Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Fá af þeim málum er varða opinberar framkvæmdir hygg ég að séu almenningi í landinu jafnhugleikin og vegamálin. Vegakerfið er sameign landsmanna allra og vegirnir eru lífæðar samgangna á landi sem eru með því allra nauðsynlegasta fyrir nútíma lífshætti í okkar strjálbýla landi. Að sjálfsögðu finnst mér og ýmsum okkar að við höfum unnið stórvirki í þessum efnum á síðustu árum þó að allir hefðu kosið að geta þar farið hraðar. Við erum þó minnt á það býsna óþægilega um þessar mundir og nú á þeim vetri sem senn er liðinn að það er síður en svo að við megum við því að slaka á í þessum efnum. Við þurfum að halda áfram vegaframkvæmdum af fullum þrótti, við þurfum að halda áfram að bæta það vegakerfi sem við búum við, að greiða fyrir því að samgöngur geti haldist á milli byggða og innan byggðarlaga. Þetta hefur vissulega komið glöggt fram í þeirri umræðu sem hér fór fram í dag. Það bíða hvarvetna verkefni, það bíða verkefni í lágsveitum og það bíða verkefni á fjallvegum, það bíða verkefni í brúargerð og það bíða verkefni hér á höfuðborgarsvæðinu vegna gífurlegrar fjölgunar bifreiða og hvernig umferðarkerfi höfuðborgarsvæðisins er í raun og veru sprungið. Það er því hin mesta nauðsyn að halda áfram af fullum þrótti framkvæmdum í þessum málaflokki og það á að vera okkur alþingismönnum keppikefli að geta haldið í horfinu með þeim hætti a.m.k. að sem næst sé hægt að standa við þá langtímaáætlun sem siglt hefur verið eftir í þessum efnum eða a.m.k. höfð hliðsjón af.
    Sú tillaga til þál. um vegáætlun fyrir árin 1989--1992 sem hér liggur fyrir er seint á ferðinni hér á hinu háa Alþingi. Ég hygg að segja megi að hún sé seinna á ferðinni en gerst hefur í annan tíma þegar regluleg endurskoðun vegáætlunar á að fara fram samkvæmt lögum. Þetta er því bagalegra sem tillagan felur það í sér að með henni eru gerðar breytingar á uppsetningu fjárfestingarliða í tillgr. sjálfri og þessar breytingar eru þess efnis að tilefni hefði verið til þess að lokið væri við endurskoðun langtímaáætlunar áður en þessi tillaga kæmi fram. Það verkefni hefur legið eftir og verið í undandrætti. En það er kominn tími til þess að langtímaáætlunin sé endurskoðuð og þegar regluleg endurskoðun vegáætlunar fer fram eins og nú á að gerast hefði það verið heppilegt og rökrétt vinnubrögð að vegáætlunartillagan hefði verið færð að endurskoðaðri langtímaáætlun. Stórvirki eru fram undan í þessum málum, sum þeirra komin nokkuð á rekspöl, önnur lítt undirbúin, stórvirki sem alþingismenn hafa mikinn áhuga fyrir og allir vilja að sjálfsögðu vinna að að komist í framkvæmd fyrr en seinna, en þau stórvirki kalla á það að þessi mál séu tekin upp til nýrrar endurskoðunar.
    Þessi seinagangur í framlagningu mála og endurskoðun á bæði vegáætlun og langtímaáætlun er vitaskuld ekki starfsmönnum Vegagerðar ríkisins að kenna. Ég þekki þá starfsmenn að því að þeir eru færir menn og vinnusamir og það er afar sjaldgæft að á því standi að þaðan komi skilmerkileg gögn,

skýrslur og tillögur sem þarf til þess að byggja upp áætlanir af þessari tegund. Hér er vitaskuld um það að ræða að hæstv. samgrh. hefur ekki unnið sína heimavinnu við undirbúning mála með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið og krafa hefði átt að vera gerð um. Það er seint að leggja þessa tillögu fram nú fyrir síðustu helgi og taka hana til fyrri umræðu hér í dag og það er líka ærið mikið sleifarlag á því að hafa ekki á þessum vetri hafið endurskoðun langtímaáætlunar. Þetta sleifarlag ráðherra er þeim mun augljósara sem það kemur í ljós að heimavinna hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar er ekki betri en svo í þessu efni að það er ekki full samstaða um þetta mál innan stjórnarliðsins. Ég vitna þar aðeins til þess að hv. 1. þm. Vesturl., varaformaður fjvn., lýsti því hér yfir í dag að hann mundi ekki styðja þá uppsetningu sem er í þessari tillögu í öllum greinum. Þannig að þrátt fyrir það að þetta mál er svo seint á ferðinni sem raun ber vitni þá er undirbúningurinn ekki betri en þetta. Það hafði ekki verið hirt um að ná samstöðu innan sjálfs stjórnarliðsins.
    Ég tel ekki tilefni til þess fyrir mig nú við fyrri umræðu að flytja langa ræðu eða ítarlega þó að hér sé um viðamikið mál að ræða því að hér flutti í dag yfirgripsmikla ræðu hv. 1. þm. Reykn., fyrrv. samgrh., Matthías Á. Mathiesen sem fór ítarlega yfir þetta mál. Ég vil þó grípa á nokkrum atriðum sem einkenna málið eins og það liggur fyrir og það viðfangsefni sem við eigum fram undan að fást við.
    Í fyrsta lagi er þetta niðurskurðartillaga. Sá niðurskurður var skýrður af hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen hér í dag og er ekki ástæða til að fara um það mörgum orðum. Ég rifja þó upp einu sinni enn að í fyrsta sinn er að þessu sinni fé tekið af sérmerktum tekjustofnum Vegagerðar ríkisins til ríkissjóðs. Það var býsna mikill ósigur að sá varnargarður skyldi bresta sem við höfðum staðið vörð um allt þangað til nú í vetur, að taka ekki fé af sérmerktum tekjustofnum Vegagerðarinnar beint yfir í ríkissjóð. Hér er það gert og í tillögunni segir að það séu 682 millj. kr. en með afgreiðslu fjárlaga var það 690 millj. kr. og mun ég ekki gera þann mismun að umtalsefni en hann verður væntanlega skýrður síðar í meðferð þessa máls.
    Hæstv. ráðherra sagði að þessi niðurskurður hefði verið gerður vegna efnahagsástandsins og stöðu ríkisfjármála í haust og fyrr í vetur. Tillagan ber með sér að á árunum 1990--1992 er meiningin að ekki verði framhald á þessum niðurskurði heldur verði þá sérmerktum tekjustofnum til vegamála skilað til þeirra verkefna sem til er ætlast. En ég segi nú af fullri hreinskilni við hæstv. ráðherra að ég sé engin merki þess að ástand efnahagsmála og ríkisfjármála muni verða léttara eða betra viðfangs þegar farið verður að setja saman fjárlagafrv. og þegar við göngum að því að afgreiða fjárlög fyrir árið 1990 heldur en var fyrir þetta ár. Ég vara því hæstv. ráðherra við og bið að hann gæti sín á þeim málum, ef þessi hæstv. ríkisstjórn lifir svo lengi að hún standi að undirbúningi næstu fjárlaga, þá vara ég hæstv.

ráðherra við að það eru engar líkur til þess, miðað við þær horfur sem ég sé hvarvetna, að ástand efnahagsmála og ástand ríkisfjármála verði léttara viðskiptis nú í haust en var á síðasta hausti. Hæstv. ráðherra þarf ábyggilega stuðning við það að standa þá á verðinum í stað þess að hopa eins og hann gerði við undirbúning síðustu fjárlaga.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir að ofan í þennan niðurskurð á almennu framkvæmdafé Vegagerðarinnar, 680 millj. kr. niðurskurð, þá er gert ráð fyrir því eins og glögglega var rakið hér fyrr í dag, m.a. af hv. 1. þm. Vesturl., að 200 millj. kr. verði teknar af almennu framkvæmdafé Vegagerðarinnar til jarðgangagerðar í Ólafsfjarðarmúla. Ef það verður gert þá hafði hv. 1. þm. Reykn. reiknað það út að þar með væri niðurskurður á hinu almenna framkvæmdafé Vegagerðarinnar samkvæmt þessari tillögu í kringum 25%. Þetta er það sem hv. 1. þm. Vesturl. sagðist ekki geta sætt sig við og lái honum hver sem vill. Það hefði verið auðvelt að taka fé af hinu almenna framkvæmdafé Vegagerðarinnar til þess að ljúka stórframkvæmdum í Ólafsfjarðarmúla ef ekki hefði verið um að ræða niðurskurð á þessu fé til ríkissjóðs, ef 680 millj. kr. af vegafé hefðu ekki verið teknar beint í ríkissjóðshítina. En eftir þann niðurskurð þá er ekki að furða þó að þingmönnum þyki nóg boðið að taka líka af hinu almenna framkvæmdafé Vegagerðarinnar í þetta verkefni.
    Nú vil ég taka alveg skýrt fram að það kemur vitaskuld ekki til nokkurra mála og getur engum til hugar komið annað en að staðið verði við þau framkvæmdaráform sem eru í Ólafsfjarðarmúla. Ég hlýt að vitna til þess að á þeirri tíð sem ég var í forustu í fjvn. birti ég fyrir hönd nefndarinnar yfirlýsingu þess efnis að við það framkvæmdaplan yrði staðið. Við munum auðvitað ræða það í fjvn. undir meðferð þessa máls með hvaða hætti við bendum á leiðir til þess að útvega fé í þetta verkefni, en það verður tæplega gert með öðrum hætti en þeim að annað tveggja skili ríkissjóður hluta af því fé sem tekið er af sérmerktum tekjustofnum Vegagerðarinnar eða þá að aflað verði lánsfjár. Aðrar leiðir munu tæpast finnanlegar enda þótt ég minnist þess að hæstv. samgrh., annaðhvort hann sjálfur eða hans flokkur, hafi mælt með því á haustdögum að tekinn yrði upp sérmerktur tekjustofn í svokallaðan stórverkasjóð sem var stórkarlalegt nafn á. En e.t.v. er hæstv. ráðherra með þann sérmerkta tekjustofn á prjónunum sem gæti þá létt þetta mál en ekki hefur heyrst af því síðan.
    Þó að hér sé um að ræða 200 millj. kr. sem teknar eru af hinu almenna framkvæmdafé Vegagerðarinnar, svo sem einnig kom fram hjá hv. 1. þm. Reykn., þá er til viðbótar ætlað til Ó-vega 70 millj. kr. á þessu ári og það er með eðlilegum hætti að það gangi til þessa viðfangsefnis. En þrátt fyrir það ... ( Gripið fram í: Ekki allt.) ja, væntanlega meginhlutinn af því vegna þess að Ólafsfjarðarmúli er þriðji í röð af verkefnum Ó-vega, á eftir Ólafsvíkurenni og Óshlíðarvegi. En þrátt fyrir það vantar eigi minna en 60--80 millj. kr. til þess að ljúka því verki sem þarna

þarf að vinna á þessu ári. Enn er því ekki séð fyrir þessu máli og auðséð að það þarf að taka upp allt dæmið. Hv. 1. þm. Vesturl. er sannarlega vorkunn þó að hann lýsi því hér yfir að hann geti ekki stutt það að taka þær 200 millj. kr. sem hér er um að ræða af hinu almenna framkvæmdafé í þessu skyni heldur verði að afla fjár með öðrum hætti. Og ég hlýt að taka undir við hann í þessum efnum.
    Þá blasir það við að í þessari tillögu er gert ráð fyrir fé til vetrarviðhalds sem hvergi nærri dugar til þess verkefnis miðað við það hvað eyðst hefur vegna snjómoksturs nú í vetur vegna óvenjulegra snjóalaga. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins í morgun vantar inn á þennan lið um 170 til 180 millj. kr. og það er enginn stafur um það í þessari tillögu hvar á að taka það fé. Enginn stafur um það.
    Þá er hér ekki einn einasti stafur um það hvernig eigi að skila þeim 180 millj. kr. sem geymdar voru af innheimtum vegna sérmerktra tekjustofna til vegamála á árunum 1987 og 1988. Upphaflega var talið að þetta yrðu 285 millj. kr. Síðan innheimtist minna en það þannig að þetta varð um 180 millj. kr. Hér var sagt í dag að sú aukafjárveiting, sem veitt var í lok síðasta árs, 35 millj. kr., gæti dregist frá þessu fé. Það er álitamál eftir því hvernig það er reiknað. Ég tel það a.m.k. vafasamt vegna þess að búið var að skipta þessu fé á milli kjördæma og þegar búið er að skipta því í vegaáætlun á milli
kjördæma hefur hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. ekki heimild til að taka af því fé í eitthvert annað verkefni. Þær 35 millj. kr., sem varið var í Ólafsfjarðarmúla með aukafjárveitingu í lok síðasta árs, hlutu því að koma beint úr ríkissjóði. Hæstv. ráðherrar hafa ekki heimild til þess að taka fé sem Alþingi hefur ráðstafað til allt annarra verka en Alþingi hefur samþykkt. En það er hvergi hér í þessum plöggum sem ég hef séð gerð nokkur grein fyrir því hvernig þessum 180 millj. kr. verði skilað og ekki eru þær færðar hér á blað þannig að þar er eitt gatið enn í þetta mál.
    Það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að sérmerktir tekjustofnar til vegamála hafa aukist á undanförnum árum. Bensíngjald hefur vaxið stórum vegna þess hve bílaflotinn hefur stækkað gífurlega. Hann nefndi að á stuttu árabili hefði bensíngjaldið vaxið um 35% að magni til og það er vafalaust rétt. En þess hefur líka verið gætt af núv. hæstv. ríkisstjórn að nýta möguleika til að hækka þessa tekjustofna í gjaldskránni, í krónum talið, eins og mögulegt hefur verið, þ.e. bensíngjaldið hefur verið hækkað og þungaskattur af dísilbifreiðum hefur verið hækkaður eins og lög og reglur frekast heimila. En áður hefur þessu oftast verið hagað þannig að reynt hefur verið að komast hjá því að hækka þessi gjöld alveg upp í topp. Þó að þetta hafi verið gert þá liggur það fyrir samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins að það þarf enn á þessu ári að hækka bensíngjaldið um sem svarar 70 aura á lítra til þess að geta staðið við þá tekjuáætlun sem fyrir liggur í tillögunni sjálfri. Þar kemur enn ein bensínhækkunin, hvenær sem það nú verður á árinu, en bensín hefur hækkað að ég ætla frá áramótum

þrisvar sinnum --- og sjálfsagt ekki lát á því ef marka má fréttir um hækkun á olíu erlendis. En það þarf líka að hækka vegna bensíngjaldsins ef hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að ná þeim tekjum sem vegáætlunartillagan gerir ráð fyrir.
    Ég nefndi áðan að það væru breytingar á uppsetningu í þessari tillögu til vegáætlunar. Auðvitað geta verið rök fyrir því að breyta uppsetningu á tillögum. Ég tel að sú breyting sem hér er gerð sé þó vafasöm. Ég held að það þurfi a.m.k. að skoða það mjög vandlega hvernig fé til stórverkefna, sem hér er talið um 550 millj. kr. á árinu 1990, 600 og 650 millj. kr. á seinni árum þessa áætlunartímabils, hvernig þetta fé kemur við hina almennu framkvæmdaliði vegáætlunar. Ég minni á það að þegar farið var í Ó-verkefnin þá var gert ráð fyrir því og það bókað að fé vegna Ó-vegaframkvæmda skyldi koma til viðbótar hinni eiginlegu vegáætlun. Það hefur ekki verið staðið við þetta. En ef það er svo að á þessu áætlunartímabili sé ætlunin að fara í fleiri stórvirki, byrja kannski á mörgum stórvirkjum til viðbótar við Ólafsfjarðarmúla, og taka það fé sem til þarf af hinu almenna vegafé, þá held ég að við þurfum að athuga það mál mjög gaumgæfilega, þá held ég að hæstv. ráðherra verði að fara að dusta rykið af hugmyndum sínum um sérmerktan tekjustofn til svokallaðs stórverkasjóðs, og væri fróðlegt að fá að kynnast þeim hugmyndum nánar.
    Þessar breytingar verða vitaskuld teknar til athugunar í meðferð málsins í fjvn. og ég sé ekki ástæðu til að fjalla mikið um þær nú við fyrri umræðu. En það er alveg ljóst að fjvn. á mikið starf fyrir höndum. Ég tel að það sem ég hef talið upp hér sanni það að málið sé illa unnið. Því miður. Þrátt fyrir að það komi svo seint sem raun ber vitni, seinna en nokkru sinni við reglulega endurskoðun vegáætlunar, þá er málið illa unnið. Það er allt götótt. Heimavinna hæstv. ráðherra hefur brugðist og það kemur í ljós að stjórnarliðið stendur ekki saman um tillöguna. Það hefur verið vanrækt að ná samstöðu um málið og í þeim búningi kemur það til fjvn. þannig að þar verður ærin vinna.
    Ég vil svo rifja það upp að hæstv. ríkisstjórn gaf út málefnasamning þegar hún var mynduð. Ég geri mér það einstöku sinnum til dundurs að líta í þennan málefnasamning. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Unnið verður skipulega að uppbyggingu í samgöngumálum samkvæmt langtímaáætlun.`` Það sem enn hefur komið frá hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum er ekki skipulega unnið. Það er losaralega unnið, það er götótt, það er skorið niður fé þannig að það er ekki mögulegt að fylgja langtímaáætlun og allt það sem fram hefur komið til þessa og kemur til að vinna að þessum verkefnum, a.m.k. á þessu ári, er í andstöðu við það sem hæstv. ríkisstjórn lofaði þegar hún tók við völdum. Þau brigð er því miður ekki einsdæmi um það sem stendur í þessu plaggi. Eins og ég hef raunar áður vikið að er það frekar regla heldur en hið gagnstæða.
    Ég skal, hæstv. forseti, ekki lengja þetta mál mitt,

a.m.k. ekki verulega. Ég held að ég fari ekki mörgum orðum um til að mynda ræður þeirra hv. þm. Borgfl. sem hér töluðu. Hv. þm. Júlíus Sólnes fór sumpart í sinni ræðu með himinskautum. Hann taldi meðferð vegafjár hafa gefist illa á síðari árum og gagnrýndi meðferð vegafjár og þau vinnubrögð sem þar hefðu verið notuð. Hann vildi fara í stór verkefni og bjóða þau út á erlendum sem innlendum verktakamarkaði, og það er vissulega sjónarmið. En það er ekki svigrúm til þess samkvæmt þessari áætlun. Þá þyrftum við að geta náð því að hafa meira fé handa á milli til þess að geta farið í slík stórverkefni. Það er í sjálfu sér hægt að taka undir það að stundum hefur það verið álitlegt að bjóða út
stórvirki í vegagerð, meiri háttar verk, og jafnvel á hinum stærsta verktakamarkaði.
    En hann vildi breyta ýmsu í uppsetningu þessara mála og hreifst af einu sem var stórverkefni í þessari tillögu, sem eiga þó ekki að kosta nema 200--650 millj. á áætlunartímabilinu á ári hverju, og sagði að það væri gott að síast hefði inn í höfuð hæstv. ráðherra eitt af baráttumálum Borgfl. og væri loksins að nú sæist árangur af starfi Borgfl. hér á hinu háa Alþingi og þótti það gott. Mér flaug í hug að litlu verður Vöggur feginn. En ég held að hugleiðingar hans um það að hv. alþm. hefðu allt of mikil afskipti af meðferð þessara mála hafi ekki verið raunhæfar. Ég held sannast sagna að afskipti alþingismanna af vegamálum séu nauðsynleg. Mér er sem ég sjái það að t.d. helmingur eða þriðjungur eða *y2/3*y af framkvæmdafé vegamála væru sendir samtökum sveitarfélaganna í landinu til meðferðar. Ja, þá yrði nú darraðardans. Og mér þykir það ekki bera mikinn vott um kunnugleika hv. þm., sem þó hefur verið sveitarstjórnarmaður og starfað í slíkum samtökum hér á tilteknu svæði landsins, ef hann trúir því að það mundi ganga vel hjá samtökum sveitarfélaganna að togast á um vegafé og ákveða hvernig því yrði skipt um landið og til einstakra verkefna. Ég hef ekki trú á þessu.
    Ég held að Alþingi og alþingismenn sem kjörnir eru til þess að skera úr um þessi mál verði að standa undir því að taka það á sig að vinna þessi verk og taka síðan við skömm eða heiðri fyrir það hvernig til hefur tekist.