Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Herra forseti. Ég fagna eins og aðrir að frv. um verkaskipti er komið það langt sem raun ber vitni og tel að haldið hafi verið vel á málum um framgang málsins og þakka sérstaklega formanni og varaformanni fyrir að stýra nefndarstörfum og því fólki sem kom að því að vera til aðstoðar í þeim efnum.
    Þetta frv. er ávöxtur af mikilli vinnu, árangur af mikilli vinnu sem hefur ekki staðið skemur en um tveggja áratuga skeið og ég minni á að það eru sveitarfélögin sem hafa mjög sótt á um að þessi skipti geti átt sér stað, lagt á það mjög ríka áherslu að það takist að afgreiða þessa hluti. Og ekki síst þau sveitarfélög sem smæst eru. Þau hafa ekki á nokkurn hátt skorið sig úr. Þau hafa verið þess mjög hvetjandi að frv. yrði samþykkt og það segir okkur að þessi sveitarfélög eða forsvarsmenn þeirra telja að hagsmunum þeirra sé vel borgið.
    Sjálfstæði sveitarfélaga eða ábyrgð sveitarfélaga er afskaplega mikils virði og það er mikils virði að ábyrgðin á stjórn sveitarfélagsins sé sem næst fólkinu. Ég tel reyndar að það hefði mátt ganga lengra í ýmsum efnum. Ég tel t.d. að sveitarfélög eigi að vera miklu óháðari því að leggja á gjöld en þau eru í dag, óháðari ríkisvaldinu. Ég tel t.d. að það væri ástæða til þess að atkvæðagreiðsla verði látin fara fram í bæjarfélaginu og ef meirihlutasamþykkt er fyrir ákveðnu verkefni sem á að framkvæma, þá væri leyft að afla fjár til að leysa þetta verkefni án þess að það sé innan ramma útsvarslaganna. Ég veit að sums staðar í Danmörku er það svo að sé aukinn meiri hluti fyrir ákveðnum málum er hægt að nota tekjustofnana til að leysa það verkefni sem í því tilfelli var samþykkt. Við höfum bundið tekjustofna sveitarfélaga á ákveðinn klafa sem hefur náðst sátt um, en ég tel að það hefði mátt gefa sveitarfélögunum meira sjálfstæði. Fari menn illa með þetta sjálfstæði er eðlilegt að þeim sem það gerðu verði vísað frá í næstu kosningum. (Gripið fram í.) Já eða falli. Það var meiningin í því sem ég ætlaði mér að segja.
    Það hefur borið nokkuð á draugagangi í sambandi við frv. Það hafa birst greinar í blöðum og alþm. hafa staðið upp og emjað yfir því að tónlistarfræðslan eigi nú að hverfa eða það eigi að fara mjög illa fyrir henni. Það sem mér þykir verst við þessi sjónarmið er að þau eru byggð á alveg ótrúlegum misskilningi. Sannleikurinn er sá að tónlistarfræðsla í landinu er ekki tilkomin vegna framtaks ríkisins. Hún er tilkomin vegna framtaks einstaklinga sem hafa drifið þessi mál áfram og sveitarfélögin hafa síðan farið í hjólfarið og gert það mjög myndarlega. Ég treysti sveitarfélögunum fyllilega fyrir því að gera þessa hluti enn betur en gert er í dag og ég minni á að það er varið mjög háum upphæðum í þessum skiptum sem verða til þess að auðvelda tónlistarfræðslu í landinu.
    Ég held að þessum málum verði betur komið eftirleiðis en hingað til með þeirri sátt sem gerð hefur verið um þetta mál og í raun og veru hafa sveitarfélögin stjórnað tónlistarfræðslunni. Það hafa

komið smáaurar frá ríkinu til að létta undir en þeir peningar sem nú koma eru meiri en það sem annars hefði verið í óbreyttu skipulagi.
    Varðandi dagvistunarheimilin eru ákvæði um að menntmrn. skuli hafa eftirlit með þessum heimilum. Ég er alveg andvígur því að það verði einhver yfirstjórn þar á rekstri dagheimila. Sveitarfélögin eiga sjálf að sjá um þetta og geta best gert það sjálf og vita best hverjar þarfirnar eru hverju sinni. Við eigum að treysta sveitarfélögunum.
    Ég vænti þess eins og formaður nefndarinnar að það verði ekkert til þess að trufla afgreiðslu þessa máls. Ég hef heyrt hvatningarorð sveitarstjórnarmanna um allt land úr öllum flokkum, hvarvetna, sem vilja hreinsa til, vilja gera skilin skarpari, vilja treysta sveitarfélögunum meira, láta stjórnkerfið nálgast einstaklinginn meira en gerst hefur, móta betra þjóðfélag á þennan veg.