Frestun utandagskrárumræðu
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Mér finnst undarlegt þegar formaður þingflokks Alþfl. kallar það að hefja umræður í auglýsingaskyni þegar þingmenn óska eftir því að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir kjarasamningi sem hann hefur gert við opinbera starfsmenn sem sá sem gegnir störfum forsætisráðherra nú segir að kalli á gengisfellingu. Mér finnst líka undarlegt ef formaður Alþfl. kallar það að hefja umræður hér í auglýsingaskyni þegar svo háttar til í skólum landsins að þeir unglingar sem nú eru að taka stúdentspróf standa frammi fyrir röskun og truflun á kennslu fjórða árið í röð vegna verkfalla eða vinnustöðvana og allt á þessari stundu á huldu um það hvernig reiðir af námi þessa unga fólks nú á þessu vori. Ég held að það þurfi mikla kokhreysti til að tala um auglýsingar þó þingmenn hafi áhyggjur af því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu, bæði í atvinnulífinu og eins hvernig fram vindur skólastarfinu nú á þessum vordögum.
    Ég hlýt, hæstv. forseti, að óska þess að kallað verði til fundar í Sþ. kl. 2 á morgun til þess að umræður geti haldið áfram um atvinnulífið og launamálin að hæstv. sjútvrh. viðstöddum. Ég get vel skilið þær röksemdir hæstv. forseta að hann sjái ekki ástæðu til þess að halda áfram umræðum hér um sjávarútvegsmál og kjaramál þegar forsrh. sem það embætti skipar nú, Halldór Ásgrímsson, og sjútvrh. Halldór Ásgrímsson flýtir sér úr bænum eftir þá ræðu sem hann flutti hér í dag. Þannig að með hliðsjón af því að hæstv. sjútvrh. telur störf Alþingis ekki meira virði en svo að hann sér ekki ástæðu til að sitja þingfund nú í kvöld verðum við auðvitað að haga okkur í samræmi við það og þá þykir mér skynsamlegast og réttast að þessari umræðu verði fram haldið á fundartíma Alþingis á morgun kl. 2 til þess að þingmenn geti átt þau orðaskipti við hæstv. sjútvrh. sem nauðsynlegt er eins og nú er komið málium.