Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það er liðinn nokkur tími frá því að það hófst umræða um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég veit ekki hvort þann tíma er hægt að telja í áratugum, en ég hygg reyndar að svo sé. Meðan ég fór með félmrn. gerði ég tilraunir til að ná samningum milli ríkis og sveitarfélaga um verkaskiptingu og tekjuskiptingu eftir tilteknum málaflokkum. Það tókst allvel að því er varðar sérstaklega heilbrigðismálaþáttinn, en menn komust ekki lengra að sinni. Síðan hefur verið unnið að þessum málum með skipulegum hætti og niðurstaða liggur fyrir. Sú niðurstaða byggist á því að Samband ísl. sveitarfélaga segir við ríkisstjórnina og Alþingi: Við viljum semja um þetta á þessum tiltekna grundvelli þar sem tekin eru út tiltekin verkefni og í rauninni eru þau verkefni sem þarna er tekið á valin í aðdraganda málsins.
    Það er alveg ljóst að megináhyggjur sveitarfélaganna í þessum efnum hafa stafað af því að þau hafa talið að kostnaður við sjúkratryggingar sérstaklega æddi upp úr öllu valdi og það væri óþolandi fyrir sveitarfélögin að búa við slíkt þar sem þau koma í raun og veru hvergi nærri því að ákveða þann kostnað. Þess vegna hafa sveitarfélögin sagt sem svo: Við viljum að ríkið yfirtaki þetta af því að það ræður úrslitum um kostnaðarákvarðanirnar, en í staðinn eru sveitarfélögin reiðubúin að taka á sig tiltekin verkefni.
    Niðurstaðan hefur svo orðið sú að sveitarfélögin hafa m.a. ákveðið að taka á sig verkefni sem lúta sérstaklega að skóla-, fræðslu- og menntamálum. Þar er um að ræða byggingar grunnskóla, þar er um að ræða akstur, mötuneytiskostnað, kvótastörf eins og það er kallað. Þar er einnig um að ræða byggingar dagheimila og þar er um að ræða tónlistarfræðslu.
    Ég er sannfærður um að meginhluti sveitarfélaganna mun leggja áherslu á að þjóna þessum þáttum eins vel og ýtrast er unnt. Ég er sannfærður um að mörg þeirra munu reyna að nota það svigrúm sem fyrir liggur eftir að þau losna við sjúkratryggingarnar til að þjónusta þessa þætti betur. Mér er hins vegar fullkomlega ljóst að mörg lítil sveitarfélög munu eiga erfitt með að þjónusta þessa þætti eins og skynsamlegt og nauðsynlegt er. Ég er þá kannski alveg sérstaklega að tala um dreifbýlishreppa ýmsa þar sem t.d. hefur verið komið upp tónlistarskólum af litlum efnum við þröng skilyrði á undanförnum árum, tónlistarskólum sem þó hafa skilað þessum dreifðu byggðum langt áleiðis menningarlega þannig að sums staðar er hægt að tala um menningarlega vakningu í þessum byggðarlögum.
    Ég bendi einnig á í þessu sambandi að þó að sem betur fer sé það þannig að langflest byggðarlög hafa þegar fyrir alllöngu eða hafa á síðustu árum verið að ljúka við byggingar grunnskóla er það svo að enn önnur byggðarlög, allfjölmenn að vísu á okkar mælikvarða, eru með sína barnaskólastarfsemi, grunnskólann, í gömlu húsnæði sem þarf að endurnýja. Dæmi um þetta er t.d. Siglufjörður. Ég er

sannfærður um að þó að framlög ríkisins til dagheimila á undanförnum árum hafi verið lítil hefur yfirleitt munað dálítið um þau.
    Ég vil af þessum ástæðum, herra forseti, ekki láta hjá líða að taka það fram að ég mun hvað sem afgreiðslu þessa máls líður beita mér fyrir því að það verði gerðar ráðstafanir til að tryggja að tónlistarfræðslan í landinu, einkum í tónlistarskólunum sjálfum, líði ekki eða sem minnst fyrir þessa breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég mun sömuleiðis beita mér fyrir því í samræmi við stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar að tekið verði sérstaklega á þeim málum sem lúta að dagheimilum, leikskólum eða forskólastigi, en í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar stendur: ,,Unnið verði að setningu löggjafar um forskólastigið.``
    Ég bendi að vísu á í þessu sambandi að þarna fer því víðs fjarri að um skilningsleysi sé að ræða hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga eða hæstv. félmrh. Það er mjög langt frá því. Hún hefur, félmrh., ásamt Sambandi ísl. sveitarfélaga beitt sér fyrir því að tiltekinn hluti af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga gangi til þessara verkefna, bæði að því er varðar mötuneytiskostnað, skólaakstur, tónlistarfræðslu. Ég er viss um að þær áherslur sem fyrir liggja í frv. eins og það er nú og í greinargerðum þess, ræðum og nefndarálitum eru með þeim hætti að því er lýst yfir alveg fullum fetum að hér á ekki að ganga á hlut hinna smæstu og dreifðustu byggða. Því er lýst yfir alveg fullum fetum. Og ég segi það fyrir mig: Ég áskil mér allan rétt til þess bæði sem þingmaður og ráðherra að ganga eftir því að svo verði gert skýlaust.
    Mér finnst hins vegar við þá umræðu sem hér stendur yfir alveg óhjákvæmilegt að ég láti sem menntmrh. þessi sjónarmið mín koma fram. Ég tel ekki að mér leyfist að láta þessa umræðu ganga fram hjá mér öðruvísi en að þessi sjónarmið komi fram. Ég hef að vísu orðið var við það hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga að það að anda á þessar hugmyndir flokkast svo að segja undir guðlast á þeim bæ. Ég vil segja það úr þessum opinbera ræðustól við Samband ísl. sveitarfélaga ef það skyldi einhvern tíma heyra til mín eða lesa það sem ég segi hér: Ég áskil mér allan rétt til að gera athugasemdir við Samband ísl. sveitarfélaga og niðurstöður þess eftir því sem efni og ástæður leyfa. Hvorki Samband ísl.
sveitarfélaga né aðrir geta hindrað mig í að hafa skoðanir á málum og gegna starfsskyldum mínum sem menntmrh.