Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Ég hef tekið þátt í störfum hv. félmn. Ed. þar sem við höfum haft þetta frv. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til meðferðar. Ég get sem gamall sveitarstjórnarmaður ekki annað en lýst ánægju minni yfir þeim áfanga sem hefur náðst í þessu mikilvæga máli og ég tel að hér sé stigið skref í rétta átt. Það hlýtur öllum þó að vera ljóst að það er langur vegur til þess að þessi mál séu komin í endanlega höfn. Við þurfum að sjálfsögðu að þróa þessi mál áfram og eflaust verður það alla tíð þannig að það þarf alltaf að vera að gera einhverjar breytingar á hlutverki og skyldum sveitarfélaga og hlutverki og skyldum ríkisins á hinn bóginn.
    T.d. er algjörlega eftir að taka upp umræðu um það á hinu háa Alþingi, þó að það hafi reyndar verið gert áður, hvort við ætlum að taka upp einhvers konar heimastjórnarvald í landshlutunum. Þá þyrfti að aðlaga það þeirri verkaskiptingu sem er milli ríkis og sveitarfélaga samkvæmt þessu frv., en þar á ég við einhvern vísi að þriðja stjórnsýslustiginu þó svo að ég hafi ekki verið því fylgjandi að við færum yfir í þriðja stjórnsýslustigið í öllu þess veldi, ef svo má að orði komast, heldur hef ég verið að reyna að leita leiða til að koma á einhverri einfaldari heimastjórn í landshlutunum sem gæti þá tekið að einhverju leyti við bæði verkefnum, völdum og fjármunum af hálfu ríkisvaldsins.
    Í sambandi við þá umræðu sem fór fram á þinginu í fyrra um þetta sama mál voru skoðanir mjög skiptar og það var talið að frv. eins og það var þá lagt fram einkenndist um of af afstöðu stóru sveitarfélaganna, einkum sveitarfélaganna hér í þéttbýlinu í nágrenni við höfuðborgarsvæðið, og af höfuðborginni sjálfri að sjálfsögðu. Gagnrýni kom þá fram að frv. eins og það þá leit út væri um of sniðið að þörfum og hagsmunum stóru sveitarfélaganna, það yrði hins vegar mjög erfitt fyrir litlu sveitarfélögin úti í dreifbýlinu að taka á sig þau verkefni sem fylgdu í frv. eins og það þá lá fyrir. Nú hefur þetta verið að nokkru leyti lagað og er það vel og sömuleiðis hafa komið til breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga, þ.e. með hvaða hætti jöfnun á mismunandi tekjum og aðstöðu fer fram sem kemur reyndar betur fram í því frv. sem við komum til með að ræða hér á eftir sem er breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
    Eitt hitamál, ég get ekki látið hjá líða að nefna það aðeins, voru blessaðir tónlistarskólarnir og það kann vel að vera að það mál sé ekki enn þá til lykta leitt. Það verði einhver ágreiningur áfram hér við meðferð þessa máls í báðum deildum. Ég skal þó ekki segja. Ég sjálfur er alveg sáttur við þá niðurstöðu, sem hér hefur fengist, að sveitarfélögin greiði laun tónlistarskólakennaranna. Þar hef ég þá reynslu sjálfur að sveitarfélögin eru miklu líklegri til að gera vel við sitt starfsfólk en ríkið þannig að ég mundi nú telja að tónlistarskólakennurum væri betur borgið undir forsjá sveitarfélaganna en undir forsjá ríkisins. Hins vegar skal því ekki leynt að mörg minni sveitarfélög úti á landi hafa haft af því nokkrar áhyggjur hvernig þeim

muni vegna við að reka tónlistarskóla þegar þau eiga sjálf að greiða laun kennaranna. Það er ofur skiljanlegt.
    Þá er eitt atriði sem ég kom sérstaklega inn á þegar við vorum að ræða einmitt þetta sérstaka mál, en það er tónmenntafræðslan sem á að eiga sér stað í grunnskólanum. Sú kennsla hefur verið í molum og henni hefur ekki verið sinnt nægjanlega vel að mínum dómi. Ég hef lýst mig talsmann þess að tónlistarskólarnir og grunnskólinn væru betur tengdir saman. Það mætti vel hugsa sér þá leið að tónlistarskólunum væri falið að sjá um tónmenntafræðsluna í grunnskólunum. Ef það yrði gert þannig að þetta yrði tengt meira saman kæmi vel til greina að tónlistarkennararnir fylgdu þá grunnskólakennurunum í því að þiggja laun hjá ríkinu. Ég vil ekkert útiloka þá lausn. En að svo stöddu tel ég að það sé eðlilegt og rétt að fara þá leið sem frv. gerir ráð fyrir og mun ekki gera neinn sérstakan ágreining út af því hér.
    Ég skrifaði að vísu ekki undir nál. með fyrirvara, en ég áskildi mér rétt til þess að fylgja brtt. ef fram kynnu að koma og sömuleiðis leggja þá fram brtt. sjálfur.
    Ég vil í örstuttu máli skýra hvað vakti fyrir mér þar. Ég hafði fengið ábendingu um, eftir að við höfðum nánast gengið frá málinu og afgreitt það út úr nefndinni, að það væri ástæða til að líta aðeins betur á 16. gr. frv. þar sem er fjallað um sjúkratryggingar og ýmis ákvæði í sambandi við greiðslu á kostnaði vegna þess sem tengist heilsugæslu og sjúkrakostnaði almennt. Í i-lið er fjallað um óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúkratryggðs í sjúkrahús innan lands og með hvaða hætti sjúkratryggingin greiðir sjúkraflutninga yfirleitt. Þar stendur, með leyfi virðulegs forseta: ,,Óhjákvæmilegan flutningskostnað sjúkratryggðs í sjúkrahús innan lands að *y7/8*y hlutum, enda sé flutningsþörf svo bráð og heilsu hins sjúkratryggða svo varið að hann verður ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum. Þó greiðir sjúkratryggður aldrei meira en 1650 kr. Sjúkraflutningar innan bæjar greiðast þó ekki og frá kostnaði við sjúkrabifreið dregst kostnaður vegna fyrstu 10 km. Sömu reglur
skulu gilda um flutning sjúks manns frá sjúkrahúsi til heimilis eða dvalarstaðar, enda verði hann ekki fluttur eftir venjulegum farþegaflutningsleiðum.``
    Ég hef fengið þá ábendingu að sumir sjúklingar, ég nefni sem dæmi flogaveika sjúklinga, geta lent í því að fá kast hvar sem er úti á víðavangi og þurfa að vera fluttir í sjúkrabifreið á næsta sjúkrahús. Þeir lenda þá í öllum tilvikum í því að greiða þennan kostnað sjálfir. Þess vegna hafði ég í huga að koma með brtt. þess efnis að það yrði sett inn þarna heimildarákvæði um að það mætti víkja frá þeirri reglu að sjúklingurinn skyldi ávallt greiða sjálfur allan flutningskostnað innan 10 km. En þetta er að sjálfsögðu mál sem kemur sveitarfélögunum ekki við né heldur því máli sem hér liggur fyrir, þ.e. að koma á verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta,

þegar grannt er skoðað, væri miklu frekar mál sem tengist almannatryggingunum yfirleitt og það ber að laga þetta í tengslum við endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni.
    Nú hef ég aflað mér upplýsinga um að slík endurskoðun er í gangi og eftir að ég hef fengið þær upplýsingar að þessari ábendingu minni og þeirri hugmynd að vera þarna með það heimildarákvæði sem ég hef lýst er vel tekið hef ég ekki í hyggju að flytja neina brtt. við það frv. sem hér liggur fyrir, en ég vildi engu að síður að þetta kæmi fram.
    Að öðru leyti lýsi ég yfir stuðningi við frv. í heild sinni eins og það liggur nú fyrir með þeim brtt. sem samstaða myndaðist um í hv. félmn. Ed. og hef ekki frekar um þetta mál að segja.