Frestun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseta er sá vandinn á höndum að hæstv. fjmrh. er ekki staddur hér og ég geri fastlega ráð fyrir því að stjórnarandstaðan vilji ræða við hann um það mál sem hér var rætt utan dagskrár í dag. Ég skal auðvitað verða við þeirri ósk stjórnarandstöðunnar allrar að taka utandagskrárumræðuna fyrr ef menn leggja á það alla áherslu. Ég vil gjarnan verða við óskum hv. þm., en við það ræð ég ekki að hæstv. fjmrh. er ekki hér. Ég vildi því stinga upp á því að menn gætu fallist á þann Salómonsdóm í málinu að við hæfum nú umræður um vegáætlun þar til hæstv. fjmrh. gengur í salinn og ég vænti þess að menn geti þá fallist á þá niðurstöðu málsins og við eyðum ekki meiri tíma nú í umræður um þingsköp.