Ríkisábyrgðir
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í mikilli vinsemd beina þeim tilmælum til hv. þm. Halldórs Blöndals hvort ekki væri vænlegra að þessi almenna umræða sem hann var að leggja hér drög að geti farið fram við 2. umr. um þetta frv. þegar hv. fjh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til þess að fjalla um það. Sú ósk mín stafar kannski aðeins af því að ég hafði reiknað með að við gætum lokið þessari umræðu nú og komið þessu frv. til nefndar og hafði gert áætlanir í samræmi við það þó auðvitað sé sjálfsagt og eðlilegt að deildin taki þann tíma sem hún þarf. Ég set þetta sjónarmið fram hér og nú vegna þess að mér fannst gæta viss misskilnings í ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals sem ég held að sé eðlilegra að fjalla um í nefndinni. En ég get varpað ljósi á þá ályktun mína með því að segja: Ef þetta ríkisábyrgðargjald skilaði ríkissjóði engum tekjum, þá teldi ég það hafa náð tilgangi sínum. Það er þess vegna misskilningur að hér sé um tekjuöflunarfrv. að ræða fyrir ríkissjóð, heldur er fyrst og fremst um að ræða samræmingu í vaxtakerfinu í landinu, þar sem annars vegar eru gefin út spariskírteini ríkisins með fullri ríkisábyrgð sem bera tiltekna vexti og hins vegar önnur verðbréf sem seld eru á almennum markaði sem í reynd bera einnig ríkisábyrgð. Ég er t.d. persónulega þeirrar skoðunar að ef bankarnir hættu útgáfu bankabréfa, þá væri það mjög skynsamleg ákvörðun bæði frá bankalegu sjónarmiði og frá vaxtalegu og efnahagslegu sjónarmiði. Þá mundi það ríkisábyrgðargjald á bankabréfum, sem hér er verið að gera tillögu um, ekki skila ríkissjóði einni einustu krónu. Það væri að mínum dómi mjög árangursrík niðurstaða af þessu frv. Þetta væri hægt að útskýra í nokkuð löngu máli, en ég held að það sé heppilegra að nefndin sé sá vettvangur þar sem sú kynning og umfjöllun fer fram. Þess vegna er hér eingöngu um að ræða samræmingarfrv. í vaxtamálum, en ekki tekjuöflunarfrv. fyrir ríkissjóð. Ég vona að þetta komi nokkuð skýrt fram í grg. og vil beina þeim tilmælum til hv. þm. hvort við getum ekki sameinast um það að ítarlegri umfjöllun um málið fari fram þegar hv. fjh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til þess að kynna sér efnisgrundvöll frv.
    Hvað snertir Hlutabréfasjóðinn þá er auðvitað hægt að fjalla um hann ítarlega hér og nánast við hvaða tækifæri sem menn kjósa en það er þó alveg ljóst að sú umræða mun taka nokkuð langan tíma og ég hefði talið heppilegra fyrst hæstv. forsrh. kemur til landsins á morgun að sú umræða færi fram að honum viðstöddum.