Ríkisábyrgðir
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þetta er eitt af mörgum skattafrumvörpum þessarar ríkisstjórnar og ber eins og önnur slík frv. ríkisstjórnarinnar þess vitni að þar er annars vegar það látið ráða ferðinni að reyna að ná meiri tekjum inn í ríkissjóð en á hinn bóginn er ekki gætt samræmis í skatttökunni. Þannig kemur það strax í ljós við yfirlestur frv., og þarf ekki lengi að grufla, að það eru einkum gælusjóðir ríkisstjórnarinnar sem eiga að njóta skattfríðindanna áfram. Hér er talað um það að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina skuli undanþeginn ábyrgðargjaldinu en á hinn bóginn gerir hæstv. fjmrh. ráð fyrir því að Byggðasjóður eigi að greiða ábyrgðargjaldið. Nú væri fróðlegt strax við fyrstu umræðu að fá upplýst hjá hæstv. fjmrh. hvaða þankar liggja þar að baki. Ef íhugað er hvert sé eðli Byggðasjóðs og Atvinnutryggingarsjóðs og því velt fyrir sér hvaða samvinna hefur verið milli þessara tveggja sjóða og hvaða þýðingu þeir hafa, ekki síst í sambandi við atvinnulífið úti á landi, hygg ég að það muni vefjast fyrir hæstv. fjmrh. hvers vegna það misræmi er sem þegar er orðið milli þessara sjóða með því m.a. að Byggðasjóður er látinn greiða 6% lántökugjald sem Atvinnutryggingarsjóðurinn sleppur við og þar fram eftir götunum.
    Ég þarf heldur ekki að taka fram að það er undarlegt ef t.d. Framleiðnisjóður á að greiða ábyrgðargjald af þessu tagi. Ég veit ekki hvað fyrrv. landbrh. segir um það, hæstv. forseti, hvort honum finnist vera sá eðlismunur á Atvinnutryggingarsjóðnum og Framleiðnisjóðnum að tvímælalaust sé rétt að Framleiðnisjóður skuli bera ábyrgðargjöld sem Atvinnutryggingarsjóði er ekki ætlað að bera. Við getum velt fyrir okkur sjóði eins og Lánasjóði sveitarfélaga. Ég hafði ekki lagasafnið við höndina og láðist að fletta því upp áður en umræðan hófst hvort Lánasjóður sveitarfélaga er með ríkisábyrgð. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hjá hæstv. ráðherra hvort hann hugsar sér að láta þann sjóð greiða ábyrgðargjaldið. Svo ég taki enn eitt dæmi: Hugsar hann sér t.d. að Lánasjóður ísl. námsmanna eigi að greiða þetta ábyrgðargjald? Ef Lánasjóður ísl. námsmanna á að greiða ábyrgðargjaldið hvers vegna á þá ekki Atvinnutryggingarsjóðurinn að gera slíkt hið sama? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að ríkisstjórnin leggi fram, helst hér við 1. umr., lista yfir þá sjóði sem þeir ætlast til að greiði þetta ábyrgðargjald eða í það minnsta einhvern rökstuðning fyrir því hvers vegna þeir þrír sjóðir eru valdir sem um getur í 2. gr. Auðvitað gegnir sérstöku um Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna vegna þess að þessir tveir sjóðir fá þvílík framlög úr ríkissjóði að það að skattheimta þá væri algerlega út í hött, eins og raunar á við um Byggðasjóð, sem fær framlög úr ríkissjóði, og Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem einnig hefur sérstaka tekjustofna. Þannig að þar er verið að éta skottið á sjálfum sér eins og í sumum málum öðrum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram.
    Það er nú þegar svo að ríkisbankar greiða sérstakt

ríkisábyrgðargjald af erlendum lánum sem þeir taka og er því ekki um neina nýlundu þar að ræða ef ég skil frumvarpið rétt. Ég mun að sjálfsögðu athuga það í nefnd. En ég óska sem sagt eftir því að hæstv. fjmrh. útskýri fyrir okkur hér í deildinni hvaða eðlismunur er á milli Byggðasjóðs og Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Hversu má það vera að þetta sérstaka ábyrgðargjald á að falla á Hlutabréfasjóðinn, en eins og við vitum er litið svo á að aðildarbréf Hlutabréfasjóðs séu í eðli sínu skuldabréf. Og gert er ráð fyrir að ríkissjóður ábyrgist allt að 600 millj. kr. af aðildarbréfum Hlutabréfasjóðs. Nú er það að vísu enn eitt gæluverkefnið hjá ríkisstjórninni.
    Hitt er augljóst að hæstv. félmrh. hefur mikil ítök og getur komið miklu fram með því stundum að ganga út af ríkisstjórnarfundum þannig að ég sé að húsbréfasjóðurinn er kominn þarna inn og væri kannski fróðlegt að fletta því upp um leið og málið fær meðhöndlun í nefnd hvaða sjóðir það séu aðrir sem heyra undir og falla undir félmrh. sem þessi nýja gjaldtaka á að taka til. Ég held að það hljóti að vera að hæstv. félmrh. hafi samþykkt það að þessi skattlagning komi á Lánasjóð sveitarfélaganna. Ef ég man rétt þá nýtur sá sjóður ríkisábyrgðar en ég þori að vísu ekki að fullyrða það nema athuga það sérstaklega.
    Ég skal svo ekki segja meira um þetta. Mér finnst sjálfsagt að athuga þetta mál gaumgæfilega. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra annaðhvort hér við umræðuna eða þá starfsmenn hans í fjh.- og viðskn. leggi fram tæmandi lista yfir þá sjóði sem ætlast er til að greiði gjaldið. Úr því að á annað borð er farið að undanþiggja suma sjóði, þá hlýtur að vera óhjákvæmilegt að bera saman. Hvernig er t.d. með Framkvæmdasjóð aldraðra? Ég man ekki lögin, en er hugsanlegt að hann hafi heimild til að kaupa skuldabréf? Það er svona ýmislegt sem kemur upp í hugann en ljóst er um Framleiðnisjóðinn að hann hefur þvílíkar heimildir. Hlutabréfasjóðurinn vinnur beinlínis þannig að ætlast er til að hann fái allt sitt fjármagn með því að bjóða fram skuldabréf í A- og B-flokki. A-flokkurinn nýtur ríkisábyrgðar og væri raunar fróðlegt að vita og fá úr því skorið hvort B-flokkurinn gerir það ekki líka. En eftir þeirri undarlegu
lagatúlkun sem gefin var á ríkisstjórnarfundi eftir áramótin, þegar því var haldið fram að skuldabréf Atvinnutryggingarsjóðsins nytu ríkisábyrgðar, hygg ég að segja megi að einnig B-hluti Hlutabréfasjóðsins megi gera það ef þetta undarlega orð, sem farið er að flagga upp á síðkastið, ,,eigendaábyrgð`` þýðir nokkurn skapaðan hlut. Það hefur verið tískuorð síðustu missirin þó mér sé ómögulegt að finna í gömlum skruddum sem ég átti frá unga aldri þetta orð neins staðar skilgreint.
    En þetta er sem sagt efni fyrirspurnar minnar: Hvers vegna Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina en ekki Hlutabréfasjóður eða Byggðastofnun? Hvers vegna Byggingarsjóður verkamanna og Byggingarsjóður ríkisins en ekki Lánasjóður

námsmanna? Og spurningin hvers vegna Lánasjóður sveitarfélaga ef það er rétt sem mig minnir að sá sjóður njóti ríkisábyrgðar? Við getum líka talað um ýmsa aðra sjóði, við getum talað um Hafnabótasjóð og ýmsa aðra sjóði. Eiga allir þessir sjóðir að inna þetta gjald af hendi? Hvað býst ríkisstjórnin við að hún fái miklar tekjur út úr þessu? Ég held að það sé líka nauðsynlegt að það komi fram hér við umræðuna. Hvað er gert ráð fyrir að þetta verði mikill tekjustofn fyrir ríkissjóð? Mig langar líka til að spyrja: Hefur ríkisstjórninni nokkurn tíma dottið í hug að þetta ábyrgðargjald skuli geymt sérstaklega í sjóði þannig að það megi nota það síðar meir til þess að mæta áföllnum ríkisábyrgðum ef til kemur? Það eru margvíslegar spurningar sem vakna af þessu tilefni.
    Ég vil líka nota tækifærið núna til að spyrja þessa tvo ráðherra sem hér eru, hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh., hvað sé um Hlutabréfasjóðinn. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir síðast þegar hann stóð í þessum ræðustól að af því 31 fyrirtæki sem athuguð höfðu verið af stjórn Hlutabréfasjóðs þyrftu 15 þeirra á tveim milljörðum að halda. Nú liggur fyrir að ríkisábyrgðin tekur aðeins til 600 millj. eins og ég skil lögin. Ætlar ríkisstjórnin sér að beita sér fyrir því að ábyrgðin í Hlutabréfasjóðnum verði aukin? Þau 16 fyrirtæki sem eftir eru, ef maður notar hlutfallareikning, þurfa þá 4 milljarða til sín og í ræðu sem hæstv. sjútvrh. flutti í Sþ. í nótt minntist hann m.a. á það að ekki hefði verið nógsamlega unnið að málefnum sjávarútvegsins. Hann sagði að árangurinn væri ekki nægilegur og talaði þá sérstaklega um það að hann gerði sér miklar vonir um það að bæði Atvinnutryggingarsjóðurinn og Hlutabréfasjóðurinn gætu hjálpað upp á sakirnar. Ég hef ekki nýjar upplýsingar um það hvernig lessið stendur í Atvinnutryggingarsjóðnum. Fyrir mánuði bjuggust þeir við því að peningarnir mundu e.t.v. duga ef þeir væru ekki of litlir. Nú liggur fyrir að sennilega þarf að margfalda ábyrgðarupphæðina í Hlutabréfasjóðnum með 7 til þess að hún sé nægileg fyrir framleiðslugreinarnar. Spurningar mínar eru sem sagt þessar:
    1. Hvers vegna tekur ábyrgðargjaldið til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina en ekki til Hlutabréfasjóðs og ekki til Byggðasjóðs?
    2. Hvers vegna tekur ábyrgðargjaldið til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna en ekki til Lánasjóðs námsmanna?
    3. Er meiningin að skattleggja með þessum hætti Lánasjóð sveitarfélaga eða er hann undanþeginn?
    4. Úr því að þetta mál ber hér á góma, úr því að spurningunni var ekki svarað í nótt, ætlar ríkisstjórnin að standa fast við það að í Hlutabréfasjóðnum standi ríkið einungis á bak við 600 millj., þá muni ríkisstjórnin halda við 600 millj., eða hyggst ríkisstjórnin auka heimildina til ríkisábyrgðar þannig að hún taki e.t.v. til 4 milljarða eins og allar líkur eru á að þörf sé fyrir í þeim sjóði ef hægt á að vera að styrkja sjávarútveginn úti á landi með þeim hætti sem Framsfl. telur nægilegt eins og ég skil það?
    Báðir þeir ráðherrar sem hér eru inni lýstu því yfir

í nótt að þeir teldu að ekki kæmi til greina að breyta gengi krónunnar um leið og þeir lýstu því báðir yfir í nótt að þeir teldu eðlilegt að þær kjarabætur sem samið hefur verið við BSRB um muni ganga yfir hinn almenna vinnumarkað þannig að það er ljóst að fjárþurrð atvinnurekstrarins mun vera vaxandi en ekki minnkandi því að allir draumar um batnandi ytri skilyrði sjávarútvegsins eru úti í blámóðu fjarskans, eru hillingar. Stundum geta hillingarnar verið leiðbeining. Stundum, ekki alltaf.