Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Hæstv. félmrh. hafði orð á því að hún mundi ekki deila áhyggjum með mér vegna smæstu sveitarfélaganna. Áhyggjur eiga misjafnan uppruna og það er þess vegna ekki út af fyrir sig mikill boðskapur hjá hæstv. félmrh. þótt fram komi þessi yfirlýsing. Hitt var aftur mikilvægara og á það vil ég alveg sérstaklega benda hér að í máli sínu tók hæstv. félmrh. undir mínar áhyggjur. Það var ekkert annað.
    Ég gat þess í minni fyrri ræðu að í tekjustofnafrv. og einkum þá í gegnum Jöfnunarsjóð ætti að bæta smæstu sveitarfélögunum upp það sem hallaðist á í þessum efnum. En það haggar ekki því að þau verða að fara á önnur mið að sækja sínar tekjur og í stærra mæli til Jöfnunarsjóðs en áður hefur verið. Það er leitast við að bæta þeirra aðstöðu með fjárframlögum úr Jöfnunarsjóði, en aftur á móti hafa þau ekki beina tekjustofna til móts við sínar þarfir með öðrum hætti meira að segja og þrátt fyrir að þær séu stórlega vanmetnar miðað við það sem gerist almennt í þjónustu við fólkið í þessu landi. Þetta vil ég leggja sérstaka áherslu á.
    Ég bendi á að auðvitað er Jöfnunarsjóður ekki nein föst stærð í þessum efnum. Jöfnunarsjóður hefur fengið að þola ýmislegt, það vita menn, og tekjuviðmiðun hans hefur oft og tíðum ekki komið til skila. Og hvar skyldi það á lenda? Ætli það lendi ekki á þeim sveitarfélögum sem eiga þar mestra hagsmuna að gæta? Þetta er nefnilega ákaflega mikill veikleiki í þessu máli og það er einmitt þess vegna sem ég var að benda á þessi mikilvægu atriði í minni fyrri ræðu og ég fagna því að hæstv. félmrh. er mér sammála að þessu leyti. Þennan jöfnuð ef jöfnuð skyldi kalla verða menn að sækja í gegnum Jöfnunarsjóð. Tekjustofnanir sjálfir skila honum ekki. Það er það sem skiptir máli í þessum efnum.