Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Frsm. félmn. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á þskj. 763 frá félmn.
    Nefndin hefur fjallað vandlega um frumvarpið á mörgum fundum og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Nefndin fagnar þeirri samstöðu sem náðst hefur um afgreiðslu þessa mikilvæga máls, jafnt meðal stjórnmálaflokkanna og sveitarfélaganna í landinu, sem sést meðal annars á þeim eindregna stuðningi sem kom fram við frv. á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga á Akureyri 30. og 31. mars sl.
    Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, hreppsnefnd Miðneshrepps, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Fóstrufélagi Íslands, fulltrúaráði sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði, bæjarstjórn Neskaupstaðar, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, bæjarráði Keflavíkur, bæjarstjórn Grindavíkur og hreppsnefnd Gerðahrepps. Þá komu á fund nefndarinnar Sigurgeir Sigurðsson, formaður stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og Áskell Einarsson og Hjörtur Þórarinsson frá landshlutasamtökum sveitarfélaga. Jafnframt héldu félagsmálanefndir beggja deilda fund með stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Með nefndinni störfuðu Húnbogi Þorsteinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, og Ingimundur Sigurpálsson bæjarstjóri.
    Nefndin flytur 14 brtt. við frv. og eru langflestar þeirra fluttar að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Verður hér gerð grein fyrir þessum breytingum í sömu röð og þær eru á þingskjalinu.
    1. Brtt. við 1. gr. felur ekki í sér efnisbreytingu, heldur er verið að gera orðalag greinarinnar skýrara. Í fyrsta lagi er verið að kveða skýrar á um að ríkið greiði að fullu stofnkostnað stofnana fyrir fatlaða. Í öðru lagi er einnig verið að kveða skýrar á um að sveitarfélög greiði stofnkostnað sérdeilda fyrir fatlaða á dagvistarstofnunum fyrir börn.
    2. Brtt. við 2. gr. felur í sér að sérstök flutningaþjónusta fyrir fatlaða skuli greidd úr ríkissjóði en ekki af rekstrarfé viðkomandi stofnunar eins og gert er ráð fyrir í frv.
    3. Brtt. við 4. gr. felur í sér, í fyrsta lagi, að 85% kostnaðar við byggingu og búnað heilsugæslustöðva skuli greidd úr ríkissjóði en 15% af hlutaðeigandi sveitarfélögum. Í frv. voru hlutföllin 60% og 40%. Meginástæðan fyrir þessari breytingu er að sveitarfélögin eru misjafnlega á vegi stödd í
uppbyggingu heilsugæslustöðva og því er talið rétt að halda óbreyttri kostnaðarskiptingu enn um sinn. Í öðru lagi er kveðið á um að sveitarfélögin láti í té lóðir undir heilsugæslustöðvar ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalda. Er það í samræmi við þá aðferð sem viðhöfð hefur verið undanfarin ár en á síðasta ári komu upp efasemdir um að það

styddist við nógu traustar lagaheimildir og er því talið rétt að setja ákvæði í lög er tekur af öll tvímæli í þessum efnum.
    4. Brtt. við 5. gr. felur í sér að viðhaldskostnaður fasteigna og tækja heilsugæslustöðva er greiddur sem rekstrarkostnaður en ekki stofnkostnaður. Er þessi breyting í samræmi við viðtekna venju. Nefndin taldi hins vegar ekki rétt að endurnýjunarkostnaður fasteigna og tækja skyldi greiddur sem rekstrarkostnaður því að oft er hér um svo viðamiklar breytingar að ræða að þær jafnast á við stofnkostnað.
    5. Brtt. við 6. gr. varðar stjórnir heilsugæslustöðva. Lagt er til að sveitarstjórnir tilnefni þrjá stjórnarmenn í stað tveggja samkvæmt frv. og að starfslið tilnefni einn stjórnarmann í stað tveggja samkvæmt frv. Talið er rétt að sveitarstjórnir hafi áfram meiri hluta í stjórnum heilsugæslustöðva þó að ríkið taki alveg yfir rekstur þeirra, enda skipar ráðherra einn stjórnarmann sem jafnframt skal vera formaður. Þá er og rétt að hafa í huga að oft sitja sérstakir áheyrnarfulltrúar starfsfólks stjórnarfundi.
    6. Lagt er til að 7. gr., er varðar skipan stjórna sjúkrahúsa, falli brott. Ástæðan er m.a. sú að ekki náðist fullkomin samstaða um fyrirhugaðar breytingar, einkum er varðaði skipan stjórna einkasjúkrahúsa eða sjálfseignarstofnana. Eðlilegra er talið að ef gera á breytingar á skipan stjórna sjúkrahúsanna þá verði þær gerðar í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu sem nú eru í undirbúningi í heilbr.- og trmrn.
    7. Brtt. við 8. gr. varðar sjúkrahúsbyggingar og felur í sér sams konar breytingu og gerð var við 4. og 5. gr. varðandi heilsugæslustöðvar.
    8. Brtt. við 35. gr. felur í sér tvær breytingar. Í 1. mgr. er gerð breyting er þýðir að ekki þurfi að koma til samþykki menntamálaráðuneytis fyrir gerð skólamannvirkja. Telja verður að þar sem sveitarfélög greiða kostnað við byggingu grunnskóla (sbr. 49. gr. frv.) þá sé ekki ástæða til að slíkar byggingar þurfi samþykki menntmrn. Þá er 4. mgr. felld niður en ákvæði hennar fól í sér að nafngift skóla væri háð samþykki menntmrn. Telja verður að heimamenn séu fullfærir um að ákveða slíka hluti sjálfir.
    9. Brtt. við 1. mgr. 41. gr. felur í sér að fellt er brott ákvæði þess efnis að daglegt eftirlit og umsjón með nemendum í heimavistarskólum skuli vera í höndum starfsmanna með uppeldismenntun. Stundum getur verið erfitt að fá slíkt sérmenntað fólk til starfa og því ekki eðlilegt að binda starfið að öllu leyti við slíkar starfsstéttir.
    10. Brtt. við 3. mgr. 47. gr. felur í sér að þar sem fleiri sveitarfélög en eitt standa að rekstri grunnskóla skuli hlutaðeigandi sveitarstjórnir, í stað oddvita, tilnefna fulltrúa sameiginlega til að endurskoða reikninga skólans. Þykir eðlilegra að þetta sé í höndum sveitarstjórna en oddvita.
    11. Brtt. við 49. gr. felur ekki í sér beinar efnisbreytingar heldur er verið að gera orðalag greinarinnar skýrara.
    12. Brtt. við 50. gr. felur ekki í sér beinar

efnisbreytingar. Orðalag greinarinnar hefur verið gert ákveðnara og greinin stytt enda var hún óþarflega löng.
    13. Brtt. við 60. gr. felur í sér að fellt er brott að menntmrn. skuli hafa með höndum umsjón og eftirlit með dagvistarstofnunum. Þar sem dagvistarstofnanir verða nú verkefni sveitarfélaga þykir það fela í sér óþarfa afskipti af hálfu menntmrn. að það skuli hafa sérstakt eftirlit með þessari starfsemi. Hins vegar stendur óbreytt ákvæði greinarinnar að ráðuneytið sé sveitarstjórnum til ráðuneytis um þessi mál. Þrátt fyrir þessa breytingu mun menntamálaráðuneytið (sbr. 11. gr. laga um dagvistarstofnanir) áfram setja reglugerð um húsakost og búnað dagvistarstofnana.
    14. Við 75. gr., er fjallar um kostnaðaruppgjör milli ríkissjóðs og sveitarfélaga, eru fjórar breytingar. Í fyrsta lagi kemur í 1. mgr. viðbótarákvæði sem felur í sér að við mat á skuldbindingum ríkissjóðs vegna byggingar dagvistarheimila, grunnskóla, íþróttamannvirkja og félagsheimila skuli ekki aðeins miða við núgildandi lagaákvæði um hlutdeild ríkissjóðs í byggingarkostnaði heldur einnig sérsamninga sem gerðir hafa verið við einstök sveitarfélög um skólamannvirki.
    Í öðru lagi er sú breyting gerð í 2. mgr. að framlög ríkissjóðs á fjárlögum 1989 ganga ekki til greiðslu á skuldum vegna framkvæmda sem unnar voru fyrir árslok 1988, heldur eingöngu til framkvæmda á árinu 1989.
    Í þriðja lagi er í 3. mgr. sett ákvæði um sérstaka úrskurðarnefnd sem skjóta má til málum í þeim tilvikum sem ekki næst samkomulag milli ríkissjóðs og sveitarfélaga um kostnaðaruppgjör skv. 1. og 2. mgr. Ekki er ólíklegt að einhver ágreiningur verði um kostnaðaruppgjör og því eðlilegt að hægt sé að
skjóta slíkum málum til einhvers úrskurðaraðila.
    Í fjórða lagi eru í 4. mgr. tekin af öll tvímæli um að greiðslu ríkissjóðs vegna áðurgreindra framkvæmda skuli lokið á því fjögurra ára tímabili sem tilgreint er í frv.
    Júlíus Sólnes áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma, en aðrir nefndarmenn skrifa undir án nokkurs fyrirvara.
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í áliti nefndarinnar náðist samstaða meðal nefndarmanna um þær brtt. sem hér eru fluttar. Nefndin lagði mikla vinnu í að fá álit sem flestra inn á sitt borð og þó svo að ég hafi talið upp í nál. þá sem komu á fund nefndarinnar er langt í frá að þar sé um tæmandi lista að ræða. Hver nefndarmaður leitaðist við að fá sem mesta og besta þekkingu á málinu og hafa samráð við þá sem hlut eiga að máli, vinna verkið sem best, enda hluti nefndarmanna ýmist fyrrverandi eða núverandi sveitarstjórnarmenn.
    Sveitarstjórnarmenn um land allt hafa fylgst af áhuga með vinnu nefndarinnar og verið ásamt fulltrúum Sambands ísl. sveitarfélaga boðnir og búnir til að greiða fyrir framgangi málsins og kunna nefndarmenn þeim og öðrum sem aðstoðuðu nefndina bestu þakkir fyrir. Fyrir ári síðan þegar frv. sama

efnis og það sem hér er til umfjöllunar var lagt fram strandaði afgreiðsla málsins í þinginu. Ýmsir þeir þættir sem þá var einna mestur ágreiningur um hafa nú verið lagfærðir. Mestu varðaði þó að menn óttuðust að ekki væri gengið tryggilega frá tekjustofnum sveitarfélaga og svo uppgjörsmálum milli ríkis og sveitarfélaga og þar gegnir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga ekki svo litlu hlutverki. Ég tel því rétt að fara örfáum orðum um þær breytingar sem áætlaðar eru og eins og þær koma fram í drögum að reglugerð um Jöfnunarsjóðinn og nefndarmenn félmn. hafa fengið í hendur, þó svo að það tilheyri e.t.v. frekar umræðu um frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga sem verður hér á eftir. Þessi mál eru svo nátengd að erfitt er að setja strik þar á milli, hvað á heima við hvora umræðu.
    Það hefur verið þannig að meginhluta ráðstöfunarfjár Jöfnunarsjóðsins hefur verið varið til almennra framlaga sem hafa verið sama krónutala á alla íbúa hver sem staða sveitarfélaganna hefur verið. Til svokallaðra aukaframlaga hefur aðeins verið varið um 6% af ráðstöfunarfé sjóðsins og hefur þessi upphæð gengið til tekjujöfnunar milli sveitarfélaganna. Í frv. um tekjustofna sveitarfélaga er lagt til að almennu framlögin falli niður en að meginhluti tekna sjóðsins gangi til að greiða sveitarfélögum framlög vegna breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og til jöfnunarframlaga. Á sl. ári voru
aðeins um 80 millj. kr. til ráðstöfunar til jöfnunarframlaga en átti að vera um fimm sinnum hærri upphæð eða tæpar 400 millj. kr. Nú er ætlunin að hluti af þessari upphæð gangi til sveitarfélaga sem skortir tekjur til að halda uppi þeirri þjónustu sem eðlilegt má telja að sveitarfélag af þeirri stærð veiti, þ.e. til útgjaldajöfnunar. Þessi framlög mundu einkum ganga til minni þéttbýlissveitarfélaganna. Í reglugerðardrögum er gert ráð fyrir að reynt sé að meta þjónustustig sveitarfélaganna og greiðslur þessar miðaðar við það. Verkaskiptaframlögin munu hins vegar fyrst og fremst ganga til dreifbýlissveitarfélaga til að bæta þeim upp aukinn kostnað sem þau verða fyrir vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Það er auðvitað mjög þýðingarmikið að tryggt sé að þessi sveitarfélög verði ekki verr sett en áður. Ef bornar eru saman kostnaðartölur frá menntmrn. og þær tölur sem gert er ráð fyrir að verja til þessa verkefnis virðist mér vera allvel fyrir þessu séð. Auk þess vil ég benda á ákvæði 16. gr. frv. um tekjustofna sveitarfélaga en þar segir að framlögin skuli miðuð við að hagur þessara sveitarfélaga verði ekki lakari eftir breytingar á verkaskiptingunni en áður var. Þetta tel ég mjög þýðingarmikið.
    Eitt af vandamálum við úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóðnum er að ákveða hvaða kröfur á að gera um nýtingu tekjustofna sveitarfélaganna. Í reglugerðardrögum er gert ráð fyrir að félmrn. gefi út í nóvember ár hvert í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga reglur um þessa nýtingu tekjustofna. Ég held að þetta sé mjög góð leið. Það er mjög erfitt að binda þessar reglur fastar til margra ára, en hins vegar

er alveg nauðsynlegt að þær liggi fyrir árlega þegar sveitarfélögin undirbúa fjárhagsáætlanir sínar.
    Rétt er að benda á að samkvæmt frv. um tekjustofna og þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar varðandi útsvörin fá sveitarfélögin verulega rýmkun og aukið ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sinna. Þess vegna kemur auðvitað ekki til greina að setja fullnýtingu tekjustofna sem skilyrði fyrir framlögum úr Jöfnunarsjóði. Þá er einnig rétt að undirstrika þá breytingu að tillögur að úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóðnum verða nú í höndum nefndar þar sem fjórir af fimm nefndarmönnum verða tilnefndir af Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Félmrn. hefur sent Sambandi ísl. sveitarfélaga og dreifbýlisnefnd sambandsins reglugerðardrögin til umfjöllunar og ég efast ekki um að ráðuneytið muni fara að tillögum þessara aðila varðandi endanlega gerð reglugerðarinnar og tryggja hag þeirra sveitarfélaga sem verst eru sett og
minnsta getuna hafa til að takast á við þau verkefni sem hér er lagt til að færist yfir á þau.
    Virðulegi forseti. Eins og áður er fram komið hefur mikil vinna verið lögð í að samræma og koma til móts við þau sjónarmið sem fram hafa komið í viðræðum nefndarmanna við þá aðila sem hlut eiga að þessu máli. Það hefur lengi verið áhugamál sveitarstjórnarmanna og reyndar þeirra sem fara með málefni ríkisins að koma á hreinni línum í verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.
    Hér liggur fyrir frv. sem ekki er aðeins spor í rétta átt, heldur að samþykktum þeim brtt. sem nefndin leggur til nýtur stuðnings fulltrúa beggja aðila og fulltrúar í félmn. hafa náð samstöðu um. Ég legg því eindregna áherslu á að frv. þetta fái hér fljóta afgreiðslu og að ekkert verði til að tefja málið lengur en orðið er.