Ríkisábyrgðir
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hér í umræðum hvað eftir annað í vetur að útgáfa ríkisbankanna á bankabréfum sé í raun og veru útgáfa á ríkistryggðum skuldabréfum. Sú ríkisábyrgð, sem á bak við ríkisbankana er, felur í reynd í sér að bankabréfin séu ígildi ríkisbréfa. Útgáfa þessara bankabréfa hefur aukist mjög á síðustu árum, jafnvel á síðustu mánuðum, og við erum þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að ákveðið samræmi sé á milli annarra ríkisábyrgða sem tíðkast í okkar kerfi og þessara bankabréfa. Jafnframt er frv. liður í því að skapa grundvöll fyrir samfellda vaxtalækkun þar eð útgáfa bankabréfanna á mun hærri vöxtum en eðlilegt væri miðað við form þeirra og bakgrunn hefur að ýmsu leyti verið ein af hindrununum á vaxtalækkunarferlinum.
    Frv., sem ég mæli hér fyrir, felur því eingöngu í sér að taka upp samræmingu hvað ríkisábyrgðargjald snertir og að horfast í augu við þá staðreynd að meðan ríkisábyrgð hvílir á ríkisbönkunum og þeir gefa út verðbréf með þessum hætti er fullkomlega eðlilegt að þeir greiði einnig ríkisábyrgðargjald fyrir þann útgáfurétt. Síðan kæmi auðvitað til greina að taka upp skynsamlegri stýringu á verðbréfaútgáfu af þessu tagi í samræmi við það sem tíðkast í ýmsum löndum. Þar þurfa stofnanir að tilkynna væntanlega útgáfu verðbréfa og fara í útgáfuröð. Slík aðferð er talin stuðla að stöðugleika á verðbréfamarkaðnum. Vissulega kæmi einnig til greina að fylgja slíku eftir og ræða það við bankana og önnur fjármálafyrirtæki sem stunda hér verðbréfaútgáfu, bæði fjármálafyrirtæki ríkisins og einnig á hinum almenna markaði. Það bíður hins vegar seinni tíma að velta því fyrir sér. En nauðsynlegt var talið að tryggja strax að það ríkisábyrgðargjald, sem ég mæli hér fyrir, verði lagt á þessi ríkisbréf sem viðskiptabankar í eigu ríkisins gefa út.
    Ég mælist svo til þess að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. þar sem fulltrúar fjmrn. og Seðlabankans geta væntanlega gefið nánari upplýsingar um eðli málsins.