á þeim tímapunkti kaus Framsfl. að taka hagsmuni Alþb. fram yfir hagsmuni atvinnuveganna og þannig hefur staðið í allan vetur. Bráðabirgðatilraunir þessarar hæstv. ríkisstjórnar til þess að rétta við hag atvinnuveganna hafa með öllu mistekist.
    Það er athyglisvert að líta í grein sem dr. Guðmundur Magnússon, fyrrum háskólarektor, ritar í nýútkomið hefti af Vísbendingu, en hann er einn af þeim mönnum sem hafa verið formælendur þess að við efnahagsstjórn ættu menn að fara mjög gætilega í breytingu á gengi krónunnar. Hann talar því ekki gegn gengisfestustefnu almennt, en það er athyglisvert hver dómur þessa manns er nú um þá tilraun sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera. Með leyfi hæstv. forseta, segir hann um þessa millifærsluleið:
    ,,Eins og hún kemur mér fyrir sjónir var hún tilraun til þess að komast hjá gengisfellingu og forðast þannig meiri verðbólgu. Það voru því mikil vonbrigði þegar í ljós kom að þetta dugði ekki til þess að ná þeim markmiðum sem að var stefnt. Frá því sjónarmiði var millifærslan óþörf. Aðhaldssöm gengisstefna hefur margt til síns máls. Hún knýr fyrirtæki til hagræðingar, samvinnu og jafnvel sameiningar þar sem hún á við. Hafi það verið tilgangurinn með gengisstefnunni er framkvæmdin á öðrum sviðum í mótsögn við hana. Kvótakerfi í

sjávarútvegi og landbúnaði, þar sem ekki er algjörlega frjálst að selja kvótana hverjum sem er, og sértækar aðgerðir í mynd Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs vinna gegn slíkri umþóttun í íslenskum atvinnurekstri.``
    Hér kveður sem sagt einn af færustu efnahagssérfræðingum þjóðarinnar, sem hefur verið einn helsti talsmaður stöðugleikastefnu í gengismálum, sem jafnvel gat samþykkt tímabundna millifærslu ef hún leiddi til þess að verðbólga lækkaði, sinn endanlega dóm yfir stjórnarstefnunni. Hún hefur mistekist. Mistekist kannski fyrst og fremst fyrir það að hæstv. ríkisstjórn hafði forgöngu um að brjóta niður verðstöðvun og koma hér af stað nýrri verðbólguholskeflu.
    Þeir samningar, sem hæstv. fjmrh. hefur gert eftir að hafa lagt á 7 milljarða í nýjum sköttum og skert kaupmátt launafólks í landinu um 7% a.m.k., eru svo hagstæðir fyrir ríkissjóð að sögn hæstv. fjmrh. að það var fyllilega áætlað fyrir þeim útgjöldum í fjárlögum. Og borgarstjórinn í Reykjavík hefur upplýst að borgarsjóður eigi afgang frá því sem hann áætlaði til aukinna launabreytinga. Hér virðist því sem hæstv. fjmrh. hafi náð alveg einstaklega hagstæðum samningum út frá sjónarmiði ríkissjóðs í ljósi þess að hann hefur nýlega lagt á 7 milljarða í nýjum sköttum, og í framhaldi af því að hann hefur skert með skattahækkunum kaupmátt fólksins í landinu um a.m.k. 7%. Þá getur hann barið sér á brjóst og sagt: Hér eru hagstæðustu samningar sem nokkur
fjmrh. hefur sennilega gert í langan tíma. Ekki skal úr því dregið. En boðskapurinn sem hæstv. fjmrh. sendi fólkinu úti á hinum almenna vinnumarkaði, boðskapurinn sem hæstv. fjmrh. sendi fólkinu í fiskvinnslunni, fiskvinnslukonunum, fólkinu sem starfar í iðnfyrirtækjunum og verslununum og stjórnendum atvinnufyrirtækjanna, í kjölfar þessara samninga, hver var hann? Spurningin í dag er sú: Ætlar hæstv. forsrh., hæstv. starfandi forsrh. og hæstv. sjútvrh., að lýsa því yfir að hann sé fylgjandi þeim boðskap sem hæstv. fjmrh. sendi? En hann var í stuttu máli þessi: Ríkissjóður hefur séð um sig. Það þarf engar frekari aðgerðir í þágu atvinnuveganna í landinu. Þeir geta bjargað sér á því sem þeir hafa og svo skuluð þið semja á þeim grundvelli. Þetta skuluð þið hafa.
    Ég hef rætt við fjölda fólks undanfarna daga í sjávarplássum úti um land sem aldrei hefur fengið aðra eins ögrun á öldum ljósvakans við erfiðar aðstæður í sjávarútveginum en einmitt þessa. Þegar fiskvinnslan er í reynd rekin með allt að 10% halla, hvað felur þá þessi boðskapur í sér? Það á engar ráðstafanir að gera til þess að rétta hallareksturinn við. Og launafólkið og stjórnendur atvinnufyrirtækjanna eiga að semja um það sem þeir hafa handa á milli. Þetta þýðir að hæstv. fjmrh. er að krefjast þess --- á sama tíma og hann er að hækka laun opinberra starfsmanna um 10% og allt upp í 20% eftir því sem fregnir voru fluttar af í sjónvarpi í gærkvöldi á lægstu launaflokkana --- að fólkið í fiskvinnslunni og

iðnfyrirtækjunum og verslunum lækki launin sín. Þetta er boðskapurinn sem hæstv. fjmrh. sendi og það er um þetta sem málið snýst í dag. Eiga atvinnuvegirnir að búa við þessar aðstæður meðan hæstv. fjmrh. hækkar launin hjá ríkisstarfsmönnunum út á 7 milljarða skattahækkun og 7% kjaraskerðingu af þeim völdum? Á framhaldið að vera í þessum farvegi? Er það stefna Framsfl. að fylgja þessari forustu áfram? Er það stefna hæstv. starfandi forsrh. og sjútvrh. að fylgja þessari leiðsögn til enda eða á nú að snúa við?
    Nú stendur svo á að í næsta mánuði þrýtur tímabundnar millifærslur ríkissjóðs, bæði það sem greitt er í gegnum Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og eins þá tímabundnu millifærslu sem kemur beint úr ríkissjóði og er viðbót við endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Hæstv. forsrh. hefur fært fram þá einu skýringu á undanförnum vikum að hann geri ráð fyrir því að verðlag muni hækka mjög verulega á erlendum mörkuðum á næstu vikum. Ég hef að vísu ekki orðið var við þau umskipti enn, engar fregnir hafa verið bornar af því að verulegar verðhækkanir hafi orðið á erlendum mörkuðum. Kannski hæstv. sjútvrh. hafi orðið var við eitthvað annað, kannski hæstv. sjútvrh. hafi orðið var við það að nú eru komnir upp erfiðleikar í saltfiskútflutningi. Menn hafa kannski saltað meira í vetur en áður vegna þess að þar var staðan skárri en í frystingunni. Þess vegna ætluðu menn að 800 millj. mundu endast í einhverjar vikur lengur en áður var ráðgert. Núna má búast við því að þetta dæmi snúist við. Hæstv. ríkisstjórn stendur frammi fyrir því ekki síðar en í næsta mánuði hvað við skuli taka. Og það er ekki seinna vænna að hún gefi nú skýr svör við því. Auðvitað getur hún forsómað vilja Alþingis og sagt sem svo hér eftir sem hingað til: Ykkur kemur þetta ekki við. Hún getur auðvitað komist upp með það. En það eru atvinnuvegir í þessu landi sem skapa verðmæti. Þeir þurfa svör. Forustumenn atvinnuveganna þurfa svör og starfsfólkið sem þar vinnur þarf svör, eftir að hæstv. fjmrh. hefur gert sína glæsisamninga.
    Hæstv. ríkisstjórn getur sagt við Alþingi: Þið þurfið ekkert að vita. En þetta þjóðfélag gengur ekki ef þessir aðilar fá ekki skýr svör. Það eru þau svör sem ekki verða dregin og það er eftir þeim sem nú er verið að kalla. Á að draga það að gefa þau svör þangað til búið er að senda Alþingi heim? Á að draga það, hæstv. sjútvrh., þangað til búið er að senda Alþingi heim? Á með því móti að útiloka samninga á almennum vinnumarkaði? Það er rétt að fá svör við því. Og það er nauðsynlegt að fá svör við því hvað á nú við að taka, þegar hallareksturinn í fiskvinnslunni er 10% og ríkissjóður greiðir *y2/3*y og það hafa engar ráðstafanir verið gerðar lengur en fram til loka næsta mánaðar til þess að halda þeirri niðurgreiðslu áfram eða uppbótum eða millifærslum eða hvað menn vilja kalla það. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki lengur dregið að skýra frá því hvað á þá að taka við.
    Hæstv. fjmrh. hefur samkvæmt yfirlýsingu forustumanna BSRB gefið um það fyrirheit að gengi krónunnar verði ekki breytt. Talsmenn BSRB vitna í

nýútkomna endurskoðun á þjóðhagsáætlun þar sem þeir segja að ekki sé gert ráð fyrir gengisbreytingu. Á að svíkja þetta fyrirheit, sem hæstv. fjmrh. virðist hafa gefið eða a.m.k. látið nægjanlega mikið að liggja til þess að forustumenn launþegasamtakanna, opinberra starfsmanna, bera það fyrir sig og fá samninginn samþykktan á þeirri forsendu? Á að svíkja þetta fyrirheit? Ef það á ekki að svíkja það, hvað á þá að gera? Hvaða ráðstafanir verða þá gerðar?
    Það er engin afsökun í því lengur að þessu verði ekki svarað. Og það eru þessar spurningar sem nú eru bornar fram, ekki bara af Alþingi heldur kannski fyrst og fremst af fólkinu sem starfar við atvinnuvegi þjóðarinnar, af fólkinu sem er að skapa hin eiginlegu verðmæti sem við lifum á, það bíður eftir svörum. Það bíður eftir að fá að vita hvort þetta á að draga vikum eða mánuðum saman.