Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Í skýrslu um málefni tónlistarskólanna með tilliti til áforma sem uppi eru um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga segir m.a. í áliti fulltrúa félmrn. og fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga, Sigurgeirs Sigurðssonar, með leyfi forseta: ,,Engin haldbær rök hafa komið fram gegn fyrirhuguðum breytingum og ekkert sem bendir til að fagleg eða fjárhagsleg staða skólanna veikist við þær. Í ljós hefur komið að þróun skólastarfsins hefur verið hvað stöðugust í þeim skólum sem reknir hafa verið af sveitarfélögum, samanber t.d. Mosfellsbæ, Garðabæ og Seltjarnarnes. Þetta bendir til þess að besta fyrirkomulagið sé að láta viðkomandi sveitarfélög annast þennan rekstur.
    Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum kemur í ljós að framlög sveitarfélaga hafa á undanförnum árum aukist verulega meira en framlög ríkissjóðs. Þetta bendir til þess að heimamenn meti þessa menningarstarfsemi að verðleikum.`` Þá segir hér líka: ,,Það hlýtur hins vegar að vekja athygli og spurningar að á sama tíma er tónmenntafræðsla í grunnskólum stórlega vanrækt og nær helmingur grunnskólanemenda í 1.--8. bekk fær enga kennslu í greininni. Þetta gerist þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um að nemendurnir eigi rétt á þessari kennslu.``
    Í ljósi þessa segi ég já.