Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og fyrri ræðumenn hér í dag lýsa miklum stuðningi við frv. og ég fagna víðtæku samstarfi og samvinnu sem náðst hefur um frv. á milli stjórnmálaflokka, sveitarfélaga og annarra þeirra aðila sem við höfum leitað til, þó að sjálfsögðu séu þarna nokkur atriði sem menn greinir nokkuð á um en ég held að séu í raun ekki stórvægileg.
    Ég vek athygli á því að við erum væntanlega að nálgast lok á máli sem búið er að vera í gangi í meira en áratug, barátta sveitarfélaga fyrir því að starfssvið þeirra verði skýrar afmörkuð en er í núverandi löggjöf og það sé skýrt afmarkað hvert sé verksvið ríkisvaldsins og sveitarstjórna. Það hefur reyndar margkomið fram í öllum okkar umsögnum og reyndar þeim fundarhöldum sem við höfum átt með fulltrúum sveitarfélaga og Sambands ísl. sveitarfélaga að hér er komin niðurstaða sem náðst hefur mikil breiðfylking um.
    Ég tek ekki undir áhyggjur annarra um að tónlistarfræðslu verði ekki jafnvel sinnt og verið hefur. Ég held að menn megi ekki gleyma því að framlag ríkissjóðs til tónlistarskólanna hefur í raun ekki verið afskaplega mikið. Það hefur borgað til baka helminginn af launagjöldum tónlistarskólanna. Allur rekstrarkostnaður annar, helmingur launagjaldanna og allur stofnkostnaður hefur verið greiddur af sveitarfélögunum sjálfum og allt frumkvæði hefur verið heima í sveitarfélögunum, oftast vegna þess að í því sveitarfélagi hefur sem betur fer fundist einhver eldhugi sem hefur komið því starfi í gang.
    Sama gildir í raun um dagvistarheimilin. Það er að sjálfsögðu í lögum áfram ákvæði um að menntmrn. í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga setji reglugerð um lágmarksbúnað og húsnæði fyrir slíkar stofnanir og ég held að það sé alveg ljóst, a.m.k. í mínum huga og hef ég nokkra reynslu af því, að sveitarstjórnirnar eru miklu betur hæfar til að meta þörf fyrir slíka starfsemi á hverjum stað og það er nú einu sinni svo að óskir íbúanna ná fyrr til sveitarstjórnarmanna en kannski hingað inn til okkar á löggjafarsamkomunni.
    Þar að auki er ljóst að þessi atriði eru partur í því heildarsamkomulagi sem fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga hafa náð við stjórnvöld um hvernig þessari verkaskiptingu skyldi komið fyrir og ef við færum að bakka út úr því með einstaka slíka liði er í raun og veru allur pakkinn kominn til umræðu aftur. Ég tek því ekki undir þessar áhyggjur en fagna þeirri samstöðu sem við höfum náð um þetta mál og vona að því ljúki á þessu þingi og reyndar treysti á það.
    En það er eitt atriði sem athygli mín hefur verið vakin á eftir að nefndin lauk störfum og þess vegna óska ég eftir því að félmn. hittist milli 2. og 3. umr. Það er í sambandi við 27. gr. þar sem rætt er um að eignir sjúkrasamlaga skuli renna til Tryggingastofnunar ríkisins og skuli þær nýttar fyrir umboðsskrifstofu Tryggingastofnunar ríkisins. Nú er það svo að við erum nýbúin í þessari hv. deild að afgreiða frá okkur frv. til l. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði og í því er m.a. gert ráð fyrir að sýslumenn

verði meiri framkvæmda- eða stjórnsýsluaðilar en þeir hafa verið. Það virðist hafa vakið nokkrar áhyggjur hjá ýmsum aðilum að þegar rætt er um að eignir Tryggingastofnunar skuli renna til umboðsskrifstofa Tryggingastofnunarinnar sé verið að gefa undir fótinn með að það eigi að fara að stofna sjálfstæðar umboðsskrifstofur víða um land og taka þessi störf af sýslumönnum þar sem það er í dag.
    Ég held, og ég hef haft samráð um það við menn bæði í heilbrmrn. og dómsmrn., að í raun væri ástæðulaust að hafa seinni hluta setningarinnar inni og setningin væri bara ,,eignir sjúkrasamlags skulu renna til Tryggingastofnunar ríkisins``. Það er til að forðast þann misskilning, sem virðist hafa komið inn hjá mörgum, að við séum að gefa undir fótinn með að það verði stofnaðar sjálfstæðar umboðsskrifstofur og þá kannski á öðrum stöðum en reynslan hefur komið þeim fyrir á.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að tefja þessa umræðu frekar, vona bara að sú samstaða sem við náðum í þessari hv. deild um afgreiðslu á þessu máli komi líka fram í afgreiðslu Nd.