Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Áður en ég kem að þeim fyrirspurnum sem hv. 1. þm. Suðurl. beindi til mín í fjarveru forsrh. vildi ég aðeins fara nokkrum almennum orðum um það mál sem hér er til umræðu, ekki síst út frá þeim málflutningi sem kom fram hjá hv. þm. Þórhildi Þorleifsdóttur í upphafi þessa máls.
    Það var á hv. þm. að heyra að kjörin í landinu mundu ráðast af því hvað verkalýðshreyfingin mundi þora að gera, hvað hún vildi gera o.s.frv. Það væri alltaf verið að segja það að þjóðfélagið hefði ekki efni á að bæta kjörin, það væri aldrei spurt að því hvort heimilin hafi efni á því að búa við þau kjör sem þau búa við í landinu. Þessi málflutningur hefur tíðkast mjög lengi í landinu. Það eru allt of margir sem halda því fram að kjörin í landinu verði aðeins bætt með því að sækja hærri laun með kröfugerð á hendur atvinnuvegum og á hendur ríkinu. Það skipti engu máli hvernig gangi hjá þessum atvinnuvegum, það sé minni háttar mál. Og eins og hv. þm. sagði: ,,Við viljum aðeins það besta fyrir börnin okkar.`` Ætli við viljum það ekki öll. En við gerum á því mun því sum okkar telja það vera aðalatriði að ef atvinnuvegirnir gangi í landinu þá muni börnin fá það besta en ekki öfugt.
    Á þessari stundu hljótum við að spyrja okkur: Er hægt að bæta kjör í landinu við þessar aðstæður með því að hækka laun í prósentum? Ég er eindregið þeirrar skoðunar, og hef sagt það oft áður á undanförnum mánuðum, að það sé ekki hægt. Kjörin verði ekki bætt með því að hækka laun nú á þessum tímum. Atvinnuvegirnir eru þannig staddir að þeir geta ekki staðið undir betri kjörum um þessar mundir. Hins vegar skiptir miklu máli í framtíðinni að þeir hafi burði til þess að bæta okkar kjör.
    Því er hins vegar þannig farið í okkar þjóðfélagi að menn bera mjög gjarnan saman kjörin hver hjá öðrum og ef ein stétt hefur fengið hækkun þá fá aðrar samsvarandi hækkun eftir nokkurn samanburð og þóf í þeim efnum. Og alltaf er spurningin sú hver á að vera fyrstur?
    Þannig háttar til að á sl. sumri fengu iðnaðarmannastéttirnar 2,5% hækkun án þess að aðrar stéttir fengju hana. Það hafði jafnframt verið samið um það að viðkomandi stéttir fengju 2% hækkun í vor, að því mig minnir, og 1,5% hækkun næsta haust. Í þeim samningaviðræðum sem áttu sér stað á milli verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda var almennt gert ráð fyrir því að það yrði ekki umflúið að samsvarandi hækkanir færu yfir vinnumarkaðinn allan. Auðvitað er þetta ekki skynsamlegt vegna þess að það er ekkert svigrúm til þess að greiða þessar launahækkanir. En vegna þeirrar launajöfnunarstefnu sem almennt er rekin í þjóðfélaginu hefur oft og tíðum þurft að framkvæma ýmsar leiðréttingar hjá hinum ýmsu stéttum, en auðvitað koma þessar leiðréttingar fram í meiri verðbólgu, meiri hreyfingu í gengi, en ekki endilega fram í bættum kjörum þjóðfélagsins. Það er við þessar aðstæður sem verið er að vinna að kjarasamningum um þessar mundir.

    Það má um það deila hver skuli vera fyrstur til að ríða á vaðið í þessari erfiðu stöðu. Það er þegar skollið á verkfall hjá háskólamenntuðum mönnum sem vinna hjá ríkinu og það verkfall hefur þegar haft alvarlegar afleiðingar. Það virtist ganga illa milli verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda nú að undanförnu og því hefur það orðið ofan á að gerður hefur verið samningur milli BSRB og ríkisins. Auðvitað er sá samningur leiðandi að vissu leyti þó að ekki sé þar með sagt að launabreytingar hjá öðrum eigi að vera nákvæmlega þær sömu. Ýmsir hafa haldið því fram að félagar í BSRB hafi dregist aftur úr öðrum stéttum. Slíkur samanburður er ávallt í gangi og ég skal ekki gerast dómari í því máli.
    En aðalatriðið er þó það sem hv. 1. þm. Þorsteinn Pálsson spurði mig um sem var nánast það hvort eitthvert svigrúm væri til þess í sjávarútveginum að greiða samsvarandi hækkanir á launum og nú hefur verið ákveðið að greiða hjá ríkinu. Svarið við því er einfaldlega nei.
    Um þessar mundir er sjávarútvegurinn í heild rekinn með verulegum halla. Talið er að veiðar og vinnsla séu rekin með 2,3% halla, að mati Þjóðhagsstofnunar. Samband fiskvinnslustöðvanna telur þetta tap vera meira og þá tek ég ekki tillit til þess sem hv. þm. nefndi, sem eru greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði. Og vinnslan er rekin með 0,3% halla, þ.e. frysting og söltun.
    Það er metið svo að ef þær launahækkanir sem þarna hafa orðið mundu verða samsvarandi hjá fiskvinnslunni, þá mundi þetta tap aukast um u.þ.b. 2%, þ.e. í sjávarútveginum í heild, án þess að tekið sé tillit til þeirra óbeinu áhrifa sem verða að sjálfsögðu í atvinnuvegunum, þ.e. ýmis önnur laun hækka og þar af leiðandi þjónusta. Það liggur því í sjálfu sér alveg fyrir að sjávarútvegurinn er þess ekki umkominn að taka á sig frekari launahækkanir. Hann var þess heldur ekki umkominn þegar verið var að ræða um það milli vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar að álíka launahækkanir --- heldur minni þó en þessar, það munar ekki öllu --- kæmu fram í samningi milli vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar. Það var alveg ljóst að svo var ekki.
    Mér dettur ekki til hugar að halda því fram að á sama tíma og verulegar kostnaðarhækkanir eiga að verða í landinu sé hægt að lofa því að genginu sé haldið algjörlega stöðugu. Hvað þá að fara að gera um það samning við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja því það mætti einfaldlega túlka slíkan samning þannig að það væri gerður samningur við þau samtök að atvinnulífið skyldi endanlega fara yfir um. Auðvitað gerir enginn slíkan samning og á enginn að biðja um það.
    Hitt er svo annað mál að auðvitað hlýtur að verða stefnt að því að hafa verðhækkanir sem allra minnstar nú á tímum fram undan. En aðilar vinnumarkaðarins og þá ekki síst launþegar verða að gera sér grein fyrir þeirri einföldu staðreynd að hækkun launa mun hafa áhrif á verðlag. Ég veit að hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir hefur ekki gert sér grein fyrir þessu. Það

var a.m.k. svo að skilja á hennar máli að þetta kæmi málinu ekkert við. Þetta væri fyrst og fremst spurningin um þor. Það yrði bara að sækja þetta með góðu eða illu og þá helst illu. Hún vitnaði þessu máli sínu til stuðnings í samþykktir, eldgamlar samþykktir að því er mér skildist, frá Alþb., sem ég skildi nú svo á formanni flokksins að hann vildi kalla gamaldags málfundaæfingar. Auðvitað er það svo í þessu öllu saman að menn eru oft og tíðum með málfundaæfingar, bæði hér á þingi og annars staðar.
    En staðreyndirnar eru einfaldlega þessar: Það er ekki þetta svigrúm í sjávarútveginum og því er alveg ljóst að eitthvert gengissig hlýtur að verða á árinu 1989. Hvenær og hvernig getur enginn sagt fyrir um á þessari stundu, og á ekki að segja fyrir um það, enda hefur það mál ekki verið rætt til neinnar hlítar. Það hljóta allir að gera sér grein fyrir því að eitthvert slíkt sig mun verða, en auðvitað ber að stefna að því að það verði sem allra minnst. En lykillinn að því er m.a. sá að kjarasamningum sé stillt mjög í hóf.
    Það er alveg ljóst að þær hækkanir sem nú hafa orðið gagnvart BSRB bera þessari staðreynd merki. Þau samtök hafa greinilega gert sér grein fyrir því að mjög miklar hækkanir og kollsteypur eru af hinu vonda og þær hækkanir sem þar hafa orðið eru ekki meiri en oftast áður, sennilega minni ef eitthvað er. En það þokar ekki þeirri staðreynd að starfsskilyrði sjávarútvegsins þola ekki neinar hækkanir um þessar mundir.
    Hv. 1. þm. Suðurl. sagði að það hefði ekkert verið að gert til þess að koma rekstrargrundvelli undir sjávarútveginn. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Það hefur ýmislegt verið gert. En ég get vel tekið undir það með honum að það er ekki nægilegt. Staðreyndin er sú að það er ekki mjög þægilegt við aðstæður sem þessar, þegar allar stéttir hrópa á launahækkanir í prósentum, að koma nægilega góðum starfsgrundvelli undir sjávarútveginn. Því að það sem hefði verið best fyrir íslenskan sjávarútveg er það að engar breytingar hefðu orðið á launum á árinu 1989 og menn hefðu fengið starfsfrið til að ná sér upp úr þeim miklu erfiðleikum sem menn eru komnir í. En það er eins og fyrri daginn, að þann starfsfrið er nánast aldrei hægt að fá og kjarasamningar ávallt gerðir til nokkurra mánaða í senn. Ef talað er um kjarasamning til svona eins og eins árs, þá þykir það afar langur samningur. Ég býst ekki við því að meðan slíkt andrúmsloft er í landinu þá verði mjög þægilegt að koma góðum starfsskilyrðum undir okkar höfuðatvinnuvegi.
    Virðulegur forseti. Ég ætla mér ekki að hafa fleiri orð um það sem hér hefur komið fram. Það er sannarlega von mín að þeim verkföllum sem nú standa linni og þeir aðilar sem þar standa fyrir verkfalli taki tillit til þeirra aðstæðna sem eru í þjóðfélaginu, taki tillit til þess að það er ekki svigrúm til að veita hinum almennu launþegum í landinu miklar kjarabætur. Því miður. Bestu kjarabæturnar eru fólgnar í því að bæta um fyrir atvinnulífinu, koma betri fótum undir það þannig að það geti staðið undir

raunverulegum kjarabótum í framtíðinni. Ef þessi skilningur er ekki fyrir hendi, ekki aðeins hér á Alþingi heldur í þjóðfélaginu öllu, þá horfir ekki vel í okkar aðalatvinnugreinum.