Staðan í kjaramálum
Mánudaginn 10. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Þessar umræður hér í dag bera því órækt vitni að skoðanir eru mjög skiptar um þann kjarasamning sem nú hefur verið gerður milli BSRB og ríkisins.
    Ég ætla að taka þrjú dæmi um viðhorf í þessu máli. Öll þessi viðhorf hafa komið hér fram í umræðunum í nokkuð ólíkum myndum og í mismiklum mæli. Af því að hér var minnst á dagblaðalestur ætla ég að byrja á því að vitna í dagblaðið Morgunblaðið, sunnudagsblaðið nánar til tekið, en þar segir borgarstjórinn í Reykjavík í viðtali við blaðið og, með leyfi hæstv. forseta, vitna ég til hans ummæla orðrétt:
    ,,Við erum mjög ánægðir og teljum að BSRB hafi sýnt mikla ábyrgðartilfinningu með þessum kjarasamningum. Það má segja að það blasi við að BSRB sætti sig við þá kjaraskerðingu sem orðin er og sætti sig jafnframt við það að kjaraskerðingin muni aukast nokkuð á þessu ári. Ég tel þetta eðlilega og ábyrga afstöðu miðað við þjóðfélagsástandið.`` Hér með lýkur tilvitnun í ummæli borgarstjórans í Reykjavík, Davíðs Oddssonar.
    Í sama blaði er svo ritstjórnargrein og Reykjavíkurbréf sem er nokkurs konar ritstjórnargrein líka og, með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að vitna í hvort tveggja, en það hefur reyndar verið vitnað í þetta Reykjavíkurbréf hér fyrr í umræðunum af hv. 7. þm. Reykn. Í leiðaranum segir svo: ,,Þeir menn sem að þessum samningum standa eru að gera grimmustu atlögu að íslensku atvinnulífi sem gerð hefur verið um langt árabil.`` Og í Reykjavíkurbréfinu segir: ,,Vitlausustu samningar sem gerðir hafa verið um langt árabil.`` Maður spyr sig náttúrlega hvort verið sé að vega að borgarstjóranum í Reykjavík eða að hverjum þessi gagnrýni beinist.
    Þá kem ég að þriðja viðhorfinu í þessu máli og það mætti kannski segja að það hafi komið fram hjá málshefjanda og hv. 6. þm. Vesturl. sem virtust telja að samningarnir við BSRB gengju ekki nógu langt til þess að bæta kjör starfsmanna ríkisins og, eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Vesturl., að þessir samningar virtust reistir á nokkurri svartsýni. Það væri óhætt fyrir ríkið svona annað veifið að sýna nokkra bjartsýni í kjarasamningum.
    Hvernig á nú að gera þetta dæmi upp? Hvað er rétta skoðunin á þessum kjarasamningum? Hver skyldi veruleikinn vera? Ætli hann sé ekki einfaldlega sá að með þessum samningi hafi fundist sú minnsta breyting á peningalaunum sem BSRB gat sætt sig við og jafnframt sú hámarksbreyting sem hægt var að ná til þess að bæta hlut hinna tekjulægstu í hópi opinberra starfsmanna og samrýmst gat forsendum fjárlaganna. Þetta var niðurstaðan úr því dæmi. Og nú er verkefnið að sjálfsögðu það að finna lausn í kjaramálum á almenna vinnumarkaðnum eftir sömu hugsun, en auðvitað ekki með nákvæmlega sömu launabreytingartölum því að þar er um annars konar launakerfi að ræða. Þar verður að finna lausnir sem henta þeim aðstæðum sem þar ríkja.

    Það er auðvitað rétt að opinberir starfsmenn eru svo stór hópur í nútímaþjóðfélagi að það verður ekki endalaust hægt að leysa þeirra kjaramál með einfaldri tilvísun til þess að þeir hljóti að taka við því sem um semst annars staðar. Auðvitað er það rétt skoðun að kjaramál í samfélaginu ráðast á endanum af því hverju atvinnuvegirnir fá undir risið. En það leiðir líka af eðli máls og frjálsum samningsrétti að stundum hljóti svo að fara að samningur við kannski þann fimmtung eða fjórðung af heildarmannaflanum sem starfar hjá því opinbera og ekki hefur alltaf beina samsvörun við það sem gerist á almenna markaðnum, að þar verði stundum gerðir samningar óháð því sem gerist á hinum almenna markaði. Ef þetta væri ekki hægt væri hinn frjálsi samningsréttur fyrir þetta fólk hrein blekking. Það getur auðvitað ekki staðist við okkar skilyrði og þarna er það líka svo að því miður, og ég endurtek, því miður lentu samningarnir á almenna markaðnum í algjöru aðgerðarleysi sem er mikið vandamál. Ég ætla ekki að rekja það hvers vegna það gerðist. Það var því úr vöndu að ráða hvort það aðgerðarleysi, sá drómi sem þetta hafði verið í drepið, átti líka að hafa þau áhrif að spilla fyrir samkomulagi á þeim hluta vinnumarkaðarins sem er hjá hinu opinbera.
    Það er greinilegt að aðaláhugamál fólksins í Alþýðusambandsfélögunum og sérstaklega í Verkamannasambandsfélögunum eru atvinnuöryggi og kjarajöfnun. Og þeir samningar sem nú þarf að gera á þeim hluta vinnumarkaðarins eiga að hafa þetta að leiðarljósi. Við þurfum að leita leiða --- og það fólk sem þar starfar er að leita leiða --- til þess að vernda hlut fiskverkafólksins og iðnverkafólksins á raunsæjan hátt. Og þá dugir best, að mínu áliti, endurskipulagning á rekstri og fjárhag sjávarútvegsins og reyndar iðnaðarins líka. Það er margsannað mál að gengisbreyting er engin allsherjarlausn á þeirra vanda eins og hv. þm. vita mætavel þótt þeir vitni stundum til þeirrar leiðar í málflutningsæfingum eins og hér hafa farið fram.
    Samningarnir um lífskjörin verða ekki gerðir hér úr þessum ræðustól. Ég vek athygli á því að við gerð þessara kjarasamninga við opinbera starfsmenn var ekki gefin nein yfirlýsing um fast gengi á samningstímanum eða óbifanlega verðstöðvun. Hvers vegna var það ekki gert? Einfaldlega af því að það er ekki
hægt að gefa slíkar yfirlýsingar í kjarasamningum við eina stétt og ekki einu sinni við þær allar.
    Þetta eru aðalatriðin í þessu máli. Ég tel að í raun og veru hafi þessum degi ekki verið vel varið vegna þess að hann hefur ekki snúist um þessar einföldu staðreyndir og spurninguna: Hvernig komumst við af með sem minnstar breytingar peningalauna við þær aðstæður sem nú ríkja? Hvernig getum við leiðrétt kjör þeirra sem hafa erfiðust kjör, lakastan hlut, án þess að steypa hér öllu í kollsteypum, gengisbreytingum og stöðugum verðhækkunum? Þeir þingmenn sem vilja taka þátt í lausnum sem hafa þetta að leiðarljósi ættu að koma fram með þær

ábendingar fremur en að elta hér hæstv. sjútvrh. með spurningum um gengið þegar hann lætur hér í ljós augljósa hluti, þetta er ekki tilefni til þess að elta hann hér með spurningum.
    Auðvitað er það svo við þær aðstæður þegar þjóðartekjurnar skreppa saman annað árið í röð að þá er ekki neinu út að deila. Hins vegar verður jafnan tekjuskiptingarvandi þegar svona ber upp á. Og hann erum við nú að leysa með sem minnstri verðbólgu. Það er verkefnið. Það er ekki stuðlað að lausn þess með þeim tillöguflutningi sem hér hefur heyrst.
    Ég vil taka það fram vegna spurninga sem til mín hefur verið beint að samkeppnisiðnaðurinn stendur ekki þannig nú að hann geti bætt kjör sinna starfsmanna svo neinu nemi. Því miður. En ég tel líka að hann verði nú að leita samninga, og fólkið sem þar starfar, með sama hugarfari og samningar tókust hjá opinberum starfsmönnum við þær aðstæður sem hér ríkja. Í því getur ekki falist nein trygging fyrir því að aldrei þurfi að koma til breyting á verði eða gengi. Það er staðreynd í málinu að það getur enginn gefið slíkar yfirlýsingar. Hitt er annað mál, og það er rétt að benda á það, að það er kannski ástæða til þess að rifja upp að frá því um áramótin 1987--88, hefur verð á bandaríkjadollar hækkað um hartnær 50% á sama tíma og launin í landinu hafa hækkað fram að kjarasamningum um svona 14--15%, í sumum tilfellum 16--17%. Þarna hefur orðið svo mikil breyting á rekstrarskilyrðum að nú sjást víða merki um það að reksturinn sé léttari. En á eftir hafa menn að draga skuldahala frá taprekstri fyrri ára sem er mörgum fyrirtækjum mjög þungur í skauti.
    Ég vil ekki taka undir það sem fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv. að það væri augljóst mál að iðnaðurinn hefði orðið fyrir meiri skakkaföllum og búsifjum á undanförnum missirum en sjávarútvegurinn. Það tel ég ekki rétta skoðun. Það er að vísu rétt að núna síðustu mánuðina hefur margt verið iðnaðinum mjög erfitt en hann varð ekki fyrir sömu áföllum í fyrra eins og sjávarútvegurinn, en hafði reyndar ekki notið uppgripa eins og sjávarútvegurinn árið þar á undan. Þetta dæmi held ég að sé ekki auðvelt að gera upp til einnar tölu, en þó er mín skoðun sú að þau rekstrarskilyrði, sem dygðu sjávarútveginum nú, mundu vel duga iðnaðinum. Ég ætla ekki að draga af þessu neinar frekari ályktanir. Hæstv. sjútvrh. hefur þegar skýrt það að ætla má að féð sem ætlað er til þess að greiða verðuppbætur úr Verðjöfnunarsjóðnum endist að óbreyttum skilyrðum til miðs árs eða eitthvað þar um bil. Það er ekki á vísan að róa í framhaldinu. Það eru ýmis teikn á lofti að mínu áliti um það að þar geti vænkast hagur okkar og viðskiptakjör sjávarútvegsins. En af því verða engar fastar ályktanir nú dregnar. Þaðan af síður nokkur loforð gefin önnur en þau að takast á við þennan vanda án þess að ætla sér að leysa hann fyrir fram með þeirri skipulagshyggju sem mér virðist einkenna fyrirspurnir hv. þm. stjórnarandstöðunnar.