Vegáætlun 1989-1992
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að lengja þessa umræðu um vegamálin og tel þeim tíma þingsins vel varið. Mér hefur virst gæta mikils misskilnings í gegnum tíðina hjá mörgum Íslendingi þegar vegamál eru til umræðu. Ég tek undir það með hv. 2. þm. Norðurl. v. að vegirnir eru sameign íslenskrar þjóðar og byggð í landinu verður ekki nema á þeim svæðum þar sem við höfum vegi, sé hægt að koma þeim við.
    Við getum í dag horft á heila firði sem eru komnir í eyði og ekki eitt einasta býli í byggð vegna þess að þangað voru engir vegir lagðir. Við getum líka horft á firði sem hafa stöðugt verið að tapa sínu fólki vegna þess að vegakerfið er ekki í lagi. Og við getum horft á þorp sem munu fara í eyði verði vegakerfinu ekki komið í lag.
    Það er dálítið nöturlegt að á þessari öld skuli jafntakmarkaður skilningur vera á mikilvægi samgangna eins og hann er, vitandi það að Rómverjar hinir fornu gerðu sér grein fyrir því að ríki þeirra yrði aldrei stærra en það svæði sem þeir byggðu vegi um. Svo einfalt var þetta í þeirra huga. Hér gerist það aftur á móti að menn láta sér detta það í hug að eftir að Alþingi Íslendinga er búið að skipta 180 millj., eins og gert var hér í þinginu í fyrra, þá sé hægt að sleppa þeim út úr umræðunni og verja þeim í eitthvað annað. Svona vinnubrögð hreinlega ganga ekki. Ráðherrar verða að átta sig á því hvar skilur á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Skattlagningarheimildin er þingsins og ráðstöfunarréttur fjárins einnig. Svo einfalt er það. Skilji þeir það ekki, þá verður að fá nýja ráðherra. Þetta er grundvallaratriði í átökunum á milli þingræðis og framkvæmdarvalds allt frá því að þingin urðu til.
    Það mun ekki gerast að fjárveitinganefndarmenn Framsfl. verði viðskila í þessu máli. Það mun ekki gerast. Það liggur alveg ljóst fyrir. Ég er ekki með þessu að ráðast einvörðungu á það að hæstv. samgrh. hefur lagt hér fram frv. sem ekki er í takt við þær heimildir sem þingflokkur Framsfl. veitti sínum ráðherrum. Þeir verða að gera sér grein fyrir því að í þessum málum þurfa þeir að átta sig á því hvað þar var samþykkt og við það verður staðið. Stjórnarsáttmálinn er einnig skýr og það er engin tilviljun að hann er hafður á þann veg sem hann er. Það er engin tilviljun. Áætlun jafnlangt fram í tímann eins og kom fram í vegamálum hlaut að bjóða upp á þá tortryggni að þeir sem væru aftarlega í röðinni mundu spyrja: Kemur nokkurn tíma að okkur, verður þessu ekki einfaldlega breytt? Verður nokkurn tíma tekið tillit til þessa? Ég segi fyrir mig að ég treysti mér ekki að standa að jafnóþjóðlegum vinnubrögðum og þeim að beina ferðamannastraumi Íslendinga stöðugt til útlanda vegna þess að að er ekki hægt að ferðast um landið.
    Vita menn það að þegar einhver Íslendingur ákveður að verja, við skulum segja 200 þús. kr. til þess að ferðast til útlanda, þá rennur örlítið brot, hrein skiptimynt, í ríkiskassann. En ef hann ver 200 þús. kr.

til þess að ferðast um þetta land á sínum bíl, hvað ætli stór hluti af upphæðinni fari beint í ríkiskassann? Veit hæstv. samgrh. það? Væri ekki fróðlegt að reikna það út og átta sig á því? Ætli það sé ekki nálægt því 70%? Það er nefnilega tímabært að menn geri sér grein fyrir því að ef við ætlum að rétta við viðskiptahallann við útlönd þá er stærsti leikurinn sá að gera landið fært til umferðar þannig að mönnum sé ljóst að það er næg sól yfir sumartímann á Íslandi. Menn þurfa aðeins að geta átt þess kost að geta ferðast um landið eftir vegum með bundnu slitlagi. Fjöldi manns hér á höfuðborgarsvæðinu hættir ekki bílum sínum út á malarvegina vegna þess að grjótkastið gengur yfir þá og það þýðir gjöreyðilagningu á lakkinu á bílunum fyrir utan allt annað.
    Það gengur einfaldlega ekki upp að ætla að verja það að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að halda vegakerfinu í því ástandi að fólk beinlínis treysti sér ekki til þess að ferðast um landið. Þetta er önnur hliðin á þessu máli.
    Hin hliðin er sú að það er jafnfáránlegt vetur eftir vetur að standa í því að gera skurði á láglendi í snjóbreiðuna, í staðinn fyrir að nota sumartímann til þess að lyfta vegunum upp úr snjónum þannig að kostnaðurinn við snjómoksturinn verði hverfandi lítill. Það er nefnilega ekki sama hvort þú getur notað ökutæki sem fer á 50 eða 60 km hraða eftir veginum eða hvort þú verður að sitja fastur, hjakkandi fram og til baka til að grafa þér göng í gegnum skaflana.
    Mér finnst að það hafi því miður ekki verið gætt jafnvægis í því að vinna að framþróun málaflokka í íslensku samfélagi. Við erum sennilega með besta heilbrigðiskerfi í heimi. ( JúlS: Hvað með tannlækningar?) Það er rétt að geta þess að tannlæknakostnaður er mikill á Íslandi. Ég get vissulega viðurkennt það en ég vil vekja athygli hv. 7. þm. Reykn. á því að meðallífaldur Íslendinga er einhver sá hæsti í heimi. Og hvaða vit haldið þið að sé í því að hanna vegakerfið, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, á þann veg að örorkan sem af því hlýst kostar miklu meira en að byggja vegakerfið upp. Hvaða vit er í þessu? Hvað kostar það að geyma fjölda manns á stofnunum fyrir lífstíð vegna þess að vegakerfið er hrein krossgáta og engum heilvita manni dytti í hug að bjóða upp á þær umferðaræðar, miðað við umferðarþunga, sem notast er við, ef
verkfræðilegt mat væri á það lagt?
    Ég held, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að þá blasi það við að í þessum heimi verða fleiri störf tengd ferðamannaiðnaði, ný störf, fram að næstu aldamótum en í nokkurri annarri atvinnugrein. Fljótteknasti möguleikinn til að auka hagvöxt í þessu landi er að stórauka ferðamannastrauminn, er að stórauka ferðamannastrauminn, og eitt af því sem þarf að gera til þess að það sé hægt er að bæta vegakerfið. Hérna virðist ástandið hins vegar vera á þann veg að menn sækja svo fast fram í sumum velferðar- og heilbrigðismálum að þeir eru staðráðnir í því að drepa hagvöxtinn í landinu og afleiðingin af því verður, ef

það verður gert, að að 10 árum liðnum stöndum við verr á vegi í þessum velferðarmálum en við gætum staðið ef við hefðum jafnvægi í því sem við erum að gera.
    Það er ekki hægt, að mínu viti, að standa þannig að málum að þessi höfuðborg sem við höfum tapi akvegasambandinu við jafnstóra hluta af landinu jafnlangan tíma og nú er. Margir munu spyrja: Er nokkuð hægt að gera þegar vetrarveðrin eru sem verst? Það er hægt að hafa öruggan veg frá Norðurlandi í gegnum Dali, hvernig sem viðrar að vetrarlagi, gegnum Laxárdalsheiði, gegnum Heydal og til Reykjavíkur um Mýrar. Þetta er hægt, það vita það allir, en það verður að byggja veginn upp svo að það gangi. Það er jafnvíst að fátt fer meira í taugarnar á þeim sem fara þessa vegi allan ársins hring en að upplifa það að þegar veturinn er loksins farinn að gefa sig er vegunum lokað af mannavöldum. Bönnuð umferð nema með 5 tonna öxulþunga eða 3ja tonna öxulþunga. Hvers vegna? Hvers vegna er það gert? Vegna þess að það eru í reynd engir vegir nema moldarstígar sem ekki þola neina umferð. Er ekki ástandið dálítið líkt því sem lýst er í Innansveitarkróníku hjá nóbelsskáldinu um veginn fyrir neðan Hrísbrú? Ætli það sé mikill munur á drullusvöðunum þar og þessu ástandi?
    Það er vel að ég er sannfærður um það, þrátt fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram, að hæstv. samgrh. er ekki í hópi úrtölumanna um vegamál. Ég er sannfærður um það. Og ég tel að hans hugmyndir um stórverkefnasjóð séu góðra gjalda verðar. En ég er jafnákveðinn í því að standa fast með hv. 1. þm. Vesturl. í þeim efnum að láta ekki taka aftur fjármagn frá kjördæmunum, í annað sinn á þessum vetri, til þess að leysa stórt verkefni sem við þurfum að vinna að, að koma jarðgöngunum í gegnum Ólafsfjarðarmúlann. Það verður að taka lánsfé í því skyni. Það er ekkert um annað að ræða.
    Mér er ljóst að úrtölumenn í vegamálum eru til í öllum flokkum. Mér er það ljóst. Það breytir hins vegar ekki því að venjulegur þingmaður hlýtur að hafa rétt til þess að standa fast á þeirri stjórnarstefnu sem stjórnarsáttmálinn gengur út frá. Þeir sem vilja sprengja ríkisstjórn út á það að breyta stjórnarsáttmálanum mega þá bera ábyrgð á því. Svo einfalt er það mál.
    Þess vegna, herra forseti, hef ég talað svo skýrt í kvöld að ég ætlast til þess að ráðherrar þeir sem eru hér inni geri sér grein fyrir því að þessum slag geta þeir aldrei annað en tapað, hvern veg sem þeir standa að því.