Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það vakti athygli nú í kvöldfréttum þegar Hjörtur Eiríksson kom fram í sjónvarpinu að mat hans á þessum kjarasamningum var hið sama og mat hæstv. sjútvrh., að þeir samningar sem gerðir voru af hæstv. fjmrh. hafi verið slys. Hjörtur Eiríksson gerði í stuttu máli grein fyrir stöðu atvinnuveganna og féll lýsing hans að öllu leyti saman við það sem hæstv. sjútvrh. hafði sagt á fundi sínum fyrr í dag og sé ég ástæðu til þess að víkja að því nokkrum orðum.
    Ég vil fyrst gera það að umtalsefni að hæstv. sjútvrh. hvessti sig mjög þegar hann talaði við þingmenn Kvennalistans og féllu orð hans á þá leið að þingmenn Kvennalistans ímynduðu sér að spurningin um launakjör í landinu væri ekki spurningin um það hvort þjóðfélagið eða atvinnulífið stæði undir launakjörunum heldur sagði hæstv. sjútvrh. það sína skoðun að spurningin væri hin hvort þjóðfélagið stæði undir þeim kjörum sem greidd væru. Og hann tók það skýrt fram í sinni ræðu að atvinnulífið gæti ekki staðið undir betri kjörum. Mat hans á ástandinu í landinu var það að nákvæmlega ekkert svigrúm væri fyrir launahækkanir af neinu tagi úti á hinum almenna vinnumarkaði og hann sagði í sinni ræðu að ef þær hækkanir sem ríkisstjórnin samdi um við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja næðu til allra launþega í landinu hlytu þær launahækkanir að koma fram í meiri verðbólgu og meiri hreyfingu á gengi. --- Ég sé að hæstv. viðskrh. er hér inni og er fróðlegt að fá álit hans á því hvort hann sé sammála því mati hæstv. sjútvrh. að engar aðstæður hafi verið í þjóðfélaginu nú fyrir þessar launahækkanir. --- Hann tók það skýrt fram að hann gerði sér grein fyrir því að samningarnir við ríkisstarfsmenn hlytu að vera leiðandi, en bætti því við að auðvitað væri ekki þar með sagt að launabreytingarnar yrðu að vera nákvæmlega þær sömu á hinum almenna vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum. Hann spurði hvort svigrúm væri í sjávarútveginum og sagði að svarið við því væri einfaldlega nei.
    Hæstv. sjútvrh. gerði síðan grein fyrir því hver staðan væri í sjávarútveginum og sagði að að mati Þjóðhagsstofnunar væri tapið á sjávarútveginum í heild verulegt eða 2,3% og tók um leið skýrt fram að Samband fiskvinnslustöðvanna telur tapið verulega meira. Ég hygg að þar muni 2%. Þá taldi hæstv. sjútvrh. að tapið í sjávarútveginum mundi aukast um 2% ef einungis væri tekið tillit til þess að launahækkanirnar gengju óbreyttar inn á hinn almenna launamarkað, en sagði að auðvitað yrði tapið meira vegna hinna óbeinu áhrifa sem slík launaþróun mundi hafa, og varpaði síðan fram þeirri spurningu hvort það væri hægt á sama tíma og þessir samningar væru gerðir við BSRB að semja um það að gengi krónunnar yrði óbreytt. Hann sagði að það væri það sama og að segja að sjávarútvegurinn færi yfir um.
    Er hæstv. viðskrh. sammála því mati hæstv. sjútvrh. að sjávarútvegurinn fari yfir um, það eru óbreytt orð hans, ef þessar launahækkanir ganga út á hinn almenna vinnumarkað? Ef hæstv. fjmrh. væri hér

inni væri kannski hægt að spyrja hann í þessu samhengi um þau vinnubrögð sem hann viðhafði í ríkisstjórninni þegar hann samdi um þessar hækkanir. Ég þarf auðvitað ekki að taka fram að lífskjör hafa versnað verulega á sl. ári. Ég hygg að það sé erfitt að finna frá lýðveldisstofnun nokkurt ár þar sem lífskjörin hafa versnað jafnt og þétt jafnlengi jafnmikið og þau hafa gert núna á tímum sem engar launahækkanir hafa verið.
    Verðbólgan um þessar mundir, ef við miðum við hækkun lánskjaravísitölunnar í síðasta mánuði, er einhvers staðar í kringum 25%. Ég man ekki hvort verðbólgan var 17% á ársgrundvelli í febrúarmánuði og 22% eða svo í janúarmánuði og ég þekki engan mann sem spáir því að verðbólgan muni á næstu mánuðum verða minni en þetta að meðaltali. Auðvitað er óhjákvæmilegt, eins og hæstv. sjútvrh. sagði, að við þau skilyrði sem við búum við núna fari launahækkanir út í verðlagið og auðvitað hlýtur það að hafa áhrif til hækkunar á verðbólgunni ef áfram heldur eins og gerst hefur síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum í septembermánuði að gengið sé fellt stundum mánaðarlega eða til jafnaðar á tveggja mánaða fresti. Ég sé ekki hæstv. fjmrh. hér í salnum. ( Forseti: Það er verið að leita að hæstv. fjmrh.) Ég er mjög ánægður yfir því ef hægt er að fresta fundi til kl. 1 og þá get ég haldið áfram ræðu minni. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að það hefur orðið niðurstaða samninga við þingmenn Sjálfstfl. að að ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. lokinni eða hvort hann kýs að fresta henni verði gert fundahlé til kl. 1, en þá kemur hæstv. sjútvrh. til þings.) Ég kýs að fresta henni.