Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða, frv. um málefni aldraðra sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur nú mælt fyrir. Ég á sæti í hv. heilbr.- og trn., sem fær þetta frv. til umfjöllunar, og þarf því kannski ekki við 1. umr. málsins að hafa um það langt mál. Ég vildi þó í örfáum orðum lýsa ánægju minni með þetta frv. þegar á heildina er litið, þó með þeim fyrirvara að stutt er síðan þetta frv. kom fram eins og svo mörg önnur sem rignt hefur yfir okkur síðasta sólarhringinn. Því hefur lítill tími unnist til að kynna sér frv. í einstökum atriðum. Ég taldi satt best að segja að hér væri um að ræða eitt af mörgum frumvörpum sem þannig hlýtur að vera ástatt um að ekki sé reiknað með að fari í gegnum þingið nú heldur sé fyrst og fremst verið að sýna það til kynningar, en hæstv. ráðherra lagði áherslu á að þetta mál fengi skjóta afgreiðslu í nefndinni og vel má vera að það geti tekist.
    Þjónusta hvers konar við aldraða hefur vissulega farið vaxandi á undanförnum árum, enda hefur þörfin aukist þar sem lífaldur manna fer hækkandi, öldruðum fjölgar í þjóðfélaginu, en kannski ekki hvað síst vegna breyttra þjóðfélagshátta. Þar sem aldraðir eiga nú ekki lengur athvarf í skjóli ættingja sinna eða barna eins og áður gerðist þarf að leita eftir þjónustu og aðstoð við þá annars staðar frá.
    Ég hef ekki hnotið um neitt sérstakt sem ég á þessu stigi málsins ætla að gera athugasemdir við að undanskildum tveimur atriðum sem ég vil hafa fyrirvara um. Það er annars vegar varðandi 10. gr., um gjaldið, sem þar er gert ráð fyrir, 2500 kr. á árinu 1989. Mér þykir það vera kannski meginmálið hvort tryggt er að þetta gjald fari óskert í Framkvæmdasjóð aldraðra ef að lögum verður því að við höfum nú reynsluna af því að þegar verið er að samþykkja markaða tekjustofna til ýmissa góðra mála vill oft eftir á koma til skerðing á slíkum tekjum og þær renni í ríkishítina óskipt. Ég geri fyrirvara um þetta atriði.
    Nú er talað um að frv. eigi ekki að taka gildi fyrr en 1990, en í frv. er gert ráð fyrir að þetta gjald sé lagt á á árinu 1989. Ég næ þessu ekki alveg. Ég vildi fá skýringu á því frekar hvort ég hef misskilið þetta eitthvað.
    Hins vegar vil ég einnig gera fyrirvara um 27. gr., um þau 11 þús. kr. mörk sem þar eru sett. Mér finnst það vera ansi lág tala og yfirleitt hafa í mínum huga alltaf verið efasemdir um það atriði að vistmaður skuli greiða af lífeyristekjum sínum sem hann hefur umfram það sem gert er ráð fyrir að sé lágmarkstekjur og koma frá Tryggingastofnun.
    Hins vegar vil ég taka undir þann þýðingarmikla þátt sem er heimaþjónustan, III. kafli frv. hér, og einnig IV. kaflann sem varðar fyrirkomulag öldrunarþjónustunnar. Heimaþjónustan er sá þáttur sem ber að leggja ríka áherslu á og hefur reyndar verið lögð aukin áhersla á en víða hreint ekki nægjanlega því að heimaþjónustan er þýðingarmikill þáttur annars vegar til að hjálpa öldruðum til að búa sem lengst heima, hjálpa þeim til að halda reisn sinni og

sjálfsvirðingu, hjálpa öldruðum til sjálfshjálpar ef við getum orðað það svo. Hins vegar er þetta hagkvæm lausn til að veita þá þjónustu sem nauðsynleg er hverjum einstaklingi eða þörfum hvers og eins og miklu ódýrari en þegar sú þjónusta kemur frá stofnunum. Ég vildi sérstaklega taka undir þennan þátt í frv. og mér sýnist það vera nýmæli af hinu góða að það á að flytja öldrunarnefndir á starfssvæði heilsugæslustöðvanna. Ég held að það hljóti að vera af hinu góða.
    Ég vildi, hæstv. forseti, með þessum örfáu orðum fyrst og fremst lýsa ánægju minni með frv. þrátt fyrir það að ég hafi fyrirvara um einstök atriði sem að sjálfsögðu verða þá skoðuð í nefnd.