Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Ég hygg að það sé fagnaðarefni okkar allra sem eigum hér sæti í þessari virðulegu deild að þessum málum um verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga skuli þó hafa skilað fram nú sem horfir. Það er svo annað mál að auðvitað er ýmislegt við þessa afgreiðslu að athuga og sjálfsagt væri mjög erfitt að hugsa sér að hér væri frekar en um önnur verk um gallalausa tillögugerð að ræða. Það sem er langsamlega mikilvægast er það að hér er um dreifingu valds að ræða. Það eru fluttar til ákvarðanir í þjóðfélaginu. Öll höfum við orðið vitni að því að uppi eru háværar raddir um að auka valddreifingu, m.a. hefur komið inn í þá umræðu tillögugerð um þriðja stjórnsýslustigið. Ég lýsi því alveg sérstaklega yfir hér að ég tel það vera mikilvægt að hér er í rauninni gengið lengra. Valdið er fært beint heim í sveitarfélögin til sveitarstjórnanna sjálfra sem fólkið þar velur til forustu.
    Hins vegar get ég ekki leynt því að það fylgja frá minni hendi vonbrigði gagnvart smæstu sveitarfélögunum í landinu. Það er alveg augljóst mál að mörg sveitarfélög fá betri kost en þau hafa áður haft, t.d. þéttbýlissveitarfélög úti á landi, og því ber vissulega að fagna. En litlu sveitarfélögin, sveitarhrepparnir, fá ekki betri kost en þeir höfðu áður. Það eru gerðar ráðstafanir til þess að auka tekjur þéttbýlissveitarfélaganna en aftur á móti ekki sveitarhreppanna.
    Það er reyndar yfirlýst að því eigi að mæta með auknu framlagi eða aðgangi úr sérstakri deild Jöfnunarsjóðs. Það er út af fyrir sig gott svo langt sem það nær en ekki skal ég segja um það hvað menn muna lengi eftir því og víst er að hér á borðum þingmanna hefur verið dreift þingskjölum þar sem mjög er gengið gegn hagsmunum einmitt þessa fólks. Það er þá spurningin hvort það kunni ekki að gleymast eins og ýmislegt annað þegar til alvörunnar kemur.
    Í almennu orðalagi sem m.a. hv. framsögumaður viðhafði hér áðan má skilja svo að um það séu gefin fyrirheit að afkoma og aðstæður þessara sveitarfélaga eigi ekki að versna frá því sem verið hefur. En hvers vegna skyldi ekki aðstaðan þar, fólksins sem heldur uppi dreifðri sveitabyggð, hvers vegna skyldi aðstaðan þar ekki mega batna og hvers vegna skyldu menn ekki alveg eins hafa getað gefið yfirlýsingar um það að aðstaða þeirra sveitarfélaga skyldi batna til jafns við það sem almennt gerðist við þessar breytingar, fyrst menn eru á annað borð að gefa yfirlýsingar?
    Það liggur að sjálfsögðu ljóst fyrir, og ég hef reyndar heyrt þær skýringar í þessu sambandi, að þjónustan úti í dreifbýlissveitarfélögunum geti eðli sínu samkvæmt ekki orðið jafnvíðtæk og í þéttbýlinu og það má út af fyrir sig til sanns vegar færa. En þá kem ég að öðru atriði sem er afar mikilvægt í þessum efnum og það er: Er það sjálfsagður hlutur að ganga út frá því? Það held ég að sé ekki. Ég þekki sem betur fer mörg lítil sveitarfélög sem hafa einmitt verið að bæta þjónustu við íbúana á síðustu árum, stórbæta

þjónustuna, fyrir utan það sem gengur svo til sameiginlegra verkefna innan vissra byggðasamfélaga. Ég hlýt að vekja athygli á þessu.
    Það eru harðir kostir á sama tíma og menn eru með sífelldar yfirlýsingar um að styrkja og efla byggðina, um byggðastefnu, og hvað sem menn kunna nú að kalla þau fyrirheit við hátíðleg tækifæri, að þá skuli ekki vera litið af meiri sanngirni til smæstu sveitarfélaganna í landinu heldur en hér er gert.
    Ég þarf kannski út af fyrir sig ekki að draga orð framsögumanns í efa að því leyti að aðstaða þeirra muni ekki versna frá því sem verið hefur, en hún batnar ekki til samræmis við það sem gerist við nágrannabyggðirnar. Það er náttúrlega ámælisvert, af því að það er nú alltaf verið að tala um forréttindi sveitafólksins, að ekki skuli í neinu vera metin þau framleiðsluverðmæti sem þar er aflað. Þau eru skattlögð og þjónustan við þau er skattlögð í þéttbýlinu en ekki í dreifbýlinu. Og það er að sjálfsögðu engin breyting í þeim efnum hér.
    Þrátt fyrir þessi varnaðarorð geri ég mér það alveg ljóst að hér verði ekki gerðar breytingar á meðferð mála. Það hafa komið hér fram mjög eindregnar óskir um það að þetta mál gangi hér í gegnum þingið án nokkurrar minnstu tafar. Má af því sjá að nefndarmenn eru harla ánægðir með sína vinnu og ég reyndar veit og efa ekki að þar hefur verið vel til verka vandað. En af því leiðir að sjálfsögðu að þetta mál hlýtur að ganga fram og megintilgangurinn, þ.e. valddreifingin og sjálfsforræði sveitarfélaganna, er vissulega gífurlega mikið atriði og enginn vegur að meta það ekki sem grundvallarmarkmið núna við afgreiðslu málsins. Enda er það nú svo, og það hafa gengið ýmsar yfirlýsingar um það á síðustu vikum og mánuðum, að hægt væri í framhaldi af þessum breytingum að gera lagfæringar síðar meir. Auðvitað verða menn að treysta á almenn sanngirnisviðhorf í þessum efnum þó að þeirra sé ekki gætt að þessu sinni gagnvart smæstu sveitarfélögunum eins og eðlilegt og sjálfsagt hefði verið.